Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Þau fengu íslensku bókmenntaverðlaunin

Ís­lensku bók­mennta­verð­laun­in 2021 voru veitt í kvöld.

Þau fengu íslensku bókmenntaverðlaunin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin á Bessastöðum nú í kvöld, en veitt voru verðlaun í þremur flokkum. 

Fyrir fræðibækur og rit almenns efnis þar hlaut Sigrún Helgadóttir verðlaun fyrir verkið Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni. Þá hlaut Þórunn Rakel Gylfadóttir verðlaun fyrir bókina Akam, ég og Annika í flokki barna- og ungmennabækur. Loks hlaut Hallgrímur Helgason verðlaun fyrir Sextíu kíló af kjaftshöggum í flokki skáldverka. 

Rökstuðning dómnefndar má lesa hér að neðan. 

Fræðibækur og rit almenns efnis

Sigrún Helgadóttir fyrir Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni I-II

Umsögn lokadómnefndar: „Að baki ævisögu Sigurðar Þórarinssonar liggja fjölmörg viðtöl og áralöng heimildavinna Sigrúnar Helgadóttur í dagbókum, bréfum og gögnum um ævi mannsins sem varð andlit jarðvísinda og náttúruverndar hér á landi á 20. öld; eins konar frummynd hins lífsglaða íslenska náttúrufræðings með brennandi áhuga á sögu og menningu. 

Í þessari lipru, aðgengilegu og skemmtilegu frásögn er fylgst með þróun íslensks samfélags í átt til nútímans; efnilega föðurlausa sveitadrengnum sem kemst til mennta með hjálp góðra karla og kvenna, næmur, listrænn og skemmtinn, jafnvígur á hug- og raunvísindi en kýs að leggja fyrir sig jarðfræði og verður forystumaður í þeirri grein hér á landi um leið og hann kemst í fremstu röð á heimsvísu. Höfundur heldur öllum þráðum þessa farsæla ferils í hendi sér, kryddar hann léttilega með fjörlegum frásögnum sem varpa skýru en um leið marglitu ljósi á Sigurð; lesandinn kemst í návígi við hann frá degi til dags en fær um leið góða tilfinningu fyrir þeirri miklu braut sem hann ryður með rannsóknum sínum og kennslu í jarðvísindum og ekki síður afskiptum af almennri náttúruvernd og stjórnmálum. Ljósmyndir Sigurðar sjálfs leika stórt hlutverk í því hve vel tekst til og ekki síður sú natni og hugmyndaauðgi sem liggur að baki umbrotinu á hverri opnu. 

Áherslan er á þá helgun sem fylgdi opinberum störfum Sigurðar en verkinu lýkur á fallegri og afhjúpandi mynd af fjölskyldumanninum Sigurði sem var karl síns tíma með sterka konu, Ingu V. Backlund, sér að baki – og börn sem minnast þess að hafa helst náð að tala við pabba sinn þar sem hann sat við skrifborðið í stofunni heima. Sigrún hlífir Sigurði ekki, hún gerir grín og dáist að honum, en sýnir okkur jafnframt hvernig vísindamaður verður til og mótast af stóratburðum síðustu aldar, styrjöldum, jarðskjálftum, jökulhlaupum og eldgosum.“


Barna- og ungmennabækur

Þórunn Rakel Gylfadóttir fyrir Akam, ég og Annika

Umsögn lokadómnefndar: „Fyrsta skáldsaga Þórunnar Rakelar grípur lesandann strax. Hún er vel skrifuð, skemmtileg og spennandi allt til loka, höfðar bæði til unglinga og þeirra sem eldri eru. Galdurinn liggur í næmri persónusköpun og því hvernig sýn á einstaklinga í sömu fjölskyldu er byggð upp út frá sjónarhorni Hrafnhildar, unglingsstúlku fráskilinna foreldra. 

Hrafnhildur flyst þvert gegn vilja sínum til Þýskalands með móður sinni og nýjum manni hennar. Lesandi fylgist með innri rödd unglingsins en sér hana jafnframt í þrúgandi spenntu sambandi við móður sína, sem einkennist af ákaflega trúverðugri og vel byggðri togstreitu á milli þess innra og ytra – þannig að úr verður heilsteypt og margbrotin lýsing á veruleika íslensks unglings. Sama listfengi og margræðni einkennir samskipti Hrafnhildar við gamla og nýja vini, af ólíkum kynjum, aldri og uppruna. Á öllum stigum er unnið með þversagnir í framkomu og lífi fólks, útlit og innri maður vegast á þannig að ekkert er einhlítt í því hvernig við skynjum umhverfi okkar. Allt er litað af fyrirframhugmyndum hvers konar; fullorðnir átta sig ekki á börnum sem eru sjálf ekki barnanna best þegar kemur að einelti, kúgun og ofbeldi. Inn í þessa vel heppnuðu persónusköpun er fléttuð fjölbreytt umræða um vald, spillingu, réttlæti og náttúruvernd, leitina að sannleikanum (sem getur orkað tvímælis líkt og í leikritum Ibsens) og fordóma sem tengjast þjóðerni, uppruna og trúarbrögðum. Þessi umræða fellur svo vel að sögunni að hún dregur ekki úr drifkraftinum eða forvitni lesandans að kynnast þeim sem eru leidd fram á sviðið og fá öll að njóta sín, hver á sínum forsendum. 

Akam, ég og Annika er trúverðug og spennandi saga með eftirminnilegum persónum sem fanga ákveðinn kjarna í samskiptum fólks.“

Skáldverk

Hallgrímur Helgason fyrir Sextíu kíló af kjaftshöggum

Umsögn lokadómnefndar: „Skáldsaga Hallgríms Helgasonar er stór í sniðum, kraftmikil og hugmyndarík, skrifuð af kjarnyrtum og frumlegum þrótti með skoplegri og ýktri sýn á harmræna atburði þar sem lífshættan og dauðinn bíða við hvert fótmál. Sögusviðið er upphaf síldarævintýrisins í litlu íslensku þorpi við ysta haf á fyrstu áratugum síðustu aldar og viðfangsefnið er fæðing nútímans í íslensku samfélagi, þegar erlendir athafnamenn og tækninýjungar bárust inn í kyrrstætt sveitasamfélagið sem sagan rekur um kynslóðirnar allt aftur úr harðbýlum torfhreysum á hjara veraldar inn í þá mannlífshringiðu sem skapaðist í kringum gróðavon og síldveiðar Norðmanna hér við land. Vinnuharka, grimmd og vægðarleysi eru dregin fram í daglegu basli fólks, ástum þess og örlögum. 

Sjónarhornið er að mestu bundið við ungkarlinn Gest sem er leiksoppur ytri atburða en persónur eru engu að síður fjölbreyttar, af ólíkum uppruna og þjóðfélagsstigum, og teiknaðar skýrum en margradda dráttum þannig að þær birtast lesanda ljóslifandi og eftirminnilegar, hver með sín sérkenni. Breyskleiki þeirra og göfuglyndi blasa við, hið lága vellur fram með öllum líkamsvessum og sora á bak við síldartunnur, í myrkum torfskúmaskotum og dýpstu skipslest um leið og persónur njóta fagurra og forboðinna ásta, lista og menningar í betri stofum, og þeirra forréttinda og þæginda sem auður og friðsæld geta gefið. 

Sagan er drifin áfram af tilfinningum og innri átökum Gests, ástum hans og fjölskylduharmi en bakgrunnurinn er sögulegir viðburðir og persónur sem minna á Siglufjörð. Sextíu kíló af kjaftshöggum er metnaðarfull skáldsaga sem tekst á við mannlega tilveru þar sem hlutskipti einstaklinga ræðst af uppruna og ytri aðstæðum í bland við gæfu og gjörvileik.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
2
Það sem ég hef lært

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir

Mér renn­ur blóð­ið til skyld­unn­ar

Guð­laug Svala Stein­unn­ar Kristjáns­dótt­ir seg­ir að stærsta lexía lífs síns sé lík­lega að upp­götva um miðj­an ald­ur að hún er ein­hverf. Hún hafi átt­að sig á sjálfri sér með hjálp ann­ars ein­hverfs fólks sem þá hafði þeg­ar oln­bog­að sig áfram í heimi ráð­andi tauga­gerð­ar, misst lík­am­lega, and­lega, fé­lags­lega og starfstengda heilsu áð­ur en það átt­aði sig á sjálfu sér.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég berst fyrir réttinum til að lifa“
3
Viðtal

„Ég berst fyr­ir rétt­in­um til að lifa“

Á upp­vaxt­ar­ár­un­um í suð­ur­ríkj­um Banda­ríkj­anna voru rík­ar kröf­ur gerð­ar til þess hvernig hún ætti að haga sér og sínu lífi. Þeg­ar hún fann loks frels­ið til þess að vera hún sjálf blómstr­aði hún, í ham­ingju­sömu hjóna­bandi, heima­vinn­andi hús­móð­ir, sem naut þess að sinna syni sín­um. „Ég gat lif­að og ver­ið frjáls. Það var frá­bært á með­an það ent­ist.“
Icelandair sýknað af kröfu Margrétar – Stærsti hluti bótakröfu vegna Netflix
5
Fréttir

Icelanda­ir sýkn­að af kröfu Mar­grét­ar – Stærsti hluti bóta­kröfu vegna Net­flix

Mar­grét Frið­riks­dótt­ir krafð­ist yf­ir 24 millj­óna króna í bæt­ur eft­ir að henni var vís­að brott úr vél Icelanda­ir ár­ið 2022. Hún hafði þá neit­að að taska sem hún hafði með­ferð­is yrði færð í far­þega­rými og neit­að að setja upp grímu vegna sótt­varna. Stærsti hluti af bóta­kröf­unn­ar var vegna heim­ilda­mynd­ar sem Mar­grét hugð­ist gera og selja Net­flix.
Sendu skip til Grænlands
6
Erlent

Sendu skip til Græn­lands

Hinn 10. apríl 1940, dag­inn eft­ir að Þjóð­verj­ar her­námu Dan­mörku, sendi banda­ríska strand­gæsl­an skip til Græn­lands. Um borð voru James K. Pen­field, ný­út­nefnd­ur ræð­is­mað­ur, og full­trúi Rauða kross­ins. Síð­ar það sama ár hreyfði var­aut­an­rík­is­ráð­herra Banda­ríkj­anna hug­mynd­inni um banda­rísk­ar her­stöðv­ar í land­inu. Áhugi Banda­ríkja­manna á Græn­landi er sem sé ekki nýr af nál­inni.

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
6
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár