Læknar á Karolinska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð gagnrýna aukastarf forstjóra spítalans, Björns Zoëga, fyrir heilbrigðisráðherra á Íslandi og segja að það sé sérstakt að hann geti sinnt því starfi samhliða forstjórastarfinu.
Þetta kemur fram í viðtali við formann félags lækna á Karolinska-sjúkrahúsinu, Yvonne Dellmark, í sænska blaðinu Dagens Nyheter sem fjallað hefur umtalsvert um aukastarf Björns á Íslandi og þau laun sem hann fær á mánuði. „...þetta sýnir að það eru mismunandi skilyrði sem gilda fyrir stjórnendur á sjúkrahúsinu en aðra starfsmenn. Þetta er trúnaðarspurning sem gerir málið sérstaklega alvarlegt,“ segir hún við Dagens Nyheter.
Aukastarfið vekur meiri athygli
Í blaðinu kemur fram að aukastarf Björns hafi vakið meiri athygli en þau laun sem hann fær. Eins og Stundin hefur greint frá þá er hann með tæplega 5 milljónir á mánuði, nærri 4 milljónir á Karolinska-sjúkrahúsinu og tæplega 1.1 fyrir aukstarfið á Íslandi sem þó er bara hlutastarf.
Dagens Nyheter bendir hins vegar á það, líkt og Stundin hefur áður gert, að jafnvel þó að aukastarfið á Íslandi sé skilgreint sem „100 prósent“ starf, og að laun séu greidd samkvæmt því, þá sinni Björn því aðeins í hjáverkum. Björn hefur sagt að hann sinni aukastarfinu á Íslandi í frítíma sínum og um helgar og að því eigi það ekki að koma niður á forstjórastarfinu.
Þrengt að starfsfólki varðandi aukastörf
Eins og kemur fram í viðtalinu við Yvonne Dellmark þá hefur verið þrengt að starfsfólki á Karolinska-spítalanum sem verið hefur í aukastörfum samhliða störfum sínum þar og þess vegna vekur málið sérstaka athygli. Sambærileg þróun hefur verið á Íslandi þar sem Landspítalinn hefur reynt að búa þannig um hnútana að læknar starfi sem minnst annars staðar en á spítalanum, til að mynda í stofurekstri sem sérgreinalæknar.
„Starfsfólk hefur þurft að taka afstöðu á milli aukastarfsins og starfs síns á Karolinska“
Um þetta segir Yvonne: „Starfsfólk hefur þurft að taka afstöðu á milli aukastarfsins og starfs síns á Karolinska og við höfum misst þriðjung allra sérfræðinga á einni af deildum spítalans. Ekki hefur verið gefinn slaki til undantekninga frá þessari reglu,“ segir hún og því horfi það einkennilega við að forstjóri spítalans geti og megi vera í þessum tveimur störfum samtímis.
Hún gagnrýnir einnig þá hugmynd að Björn geti sinnt báðum störfunum: „Starfið sem forstjóri sjúkrahússins krefst stöðugrar aðkomu og nærværu. Það er auðvitað hann sem er ábyrgur fyrir sjúkrahúsinu,“ segir hún.
Í samtali við Dagens Nyheter segir Björn að hann líti ekki svo á að málið snúist um spurningar um trúnað gagnvart Karolinska-sjúkrahúsinu. „Ég lít svo á að þetta snúist um þekkingu sem ég bý yfir, ekki sem spurningu um trúnað. Annars hefði ég ekki tekið að mér þetta starf,“ segir Björn.
Forstjórinn lítur því ekki svo á, samkvæmt þessu, að þær spurningar sem formaður læknafélags Karolinska spyr um aukastarf hans á Íslandi feli í sér vandamál. Björn hefur sagt að ef hann geti ekki sinnt báðum störfunum þá muni hann hætta sem ráðgjafi heilbrigðisráðherra á Íslandi.
Athugasemdir (3)