Fyrir tuttugu árum eða svo hefðu menn látið sér tvisvar að aftur væri runnin upp sú tíð að leiðtogar Bandaríkjanna og Rússlands kæmu saman á fundum til að friðmælast og minnka hættu á hernaðarátökum.
Því um aldamótin 2000 eimdi enn eftir af þeirri trú að „endir sögunnar“ væri í uppsiglingu, vestrænt lýðræði hefði sigrað heiminn og ekki yrði aftur snúið, og aldrei framar yrði hætta á stórstyrjöld í veröldinni.
En nú þegar Biden og Putin þurfa að hittast og tefla friðarskák, þá ættu þeir kannski að taka mið af nýrri uppgötvun sem fræðimenn hafa gert suður í Perú.
Því þar virðist leiðtogar Wari-ríkisins hafa haft alveg sérstaka aðferð til að leysa pólitískar deilur við aðrar þjóðir og koma í veg fyrir styrjaldir.
Þeir buðu leiðtogum mótstöðumannanna á fyllerí, gáfu þeim ókjör af ofsynjunardópi og gáðu svo hvað gerðist.
En langsamlega oftast höfðu ofskynjanir mótstöðumannanna í bland við göróttan bjórinn þau áhrif að öll vandamál leystust og langvarandi friður skall á.
Ein fjölmennasta borg í heimi
Hvað var Wari-fólkið?
Jú — kringum upphaf tímatals okkar í Evrópu (Krists burð, sem sé), þá bjuggu margir og nokkuð ólíkir þjóðflokkar og þjóðir í Suður-Ameríku. Þar á meðal var til dæmis sú dularfulla þjóð sem bjó í Nasca-eyðimörkinni og skóp í jörðina hinar víðfrægu myndir af dýrum og plöntum sem sjást eiginlega varla úr mikilli hæð.
Um það bil árið 500 — um svipað leyti og þjóðflutningarnir miklu stóðu sem hæst í Evrópu og Rómaveldi var fallið í vestri — þá reis öflugt ríki í Andesfjöllum í Perú.
Wari er það nú oftast kallað en áður gjarnan Huari.
Fræðimenn eru ekki alveg á eitt sáttir um hve heilstætt ríki Wari-manna hafi verið — sem sé hvort það var ríki í skilningi Evrópumanna um sama leyti eða fremur laustengt bandalag undir æðstu stjórn Wari-manna, en hvað sem því líður, þá var Wari-menningin við lýði í 500 ár og í höfuðborginni — sem nefndist Wari og er í austanverðum Andesfjöllum — þar bjuggu er best lét um 70.000 manns.
Huari var þá ein af allra fjölmennustu borgum í heimi.
Nú er þar rykugt smáþorp.
Leyndardómar andaheimsins?
En nú hafa nýjar rannsóknir sem sé gefið tilefni til kenninga um að við mikilsháttar hátíðir og ekki síst þá fundi þar sem leiðtogar annarra ættbálka og þjóða í fjöllunum komu til skrafs og ráðagerða, þar hafi Wari-menn boðið upp á ofskynjunarlyf úr svonefndum vilca-berjum blandað saman við rótáfengan mjöð sem þjóðirnar þar um slóðir neyttu allar.
Þótt ekki séu allir fræðimenn enn sannfærðir, þá er kenningin sú að með því að bjóða leiðtogum bandalagsþjóða og/eða mótstöðumanna upp á ofskynjunarlyfið, þá hafi Wari-menn sannfært leiðtogana um að þeir sjálfir (Wari-menn) byggju yfir leyndardómum andaheimsins, og gætu veitt öðrum aðgang að honum líka — ef þeir hinir sömu heguðu sér vel og gerðu vilja Wari-manna.
Hér má sjá fjallað um þetta — og hér er sagt frá rannsókninni sjálfri.
Friður millum stórveldanna
Þess má geta að mestallan þann tíma sem Wari-ríkið var við lýði, þá var annað stórveldi í Suður-Ameríku, steinsnar sunnar í Andesfjöllum, þar sem nú eru Tjíle og Bólivía.
Tiwanaku hét þetta ríki og þótt sagan segi að þegar tvö stórveldi byggja lönd svo nærri hvort öðru, þá sé næstum óhjákvæmilegt að þau eigi í stöðugum styrjöldum, þá var raunin víst ekki sú um Wari og Tiwanaku.
Friður virðist hafa verið nær óaflátanlegur milli þessara stórvelda álfunnar.
Kannski út af ofskynjunarberjunum.
Svo kannski ættu Biden og Putin að fá sér þegar þeir hittast — og öll vandamál leysast!
Loftslagsbreytingar
Svo er annað sem saga Wari-manna getur kannski kennt okkur. Um 800 stóð ríkið á hátindi sínum en kom babb í bátinn. Langt þurrkatímabil, sem virðist hafa staðið áratugum saman, jafnvel vel á aðra öld, skall á.
Wari-menn kunnu ekki að bregðast við þessum loftslagsbreytingum.
Enn ríkti friður milli þeirra og nágranna þeirra, en innbyrðis fór allt í bál og brand. Ofbeldi og borgarastríð virðast hafa brotist út, þótt illt sé um að segja á vorum dögum því Wari-menn höfðu ekki komið sér upp eiginlegu ritmáli.
Svo mikið er víst að ríkið virðist hafa leyst upp innan frá og um árið 1000 yfirgáfu síðustu íbúar Huari borgina. Þeir múruðu upp í glugga eins og þeir ætluðu að snúa aftur seinna.
En þeir komu aldrei framar.
Nokkrum öldum síðar fór einn af minnstu ættbálkunum í fjöllunum hins vegar að aukast að íþrótt og frægð: Inkar.
Inkar voru frægir drykkjumenn en virðast ekki hafa lært að blanda ofskynjunarlyfjum út í bjórinn. Kannski hefði þá allt fallið í ljúfa löð milli þeirra og Spánverja þegar þeir síðarnefndu mættu í upphafi 16. aldar.
Athugasemdir (1)