Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Fjölmenning á skólalóðinni

Sögu­mað­ur er ekki mik­ið að flýta sér í Akam, ég og Annika. Þetta er rúm­lega 350 síðna bók og titil­per­són­urn­ar tvær birt­ast okk­ur ekki fyrr en rúm­lega hundrað síð­ur eru liðn­ar. Það er að segja þess­ar tvær nafn­greindu per­són­ur titils­ins, þau Akam og Annika. Ég-ið birt­ist okk­ur hins veg­ar strax á fyrstu síðu. Það er hún Hrafn­hild­ur, sögu­mað­ur og að­al­per­sóna bók­ar­inn­ar, sem er fjór­tán ára reyk­vískt skiln­að­ar­barn sem er rif­in upp með rót­um þeg­ar nýr mað­ur mömm­unn­ar fær gott starf í Þýskalandi.

Fjölmenning á skólalóðinni
Þórunn Rakel Gylfadóttir Höfundur bókarinnar. Mynd: Saga Sig
Bók

Akam, ég og Annika

Höfundur Þórunn Rakel Gylfadóttir
Angústúra
353 blaðsíður
Niðurstaða:

Frábær persónusköpun í grípandi sögu um vináttu, einelti, fjölmenningu, útlönd og þýska skólakerfið, saga sem leyfir heimsmálunum að flæða um síðurnar og sýnir okkur hvernig hið persónulega er alltaf pólitískt á endanum. En svo er líka bara svo fjári gaman að vera í félagsskap Hrafnhildar, Akams, Anniku og foreldra þeirra í rúmlega 350 síður, sem og skrautlegra þýskra kennara og nágranna.

Gefðu umsögn

Þetta er nokkuð klassískt stef í unglingabókum – stef sem virkar þó oftast merkilega vel: foreldrar taka ákvarðanir sem hafa afdrifarík áhrif á líf unglingsins, oft án þess að hafa unglingana með í ráðum eða taka alvöru tillit til þeirra – allavega út frá þeirra sjónarhóli, sem er oftast líka sjónarhóll lesandans. En þegar á reynir breytast foreldrarnir oftast sáralítið, en unglingarnir eru gerbreyttar manneskjur í bókarlok – jafnvel hálf fullorðnir. 

Og kosturinn við að sögumaður flýtir sér hægt er sá að persónusköpunin er hreint frábær, bæði hjá aðalpersónunum sem og minnstu aukapersónum. Eitthvað sem fullorðinsbókahöfundar gætu margir lært af ungmennabókahöfundum; það er eins og það sé hreinlega meiri alúð lögð í persónusköpun í bókum fyrir unglinga en fullorðna á Íslandi þessi misserin. Þótt þessi bók standi sannarlega upp úr þegar kemur að persónusköpun.

En aftur að Hrafnhildi. Hún er ofur-venjuleg Reykjavíkurstelpa – að eigin mati.

„Ég er ekki góð í íþróttum og get ekki einu sinni sagt að ég hafi gaman af þeim. Ef ég næ B-i í einhverju fagi, þá er það algjör grís, enda fæ ég oftast C. Ég viðurkenni reyndar að ég er ágæt í ensku og dönsku og mjög góð í íslensku en hvað er kúl við að vera góður í tungumáli sem næstum enginn talar eða skilur?“

Þessi klausa er eins og skólabókardæmi um loddaralíðan og lítið sjálfsálit – hún er greinilega góð í ýmsu en finnst bara það sem hún er léleg í telja. Sem er sjálfsagt líka bara eðlileg sjálfsmynd ansi margra krakka í gölluðu skólakerfi, þar sem verst af öllu er að falla – sem færir svo allan fókusinn á það sem krakkarnir eru lélegir í, jafnvel þegar það er eitthvað sem þau eru varla sérstaklega líkleg til að velja sér að ævistarfi nema eitthvað mikið breytist.

Við fáum svo góðan tíma til að kynnast Hrafnhildi, mömmu hennar og pabba, stjúpföðurnum og ömmunni, sem og Lindu bestu vinkonu.

Stjúppabbinn er flugmaður sem hún þolir ekki í byrjun en reynist henni þegar á líður bara ansi vel og amman er klassísk íslensk bókmennta-amma með ráð undir rifi hverju og sannar enn og aftur að fæstir virðast almennilega tilbúnir fyrir foreldrahlutverkið fyrr en þeir eru orðnir ömmur eða afar. Allavega í unglingabókum. Svo er pabbinn útivistarfrík og heitur náttúruverndarmaður – hann er samviska Hrafnhildar framan af bók – en svo kemur að því að hún þarf að flytja til Þýskalands. Þá er mamman flugfreyja sem aldrei lauk stúdentsprófi sem felur minnimáttarkennd sína gagnvart menntafólkinu í kringum sig með ofuráherslu á að allt sé lekkert í kringum hana. En þrátt fyrir að hún virki stundum ansi yfirborðskennd þá er ástar-haturssamband mæðgnanna að sumu leyti hjartað í sögunni, en eftir eina rimmuna þeirra á milli segir Hrafnhildur:

„Mig langar oft til að taka utan um hana og eiga hana ein eitt augnablik, upplifa aftur andartökin sem við áttum svo oft áður en tvíburarnir fæddust. Andartök sem föðmuðu okkur óvænt að sér. En ég hika yfirleitt of lengi, horfi á þessi andartök, sé þau fyrir mér og segi svo bara eitthvað ómerkilegt.“

Pönk og Kúrdistan í Þýskalandi

Framan af leiðir maður hugann ósjaldan að austurríska unglingabókahöfundinum Christine Nöstlinger, sem var einfaldlega langbesti unglingabókahöfundurinn sem ég ólst upp með og skrifaði meistaraverk á borð við Jóa og unglingaveikina og Vin minn Lúka. Þessi andblær verður svo enn sterkari þegar til Þýskalands er komið, nánar tiltekið í lítinn smábæ í grennd við Trier. Hér er sama hlýja og virðing borin fyrir unglingum og lífi þeirra og í bókum Nöstlinger, húmorinn er vissulega ekki alveg jafn stórkostlegur og þess vegna er þetta „bara“ fjögurra stjörnu bók, en ekki fimm stjörnu. Svo er vissulega líka örlítið þreytandi fyrir sum okkar hvað þjóðarleiðtogarnir Angela Merkel og Katrín Jakobsdóttir fá lítt gagnrýna umfjöllun, en það kemur þó ekki mikið að sök þar sem það verður seint sérstakt aðalatriði í sögunni, stíllinn sem hún þarf að skila um þær stöllur.

Hrafnhildur er auðvitað hálf-mállaus þegar hún kemur í þýskan skólann, sem þrátt fyrir að vera kallaður innflytjendaskóli virðist vera ansi forn þegar kemur að aðlögun þeirra sem eru ekki með sína þýsku upp á tíu. Þar verður hún Rabbinhildúr eða Hilda og lendir í ósveigjanlegum og stífum stærðfræði- og þýskukennurum – en smíðakennarinn er gull af manni og ólíkt öðrum kennurum virðist sögukennarinn Heinz-Otto vera flinkur að sjá mannkosti og gáfur erlendu krakkanna bak við lélega þýskukunnáttu. Hann tekur að vissu leyti við af fjarverandi pabbanum sem samviska Hrafnhildar og heldur sig sjaldnast of mikið við bókina. Þegar hann ræðir við nemendurna um réttlæti spyr Hrafnhildur:

„Getur verið að skömm eða lítið sjálfstraust komi í veg fyrir að einstaklingar leiti réttlætis?“

Heinz-Otto tekur vel í svarið og bendir krökkunum á ýmsar ástæður fyrir því að fólk treysti sér ekki að fylgja réttlætinu.

„Einstaklingum gæti líka verið hótað. Hafið þið hugsað út í það? Þekkjum við ekki öll einhverja sögu um slíkt? Þeir gætu óttast að missa eitthvað, starf, stöðu í samfélaginu, jafnvel eignir, heilsu, skyldmenni. Hverjir eru tilbúnir að fórna öllu fyrir réttlætið þegar á reynir?“

Þetta situr í Hrafnhildi – enda var engin tilviljun að hún spurði þessarar spurningar. Hún er nefnilega búin að eignast tvo gerólíka vini á þessum fyrstu vikum í skólanum, pönkarastelpuna Anniku og innflytjendastrákinn Akam.

Annika leynir á sér, er eldklár og ljúf þótt groddalegt útlitið fái suma til að halda annað – og er dóttir sterkefnaðs læknis og hefur þannig séð allt til alls. Akam er hins vegar sonur kúrdnesks andófsmanns frá hinum sýrlenska hluta Kúrdistan og í kjölfar trámatíserandi ferðalags til Þýskalands og föðurmissis lendir hann í ofanálag í einelti – og rúmlega það raunar. Hann er stærðfræðiséní sem er alveg undir hælnum á ofbeldisseggjum hverfisins sem kúga hann til að reikna stærðfræðiverkefni fyrir nemendur skólans gegn gjaldi, gjaldi sem þeir svo hirða auðvitað.

Flóttamannamálin eru svo hanteruð af mikilli næmni og leyfa sér að koma inn á meiri flækjur en maður á oftast að venjast í íslenskri umræðu, það er farið ágætlega ofan í saumana á örlögum Kúrda og heimsmálin flækt frekar en einfölduð, sem er einmitt stundum bráðnauðsynlegt að gera. Enda eru þau mál öll komin í flækju strax á skólalóðinni þar sem skúrkarnir fara með sínar rasistaræður:

„Róleg, Annika, ertu í vinnu fyrir Rauða krossinn?“

„Sagði pabbi þinn þér að vera góða stelpan?“

„Farðu, fíflið þitt!“

„Róleg, hvað kom yfir þig? Ertu gengin í flóttamannahjálpina? Eða kannski búin að stofna vináttufélag Þjóðverja og Kúrda?“

Þá fær Hrafnhildur ítrekað að heyra það að hún sé ekki innflytjandi – bæði frá mömmu sinni og svo frá Akam. Hann veit að hann verður aldrei þýskur þótt hún gæti orðið það á endanum.

„Kannski af því að við verðum aldrei alveg þýsk, sko svona þýsk-þýsk. Við verðum alltaf flóttafólk hér.“

En þegar Hrafnhildur spyr hvort hún sé ekki innflytjandi líka er svarið einfalt nei.

„Þú ert frá landi sem fólk vill fara til, ég er frá landi sem fólk vill fara frá. Þú ert ekki frá landi sem fólk vill forðast og vill helst ekki vita að sé til.“

En þótt heimsmálin séu krufin og íhuguð af þekkingu og mikilli virðingu fyrir ungum lesendum þá er þetta samt í grunninn fyrst og fremst afskaplega næm og hlý saga um vináttu, einsemd, heimþrá og það hvað það getur verið fjandi snúið að vera almennileg manneskja, sérstaklega þegar maður er ringlaður unglingur og fæstir byrjaðir að taka mann jafn alvarlega og maður á skilið.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Sigur Trump í höfn
4
FréttirForsetakosningar í BNA 2024

Sig­ur Trump í höfn

Don­ald J. Trump er spáð sigri í for­seta­kosn­ing­un­um og verð­ur því að öll­um lík­ind­um næsti for­seti Banda­ríkj­anna. Eft­ir að hafa tryggt sér kjör­menn frá Penn­sylvan­íu er Trump tal­inn eiga sig­ur­inn vís­an. Fréttamiðl­ar ytra hafa enn sem kom­ið er ekki stað­fest úrstlit­in fyr­ir ut­an banda­rísku frétta­veit­una Fox sem lýsti Trump sig­ur­veg­ara kosn­ing­anna fyr­ir skömmu. Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráð­herra hef­ur ósk­að Trump til ham­ingju með sig­ur­inn.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Pólverjar æfir vegna ólígarkans okkar
4
FréttirÓlígarkinn okkar

Pól­verj­ar æf­ir vegna ólíg­ark­ans okk­ar

Áhrifa­mikl­ir pólsk­ir stjórn­mála­menn brugð­ust í vik­unni harka­lega við frétt­um af því að ólíg­arki frá Bela­rús, sem ít­rek­að hef­ur ver­ið reynt að beita við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla hans við ein­ræð­is­stjórn­ina í Minsk, hefði kom­ið sér fyr­ir í Var­sjá. Um er að ræða ís­lenska kjör­ræð­is­mann­inn í Bela­rús, sem fer allra sinna ferða í skjóli vernd­ar sem sendi­full­trúi Bela­rús. Óá­sætt­an­legt er að hann sé full­trúi Ís­lands, seg­ir sér­fræð­ing­ur.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár