Um áramót er vani að taka saman lista yfir helstu afrek ársins sem er að líða, en svo má líka snúa því á haus og búa til lista yfir það versta, heimskulegasta og bjánalegasta sem gert hefur verið á árinu. Það gera þeir sem veita hin svonefndu igNobel-verðlaun raunar á hverju ári og hér verður sagt frá verðlaunum sem veitt voru síðastliðið haus.
IgNobel-verðlaunin eru eins konar skopstæling á Nóbelsverðlaunum og eru hugsuð til að henda gaman að vísindarannsóknum sem þykja sérlega bjálfalegar, tilgangslausar eða smásmugulegar. Raunin hefur reyndar orðið sú að langflestum vísindamönnum þykir núorðið bráðskemmtilegt að fá igNobel-verðlaunin og flestallir verðlaunahafarnir voru til dæmis viðstaddir (rafrænt) síðustu verðlaunaveitinguna í haust er leið.
En þessi fengu verðlaun:
Líffræði: Mal kattarins
Verðlaunin fengu Susanne Schötz við háskólann í Lundi í Svíþjóð og tveir samstarfsmenn hennar fyrir áralangar rannsóknir og ritgerðaskrif um mal, mjálm, væl, urr, uml, tíst, hvæs, org, muldr og ýlfur katta í samskiptum við manninn.
igNóbelnefndin vísaði til grundvallarrannsókna Schötz og félaga eins og: „Samanburðarrannsókn á hljóðeðlisfræðilegum eiginleikum mals í fjórum köttum“, „Hljóðfræðileg grundvallarrannsókn á hljóðröddun þriggja katta“ og síðast en ekki síst „Hlutverk laglínu í samskiptum manna og katta (mjálmísku): Upphaf, fortíð, nútíð og framtíð“.
Vistfræði: Tyggjóklessur
Vísindamennirnir Leila Satari, Alba Guillén, Àngela Vidal-Verdú, og Manuel Porcar fengu verðlaunin fyrir að erðafræðilega rannsókn til að skera úr um hvaða mismunandi tegundir af bakteríu leynast í tyggjóklessum á gangstéttum hinna ýmsu borga í veröldinni.
Efnafræði: Loftið í bíó
Þessi verðlaun fengu tíu vísindamenn frá mörgum löndum fyrir að efnagreina loftið inn í bíóhúsum til þess að komast að því hvort andardrátturinn sem áhorfendur gáfu frá sér drægi dám af því hvort fólkið væri að horfa á ofbeldi, klám, andfélagslegt athæfi, eiturlyfjaneyslu eða hlusta á bölv og ragn.
Hagfræði: Feit spilling
Verðlaunin hlaut Pavlo Blavatskyy, tékkneskur hagfræðiprófessor við Viðskiptaháskólann í Montpellier í Frakklandi. Hann birti í virðulegu hagfræðiriti ritgerð sem kallaðist: „Offita stjórnmálamanna og spilling í fyrrum Sovétlýðveldum.“
Niðurstaða Blavatskyys var að almennt séð væri holdafar stjórnmálamanna í tilteknu landi góð vísbending um spillinguna þar.
Læknisfræði: Kynlíf og lækningar
Þessi verðlaun fengu tyrknesku og þýsku læknarnir Olcay Cem Bulut, Dare Oladokun, Burkard Lippert og Ralph Hohenberger fyrir að sýna fram á að til þess að bæta öndun í nefi, þá er hægt að spara sér nefúða, því kynferðisleg fullnæging getur komið að sömu notum.
Eðlisfræði: Vegfarendur
Alessandro Corbetta, Jasper Meeusen, Chung-min Lee, Roberto Benzi og Federico Toschi fengu verðlaunin fyrir tilraunir til að komast að því hvers vegna vegfarendur á gangstétt rekast ekki stöðugt á aðra vegfarendur.
Hreyfiaflfræði: Vegfarendur2
Hisashi Murakami, Claudio Feliciani, Yuta Nishiyama og Katsuhiro Nishinari fengu verðlaunin fyrir tilraunir til að komast að því hvers vegna vegfarendur á gangstétt rekast stundum á aðra vegfarendur.
Skordýrafræði: Kakkalakkar!
John Mulrennan yngri, Roger Grothaus, Charles Hammond og Jay Lamdin fengu verðlaunin í þessum flokki fyrir grundvallarrannsókn sem þeir birtu í tímaritinu Hagræn skordýrafræði, og nefndu: „Nýjar aðferðir við að hafa stjórn á kakkalökkum í kafbátum.“
Samgöngufræði: Nashyrningar
Verðlaunin fékk fjöldi vísindamanna í nokkrum háskólum í Namibíu, Suður-Afríku, Tansaníu, Simbabve, Brasilíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Þeir höfðu með tilraunum reynt að skera úr um hvort heppilegra væri að flytja nashyrninga í flugvélum liggandi á bakinu eða standandi á fjórum fótum.
Því miður hef ég ekki haft tíma til að lesa ritgerð þeirra, svo ég get ekki upplýst hver niðurstaðan var, en hérna má finna ritgerðina.
Friðarverðlaun: Skegg karlmannsins
Og síðast en ekki síst þá fengu Ethan Beseris, Steven Naleway og David Carrier friðarverðlaun fyrir rannsókn sína á því hvort skeggvöxtur karlmanna hefði þróast til þess að verja karlana gegn hnefahöggum.
(Stutta svarið reyndist vera já.)
Athugasemdir