Bandarískir fræðimenn, prófessorar í sagnræði og skyldum greinum, aðrir ýmsir fræðimenn og rithöfundar kjósa reglulega um bestu (og þar a leiðandi verstu) forsetana í Bandaríkjunum. Lögð er áhersla á að eingöngu kjósi þeir sem hafa víðtæka og breiða þekkingu á öllum forsetunum 44.
Kannanir þessar eru yfirleitt gerðar á 5-10 ára fresti og reynt er að vanda vinnubrögðin við þær eftir megni. Síðustu kannanir voru gerðar 2017, 2009 og 2000 og nú er nýkomin fyrsta raunverulega og marktæka könnunin eftir að Donald Trump lét af embætti.
Álit fræðimannanna er býsna vel saman við skoðanir hins svonefnda „upplýsta almennings“ á hverjum forseta fyrir sig, nema kannski hvað snertir allra nýjustu forsetana, því um þá blása enn flokkspólitískir vindar.
Könnunin gefur því góða vísbendingu um hvernig orðspor Trumps verður í framtíðinni, þegar hinir flokkspólitísku vindar verða ekki jafn ráðandi.
Hver „dómari“ gefur hverjum og einum forseta stig á skalanum 1 til 10 á mismunandi sviðum. Þau eru: 1) að ná til almennings, 2) forysta þegar á bjátar, 3) efnahagsstjórn, 4) siðferðiskraftur, 5) alþjóðasamskipti, 6) stjórnunarhæfileikar, 7) samskipti við þingið, 8) framtíðarsýn/að stjórna umræðunni, 9) réttlæti fyrir alla, og loks 10) almenn frammistaða miðað við sinn samtíma.
Alls tóku 142 fræðimenn þátt í könnuninni nú og hafði fjölgað frá 93 árið 2017. Fjölgunin hafði ekki þau áhrif að röðin frá fyrri listum riðlaðist neitt að ráði, og raunar var röðin furðu lítil breytt frá síðustu könnunum.
Í fyrsta sæti eins og oftast áður var Abraham Lincoln (forseti 1861-1865). Hann nýtur þess að hafa lagt allt í sölurnar til að halda Bandaríkjunum sameinuðum þegar borgarastríðið braust út á 19. öld og fyrir að hafa afnumið þrælahald.
Í öðru sæti varð að venju George Washington (1789-1797), fyrsti forsetinn, leiðtogi Bandaríkjamanna í frelsisstríði þeirra og setti mörg þau fordæmi við beitingu forsetavalds sem síðan hefur verið fylgt.
Í þriðja sæti varð Franklin D. Roosevelt (1933-1945) sem leiddi Bandaríkin gegnum kreppuna miklu og í fjórða sæti frændi hans Theodore Roosevelt (1901-1909). Hann markaði stefnu Bandaríkjanna í upphafi 20. aldar og barðist gegn hringamyndun í atvinnulífi.
Í fimmta og sjötta sæti eru kaldastríðsforsetarnir Dwight Eisenhower (1953-1961) og Harry S. Truman (1945-1953) sem báðir þóttu „safe pair of hands“ — fyrir Bandaríkjamenn en töluvert síður fyrir ýmsar aðrar þjóðir.
Í sjöunda sæti er Thomas Jefferson (1801-1809) leiðtogi úr sjálfstæðibaráttunni og áttundi er John F. Kennedy (1961-1963) fyrir forystu í Kúbudeilunni og geimferðakapphlaupinu.
Níundi er svo Ronald Reagan (1981-1989) sem Bandaríkjamenn vilja líta á sem sigurvegararann í kalda stríðinu.
Allir þessir níu eru í sömu sætum og síðast en í tíunda sætinu er fyrsta breytingin og hún þó ekki stórvægileg, Barack Obama (2009-2017) fer upp um tvö sæti úr því tólfta.
Þá koma Lyndon Johnson (1963-1969) og James Monroe (1817-1825) og í þrettánda sæti er Woodrow Wilson (1913-1919). Fram undir árið 2000 var Wilson jafnan í allra efstu sætunum fyrir forystu sína í fyrri heimsstyrjöldinni og merkilega baráttu sína fyrir alþjóðasamvinnu og friðarmálum eftir þá hörmulegu styrjöld, en hann hefur sigið hægt en öruggt niður listann eftir að athygli fræðimanna hefur í vaxandi mæli beinst að ömurlegum rasisma hans á heimavígstöðvunum.
Svo kom í næstu sætum allskonar forsetar sem fáir aðrir en sérfræðingar í bandarískri sögu þekkja, en í 19. sæti er Bill Clinton (1993-2001). Hann hefur hrapað um fjögur sæti og ekki ólíklegt að athyglin sem beinst hefur að honum sem félaga Jeffrey Epstein ráði þar mestu.
Bush eldri (1989-1993) er í 21. sæti og Jimmy Carter (1977-1981) er í sæti 26. Í sæti 28 er Gerald Ford (1974-1977) og næstur á eftir honum kemur Bush yngri (2001-2009). Hann hefur verið að þokast svolítið upp listann að undanförnu því hann byrjaði í 36. sæti.
Skúrkurinn Richard Nixon (1969-1974) er númer 31 og hefur sigið niður listann að undanförnu en þó ekki verulega hratt.
En þeir tíu neðstu eru:
37. Zachary Taylor (1849-1850) dó eftir aðeins ár á forsetastóli og afrekaði ekkert á þeim tíma.
38. Herbert Hoover (1929-1933) sem lét reka á reiðanum fyrir kreppuna miklu.
39. Warren Harding (1921-1923) skildi eftir sig allskonar hneykslismál.
40. Millard Fillmore (1850-1853) varaforseti Taylors og gerði ekkert gagnlegt eftir að hann varð forseti við lát hans.
41. Donald Trump (2017-2021).
42. Franklin Pierce (1853-1857) lét reka á reiðanum fyrir borgarastríðið.
43. Andrew Johnson (1865-1869) klúðraði rækilega enduruppbyggingu eftir borgarastríðið.
44. James Buchanan (1857-1861) lét, eins og Pierce, reka á reiðanum fyrir borgarastyrjöldina.
Af þeim atriðum sem ég nefndi áðan og fræðingar gáfu forsetunum einkunn fyrir, þá stóð Trump sig best við ná til almennings en þar lenti hann samt aðeins í 32. sæti. (F.D.Roosevelt varð efstur.) Fyrir efnahagsstjórn sína lenti Trump í 34. sæti. (Lincoln varð efstur.)
Og Trump lenti í 36. sæti fyrir framtíðarsýn/að koma málum á dagskrá eða stjórna umræðunni. (Lincoln aftur efstur.)
Í öllum öðrum „fögum“ var Trump í einhverju af allra neðstu sætunum og fyrir bæði siðferði og forystuhæfileika lenti hann í 44. sæti og neðsta sæti. Skyldi engan undra.
Efstur við stjórn á hættustund varð Lincoln, F.D.Roosevelt fyrir alþjóðasamskipti, Lincoln fyrir forystu- eða stjórnunarhæfileika, „réttlæti fyrir alla“, almenna frammistöðu og siðferði, en Washington hlaut efsta sætið fyrir samskipti við þingið.
Athugasemdir (1)