Í tilefni af sjónvarpsþáttunum um Verbúðina leitaði ég uppi grein sem ég skrifaði í tímaritið Storð og birtist í byrjun árs 1983. Þá höfðum við Páll Stefánsson ljósmyndari verið sendir einn túr með Ísafjarðartogaranum Guðbjarti í september árið áður.
Fyrri hluta greinarinnar birti ég í gær — hér er hlekkur á hana!
En hér kemur svo seinni parturinn. Þar var komið sögunni að aflaleysi og óveður höfðu hrakið Guðbjart í land á Ísafirði eftir nokkra daga en þegar veður tók að lægja var stefnt út á ný.
— — —
Við leggjum aftur úr höfn rétt fyrir miðnætti aðfaranótt laugardagsins. Veðrið er að ganga niður og það er spáð logni eða því sem næst með morgninum. Þeir segja mér að eftir brælu breytist fiskiríið venjulega og úr því að ekkert var að hafa áður gæti orðið mokafli núna.
Múkkinn vonar hið sama. Hann slæst í förina úti í Djúpi og svífur listilega fram með skipinu; þeir kalla hann Bjarna en vita ekki almennilega hvers vegna.
Bjarni er harður og alvarlegur á svip og virðist ekki njóta listflugsins hið minnsta. Ef einn múkki meiðist úti á sjó ráðast hinir samstundis á hann og drepa hann.
„Hver veit nema múkkinn sé frábitinn sjónum,“ er haft eftir Jökli Jakobssyni sem einu sinni var háseti á Guðbjarti.
Það er næstum algert myrkur og ljóslaust í brúnni nema skíma af dýptarmæli og ratsjá. Þarna stendur fyrsti stýrimaður, Jón Steingrímsson, einmana vakt — starir þögull út í nóttina. Það er að mestu skýjað en tunglið brýst öðru hverju fram.
Himinn og haf renna saman og það er dauðakyrrð í loftinu.
Sjóndeildarhringinn má aðeins marka af siglingaljósum togaranna á undan okkur.
„Hvert erum við að sigla?“
„Á Halann.“
Á Halann; einhver bestu miðin út af Vestfjörðum. Hvað í helvíti er hann að vilja þarna niðri, þorskurinn?
Halinn eitraður?
Það eru margir komnir á Halann á undan okkur. Ljósunum fjölgar á sjóndeildarhringnum og þegar dagur rennur í austri má telja tuttugu togara í hnapp. Sjóbarðir skrokkar þeirra byltast hver af öðrum framhjá okkur og það er kastað.
Hásetarnir eru varla komnir aftur inn í matsal þegar skilaboð koma ofan úr brú; slitinn vír.
Þeir bölva stýrimanninum, trollinu og vírnum í sand og ösku; þorskinum þegar kemur í ljós að hann er víðs fjarri.
„Þið [blaðamennirnir] eruð meira að segja búnir að eitra fyrir okkur Halann,“ segja þeir steinhissa og velta því fyrir sér hvort hjátrúin sé þá eftir allt saman eitthvað annað og meira en hjátrú.
Þegar líður á daginn er dólað suður eftir en alls staðar við lítinn afla. Við fáum samfylgd margra skipa — tilkynningaskyldan auglýsir eftir Páli Pálssyni en hann er hérna við hliðina á okkur.
Það er komið svo gott veður að þeir muna ekki annað eins á þessum hörðu og torsóttu miðum og tala um að loksins sé komið sumar. Himinninn er heiðskír og sæmilega hlýtt í sólinni, það blikar á ládauðan sjóinn og snævi þakin fjöll Vestfjarðakjálkans fimmtíu mílur í austri.
Múkkinn virðist meira að segja næstum hýrlegur þar sem hann rífur í sig slógið sem gengur aftur af skipinu.
Heljarkuldi í hafinu
Þegar svona er komið er freistandi að hugsa eitthvað fallegt um hafið og stara dáleiddur niður í djúpin en hitamælirinn í brúnni segir mér að ekki er allt sem sýnist.
Sjórinn er við frostmark og þær eru varla margar mínúturnar sem maður myndi lifa í þeim heljarkulda ef hann félli útbyrðis.
Dýpið er rúmir tvö hundruð metrar; vegalengd sem spretthlaupari leggur að baki á röskum tuttugu sekúndum en það eru mörg skipsflök merkt inn á sjókortið.
Ég held að sjómennirnir leiði sjaldan hugann að fegurð hafsins. Kallinn er, svo dæmi sé tekið, önnum kafinn við að reyna að lokka upplýsingar upp úr kollegum sínum á togurunum í grenndinni. Þeir tala saman í örbylgjustöðinni; stundum bara að rabba en oftar að veita og þiggja góð ráð um fiskimið og aflabrögð.
Þeir eru hinir kumpánlegustu hver við annan, skipstjórarnir, og segja prívatbrandara sem enginn skilur nema þeir sjálfir en um leið dylst engum að þeir eiga í flóknum og viðkvæmum samningaviðræðum.
Ef ég segi þér hvar ég náði í ágætt hal af þorski um daginn verður þú í staðinn að segja mér hvar þú fékkst karfann.
Sumir segjast aldrei fá neitt en laumast svo inn og landa fullfermi.
Kænskubrögð á miðunum
Hörður segir frá því að nokkrum vikum fyrr hafi hópur af togurum verið að leita að karfa einhvers staðar út af Vestfjörðum og þar á meðal var Apríl frá Hafnarfirði. Allt í einu var Apríl horfinn og ansaði ekki köllum hinna skipstjóranna — seinna kom í ljós að hann hafði fundið þessi fínu karfamið og fyllt sig á örfáum dögum.
Apríl er nú mættur aftur í hópinn og það er komið að skuldadögum. Svavar skipstjóri verður að gefa nákvæmar upplýsingar um hvar hann hafi togað.
„Meiri prakkarinn,“ segir Hörður í örbylgjustöðina og Svavar hlær, þykir hólið gott, því hól er það.
Hins vegar finnst [Svavari] ekkert fyndið að hinir togararnir skyldu líka hafa fundið fengsæl karfamið og brellan því í raun og veru til einskis.
I matsalnum silast tíminn áfram. Mannskapurinn hefur lítið að gera en þeir fullvissa mig um að slíkt sé sjaldgæft og sennilega mér að kenna hvort eð er. Þó atyrðir hver annan fyrir leti og ómennsku en náttúrlega í gamni.
Annar stýrimaður, Guðmundur M. Kristjánsson, kemur askvaðandi og fer með vísu:
„Sofa og éta,
það er það sem þeir geta.
En vinna,
það er aftur minna . . . “
Svo hendir hann sér á bekkinn.
Sumir eru að horfa á vídeóið þar sem er sakamálaþáttur, aðrir hafa lagst til svefns eða góna tómlátir út í loftið. Það er talað um að ef svona haldi áfram verðum við að fara að eltast við [hinn rauða] karfa út af Reykjanesi og það líst þeim ekki á.
„Af hverju getur helvískur kallinn ekki fundið þorsk? Ég nenni ekki í bölvaðan kommúnistann,“ segir einn.
Færeyingur hættir þessari vitleysu!
Í örbylgjustöðinni tilkynnir pirraður færeyskur skipstjóri að hann sé hættur þessari vitleysu og farinn til Grænlands; ætli að halda jól með grænlensku stelpunum.
Þeir kinka kolli — það væri vit í því.
Um kvöldið kallar annar Færeyingur og segist hafa komist í dágóðan karfa djúpt vestur af Snæfellsnesi. Um svipað leyti kemur trollið upp, allt rifið og tætt eftir botninn, og kallinum er nóg boðið. Suður í karfann, fulla ferð.
Alla nóttina eru þeir aftur á dekki í nístandi kulda að bæta pokann. Stöku sinnum skjótast þeir niður í matsal að fá sér kaffisopa og mjólkurkex; síðan munda þeir netnálina og eru farnir.
Undir morgun er viðgerðinni líka lokið og Guðbjartur kominn á slóðir Færeyingsins. Þá er kastað og þeir flýta sér inn af dekkinu.
Það er farið að bjarma af degi, sunnudegi sem er enginn sunnudagur úti á sjó. Klukkan er að verða sex og kokkurinn kominn á stjá — þeir borða súrmjólk og brauð með áleggi og horfa á bíómynd: Óttinn étur sálina eftir Rainer Werner Fassbinder.
Skipið vaggar blíðlega á öldunum.
Rúmum tveimur tímum seinna kemur kallið:
„Hífa!“
Bobbingar brölta inn
Þeir hendast á fætur og aftur í þurrkklefa þar sem saltstokknir sjógallarnir bíða. Sumir setja upp öryggishjálma, aðrir hafa ekki fyrir því. Er þeir heyra að hlerarnir eru komnir upp í skut klöngrast þeir upp á dekk að stússa með víra og blokkir.
Þetta virðist létt verk og löðurmannlegt en það er auðvelt að ímynda sér storm og stórsjó norður í hafi, kannski á þorranum, ísingu sem hleðst utan á skipið, lemjandi særok og tröllauknar öldur sem gnæfa yfir; vírarnir sveiflast til og fótur skrikar á glerhálu dekkinu — maður fyrir borð og engin leið að ná honum í tæka tíð …
En í þetta sinn er veðrið gott og lítill sjór. Bobbingarnir brölta inn um skutrennuna með miklum dynkjum og aftur af skipinu skýtur pokanum upp.
Seisei, bara vænn slatti af karfa.
Múkkinn er fljótur að hrifsa til sín þá fiska sem losna úr pokanum áður en hann er hífður inn; karfinn, eldrauður og stóreygður, hefur rekið hausinn út um hvern möskva á netinu en ekki komist lengra.
Margir þeirra sprikla ennþá — fjörbrot eða eru þeir lifandi?
Þá verða þeir fljótlega dauðir því nú er opnað niður í lest og dembt úr netinu þar ofan í, síðan er trollið gert klárt á nýjan leik meðan skipið snýr við til að fara sömu leið til baka.
„Hvar er Harðbakur?“
Þetta voru átta, níu tonn og kallinum finnst það bara þokkalegt eftir vonlaust fiskirí síðustu daga.
Hins vegar er karfinn verðlítill miðað við þorsk og þeir verða ekki ríkir á þessu, segja þeir. Við erum liðlega hundrað sjómílur réttvísandi vestur af Öndverðarnesi og allt í kringum okkur eru aðrir togarar sem einnig hafa runnið á karfann. Tæplega þrjátíu eru þegar komnir á staðinn og flestir að fá svona sæmilegt ef marka má hjal skipstjóranna í örbylgjustöðinni.
Fyrsta kastið reynist vera stærst hjá okkur á Guðbjarti en allan daginn og nóttina og daginn eftir er haldið áfram í gríð og erg; við fáum frá tveimur og upp í sex tonn í hali. Hinir fá svipað eða minna þar til Harðbakur tilkynnir hróðugur að hann hafi fengið næstum fimmtán tonn.
„Hann togar miklu lengur en við,“ tautar kallinn í barm sér en hleypur samt út í brúargluggann að svipast um eftir Harðbaki og örbylgjustöðin lifnar við.
„Hvar er Harðbakur? Hvar er Harðbakur?“ spyrja skipstjórarnir hver í kapp við annan.
Jú, þarna er Harðbakur, tæplega þúsund tonna Spánartogari, og þeir hinna togaranna sem ekki eru akkúrat þá stundina að toga annars staðar þjappa sér utan um hann og kasta.
Harðbakur er eins og andamamma með ungana sína en hefur [bara] verið heppinn því skömmu seinna tilkynna ungarnir eitt tvö tonn hver.
„Ef ég treysti ekki konunni minni“
Það þarf lítið sem ekkert að vinna karfann, bara renna honum eftir færibandi í ískassa, og þeir eru ekki lengi að svoleiðis smáræði.
Á mánudagskvöldi eru allar bíómyndir og sakamálaþættir búnir og það er tekið til við fræðsluþættina. Nokkrir eru búnir að panta símtöl við konurnar sínar og fara upp í brú að tala um kartöfluuppskeru, veikindi barna eða nýja bíla; þeir eru bara glaðir á svipinn.
Skyldu þeir vera smeykir um konurnar sínar meðan þeir eru úti á sjó?
„Nei,“ segir einn hásetinn, „það gengur ekki. Ef ég treysti ekki konunni þá gæti ég ekki verið úti á sjó. Áhyggjur af þannig hlutum eru fljótar að gera menn vitlausa í þessari einangrun. Stundum hef ég séð skipsfélaga mína, ekki endilega á þessu skipi, stirðna upp á laugardagskvöldum, hlaupa upp í brú og byrja að hringja eins og brjálæðingar í allar áttir að leita að frúnni. Það er agalegt að sjá.“
Aflinn er farinn að minnka og þeir eru óánægðir — í þetta sinn er nefnilega meiningin að fylla, hvað sem það kostar, og þeir sjá fram á að vera viku úti enn, að minnsta kosti.
Botninn er líka slæmur og það þarf sífellt að vera að gera við netið; þetta er lélegur túr, segja þeir, og morguninn eftir verður slys.
Óttuðust að hann væri dáinn
Það er verið að hífa um ellefuleytið þegar vír eða einhver skrattinn slengist framan í andlit Ásgeirs Ásgeirssonar háseta. Hann fellur á dekkið og fossblæðir; um hríð halda þeir að hann sé dáinn.
En það þarf meira til, sem betur fer, og þó hann sé nefbrotinn og skorinn í andliti er þetta ekki eins slæmt og á horfðist.
Þeir segja mér að þetta sé eitt alvarlegasta slysið sem orðið hafi á Guðbjarti og tala nú hlýlega um kallinn — hann sé varkár og passi upp á mannskapinn.
Stefnan er tekin í land því það þarf að sauma nefið á Ásgeiri saman. Eftir miklar bollaleggingar er ákveðið að fara inn á Patreksfjörð þar sem er sjúkrahús og útgerðin á Ísafirði látin vita svo hægt sé að senda þangað mann í stað Ásgeirs. Til þess er nægur tími því siglingin í land tekur tíu klukkustundir.
Það er aftur farið að versna í sjóinn.
Uppi við landið er skjól og þegar við nálgumst Patreksfjörð fara hásetarnir aftur á dekk að bæta netið sem enn einu sinni er rifið.
Helvítis henglar í því, segja þeir.
Það er skýjað og gengur á með skúrum en sjórinn virðist meinlaus. Þá segja þeir mér að einmitt hér hafi grænlenskur togari farist fyrir nokkru síðan. Það var ísing og honum hvolfdi fyrirvaralaust; fór niður með manni og mús.
Ætli við séum ekki yfir honum núna?
Í land á ný
Guðbjartur á ekki einu sinni að leggjast að bryggju á Patreksfirði heldur skunda rakleiðis út í karfann aftur.
Á hinn bóginn er ákveðið að við [blaðamennirnir] förum í land með Ásgeiri og suður morguninn eftir.
„Ég öfunda ykkur,“ segir Geir Gunnarsson háseti í smókpásu aftur á dekki.
Þá hlær bátsmaðurinn.
„Þetta mátt þú ekki segja, sjálfur sonur sjómannsins,“ segir hann með uppgerðarhæðni og hnífinn í húfunni.
„Þú skalt ekki heldur taka neitt mark á honum,“ bætir hann við og beinir til mín.
„Hann er ekki fyrr kominn í land og á ball en hann fer að væla um að hann vilji komast út á sjó aftur. „Ég elska hafið,“ emjar hann [þá]. Elska hafið, hefurðu vitað annað eins? En þá er hann líka fullur!“
Sonur sjómannsins glottir bara.
Athugasemdir