Kári Stefánsson segist hundrað prósent viss um að það sé ekki hann sem Edda Falak sé að vísa í á samfélagsmiðli þegar hún nefnir þjóðþekktan mann sem hafi keypt vændi af konu. Edda segist í samtalið við Stundina ekki ætla að greina frá því hver maðurinn sé. Svar hennar til núverandi stjórnanda og fyrrverandi stjórnanda hjá SÁÁ sem spurðu um þessi skrif hennar hafi verið innihaldslaust enda sé hún alltaf fyrst og fremst að huga að trúnaði við þolanda.
Edda Falak birti í gærmorgun eftirfarandi færslu inn á Baráttuhópi gegn ofbeldismenningu á Facebook. Hópurinn er öllum opinn sem eru á Facebook en hann telur um 6.500 meðlimi:
Sem fyrr segir birti Edda Falak þessa færslu í hópnum í gærmorgun.
„Mér er sagt að gerandinn sé Kári Stefánsson“
Síðdegis átti að fara fram formannskjör í SÁÁ en Einar Hermannsson fyrrverandi formaður sagði af sér formennsku fyrir rúmri viku eftir að upp komst að hann hefði fyrir nokkrum árum keypt vændisþjónustu af konu sem var í mikilli fíkniefnaneyslu og skjólstæðingur SÁÁ. Sigurður Friðriksson sem var varaformaður í tíð Einars Hermannssonar er einnig hættur. Síðastliðinn mánudag tilkynnti Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar að hún ætlaði að bjóða sig fram til formanns SÁÁ á fundinum sem halda átti í dag.
„Mér hefur verið sagt að gerandinn sé Kári Stefánsson. Getur þú staðfest við stjórn SÁÁ að svo sé ekki?“
Skömmu fyrir hádegi í dag sendi Arnþór Jónsson, fyrrverandi formaður SÁÁ og núverandi stjórnarmaður í SÁÁ Þóru Kristínu bréf sem 48 manna stjórn SÁÁ fékk afrit af. Í bréfinu birtir Arnþór skjáskot af færslu Eddu Falak frá því deginum áður og spyr: „Mér hefur verið sagt að gerandinn sé Kári Stefánsson. Getur þú staðfest við stjórn SÁÁ að svo sé ekki?“
Stundin hefur ekki upplýsingar um hvort Þóra svaraði bréfinu en Edda Falak segir í samtali við Stundina að hún hafi átt samtöl bæði við Arnþór og konu úr núverandi framkvæmdastjórn SÁÁ og þau hafi spurt hvort hún væri að tala um Kára.
Edda segir í samtali við Stundina að hún hafi svarað þeim báðum af hálfkæringi því hún hafi ekki haft í hyggju að opinbera nafn mannsins við fólk út í bæ því hennar trúnaður sé við þolandann.
„Ég svaraði konu úr stjórn SÁÁ og þessum fyrrverandi formanni SÁÁ í hálfkæringi, þetta var innihaldslaust svar af því að ég þarf ekki að svara fyrir neitt“
„Ég ætla ekki að greina frá því hver þessi maður er. Ég svaraði konu úr stjórn SÁÁ og þessum fyrrverandi formanni SÁÁ í hálfkæringi, þetta var innihaldslaust svar af því að ég þarf ekki að svara fyrir neitt, enda er ég fyrst og fremst bundin trúnaði gagnvart þolandanum og í öðru lagi hef ég engan áhuga á að taka þátt í einhverri pólitík innan SÁÁ,“ segir Edda Falak í samtali við Stundina.
Hætti við formannsboð eftir fyrirspurnina
Rúmum fjórum klukkustundum eftir að Arnþór Jónsson sendi fyrirspurn til Þóru Kristínar og afrit til allrar stjórnarinnar, eða á fjórða tímanum í dag, sendi Þóra Kristín frá sér yfirlýsingu til aðalstjórnar SÁÁ sem hún síðar birti á Facebook síðu sinni þar sem hún segist draga framboð sitt til formanns SÁÁ til baka og fari úr aðalstjórn samtakanna. Hún segir í yfirlýsingunni að Kári Stefánsson segi sig einnig úr aðalstjórninni.
Þóra Kristín segir að hún hafi fyrirfram vitað að það ríkti hálfgert stríðsástand í samtökunum og að hún hafi ekki farið varhluta af því þótt barist hafi verið að tjaldabaki.
„Nú er unnið að því leynt og ljóst að safna glóðum elds að höfði mér úr mínu einkalífi og þar er af nógu að taka enda hef ég líkt og aðrir sem hafa farið í áfengismeðferð, lent á vegg í lífinu og gert og sagt hluti sem ég er ekki stolt af,“ skrifar hún og sakar fyrrverandi stjórnendur samtakanna um að standa fyrir ófrægingarherferð gegn Kára Stefánssyni á netinu.
„Nú er unnið að því leynt og ljóst að safna glóðum elds að höfði mér úr mínu einkalífi“
„Það er sýnu alvarlegra að fyrrverandi stjórnendur SÁÁ eru líka að hlaða í bálköst á samfélagsmiðlum fyrir Kára Stefánsson yfirmann minn og náinn vin sem hefur einnig gert margt í sinni fortíð undir áhrifum áfengis sem hann hefði betur látið ógert og situr líkt og ég í aðalstjórn SÁÁ og er löngu hættur að drekka,“ skrifar hún.
Sendi bréf á stjórnina
Í bréfi sem Frosti Logason, fjölmiðlamaður og stjórnarmaður í SÁÁ, sendi stjórn eftir að Þóra og Kári sögðu sig úr aðalstjórn og vísir birti nú undir kvöld segir Frosti að Þóra Kristín og Kári Stefánsson hafi ákveðið að draga sig alfarið úr stjórn samtakanna vegna þeirrar „ofbeldishegðunar“ sem Arnþór Jónsson og félagar hafi verið að sýna af sér í dag eins og á liðnum árum.
„Það skal tekið hér fram að Edda Falak hefur staðfest það við Arnþór að ekki sé um Kára Stefánsson að ræða í þessum orðrómi um vændiskaup sem hún var að fiska eftir á samfélagsmiðlum. Eftir stendur að ítrekað ofbeldi Arnþórs og félaga heldur áfram að eyðileggja fyrir okkar ágætu samtökum og það er miður. Ég vildi bara hafa ykkur upplýst um þetta,“ segir í bréfi sem Frosti Logason sendi stjórn SÁÁ.
Sem fyrr segir sagði Edda í samtali við Stundina að ekkert hefði verið marktækt í svörum sínum, enda skuldi hún engum svör og ætli ekki að gefa upp hver maðurinn sé.
Svekktur yfir stöðu samtakanna
Stundin hafði samband við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og spurði hann hvers vegna hann hefði sagt sig úr aðalstjórn SÁÁ. Kári segir að það hafi hann gert vegna aðdróttana fyrrverandi stjórnenda SÁÁ í sinn garð.
Kári: „Þeir bjuggu til aðdróttanir í minn garð úr efni sem þeir fundu annars staðar.“
„Þeir bjuggu til aðdróttanir í minn garð úr efni sem þeir fundu annars staðar“
Blm: Hvaða efni?
Kári: „Það sem Edda Falak setti inn á síðu á Facebook.“
Blm: Er hún að skrifa um þig?
Kári: „Ég er hundrað prósent viss um að það er ekki verið að tala um mig, öðruvísi en að fólk sé að skálda.“
Blm: Ertu að hætta þess vegna?
Kári: „Ég er að hætta vegna þess að í undirbúningi fyrir þennan fund þar sem kjósa átti nýjan formann er verið að draga fram skít um þá sem eru í þessari stjórn, til dæmis að ég ætlaði að taka yfir SÁÁ. Ég nenni ekki að standa í þessu þegar svona mikill órói er.“
Kári segist vera með tárum yfir hvernig komið sé fyrir samtökunum. „Ég hef hjálpað til að koma ótrúlega miklum fjölda fólks inn á Vog og hef haft mikið samband við sjúkrahúsið vegna aðstandenda og mér þykir mjög vænt um SÁÁ.“
Stakk upp á framboði Þóru
Kári segir einnig að hann hafi „borið ábyrgð“ á því að Þóra Kristín fór í framboð. „Ég stakk upp á því. Hún er röggsöm kona og ofboðslega klár og fylgin sér og ég held það hafi verið gott hjá henni að hætta við formannsframboð. Nú getur fólkið í SÁÁ tekið skref aftur á bak og spurt: Hvað er að hjá okkur og hvað viljum við vera?“ segir Kári Stefánsson.
Formanns- og varaformannskjör í SÁÁ átti að fara fram síðdegis en eftir að Þóra Kristín hætti við formannsframboð var fundi frestað til 14. febrúar næstkomandi.
Þetta stingur í augun og hjartað líka .... verður fólk í dag "fyrir vændi"?????????
Lenti þá þessi kona bara alveg óvart í því að verða fyrir þessu!!!!!????
Spyr sá sem ekki veit?????