Upphaf ferðar James Webb-sjónaukans út í geim virðist hafa tekist vel, og það er líka eins gott, því ef eitthvað klikkar í þessu rándýra tæki, þá verður enginn möguleiki á að gera við það. Sjónaukinn verður staðsettur svo langt úti í óravíðáttum geimsins á braut um sólu að ekki verður gerlegt fyrir geimfara frá Jörðu að skutlast þangað út eftir til að laga eitthvað eða fylla á eldsneytistanka.
Ef allt gengur að óskum og vísindamönnum NASA og félögum þeirra gengur vel að stilla sjónaukann, þá gætu farið að berast myndir frá honum eftir um það bil hálft ár.
Og þá gætu farið að berast merkilegar fréttir.
James Webb er miklu stærri og fullkomnari en Hubble-sjónaukinn sem hefur verið auga okkar út í geiminn síðustu 30 árin og hann mun efalítið afla allskonar merkilegra upplýsinga þann áratug sem honum er ætlað að starfa.
En fyrstu og merkustu fréttirnar munu vafalítið snúast aðallega um tvennt.
Í fyrsta lagi er eitt af helstu markmiðum James Webb að skyggnast aftur í tímann til þess tíma þegar fyrstu sólirnar voru að myndast í alheiminum.
Nú um stundir er þekking okkar á myndunarsögu alheimsins eitthvað á þessa leið:
Fyrir rúmlega 14 milljörðum ára varð alheimurinn eins og við þekkjum hann til. Það virðist hafa gerst í einni svipan við atburð sem gagnlegt þykir að tala um sem sprengingu (Big Bang) en þó er líklega nær lagi að tala um útþenslu. Á nokkrum sekúndubrotum þandist alheimurinn út á gífurlegri ferð og við gífurlegan hita og þá í formi þar sem lítil eða engin skil voru milli efnis og orku.
Bráðlega var alheimurinn orðinn ógnarstór og einhvers konar flökt í efnisorkusúpunni varð til þess að efnið var til. Og orkan. Og svo andefni og dökkt efni og dimma orkan og margt fleira sem við vitum eflaust ekkert um ennþá.
Þetta er vitaskuld einföldun af stærri sortinni og rétt að taka fram að sumir fræðimenn telja að alheimurinn sé í rauninni töluvert eldri en 14 milljarða ára, jafnvel upp undir 20 milljarða ára gamall kunni hann að vera, en þetta er svona sú mynd í megindráttum sem flestir eru nokkuð sammála um.
Fyrst eftir að efni skildust frá orku voru aðeins þrjú efni til í alheiminum, langmest var af vetni, heilmikið líka af helíumi og svo agnarögn af liþíumi.
Og þessi efni þeyttust um innan um dökka efnið og dökku orku og allt hitt og alheimurinn þandist út á ógnarhraða og þar ríkti niðamyrkur (að okkar skilningi að minnsta kosti) og hann kólnaði hratt.
Hratt að stjarnfræðilegum skilningi
Nema hvað — eitthvað um 200 milljón árum eftir upphafið sem við köllum Big Bang, þá var svo komið í alheiminum að stjörnur kviknuðu í efnisskýjunum sem við ímyndum okkur að hafi verið orðin til.
200 milljón ár eru ekki langur tími í meira en 14 milljarða ára sögu, en þessar fyrstu stjörnur blikuðu risastórar og líklega bláleitar (að okkar skilningi og skynjun, ef við hefðum verið þarna) og þessar fyrstu sólir urðu líklega risastórar, miklu miklu stærri en sólir þær er nú þekkjast (um það eru samt ekki allir sammála), en óstabílar voru þær og eftir sennilega „aðeins“ 200-400 milljónir ára, þá tóku þeir að leysast upp í gríðarlegum sprengingum.
Og þær þeyttu út í tómið splunkunýjum frumefnum sem höfðu orðið til í iðrum þeirra og við sprenginguna sjálfa og í gasskýjunum umhverfis stjörnurisana. Sumar þessum bláum risum kunna þó að hafa fallið saman en ekki sprungið og orðið vísir að fyrstu svartholunum sem áttu á sinn hátt jafn mikinn þátt í að móta hinn nýja alheim og stjörnurnar sjálfar.
Þetta skeið hinna bláu risa kann að hafa staðið í 600-800 milljónir ára og þá voru þessar sólir áreiðanlega allar týndar og tröllum gefnar (enn eru ekki allir alveg sammála) en skildu eftir sig þá miklu efnasúpu sem allt er síðan búið til úr: seinni kynslóðir sólstjarna, fossar, ský og klósettburstar.
Og það eru þessar bláu stjörnur — sem í stjörnufræðinni hafa fengið heitið alþjóðaheitið Population III þótt þær hafi verið fyrstar — sem James Webb á að svipast eftir.
Og það er vissulega raunhæft. Alheimurinn hefur haldið áfram að þenjast út í allar áttir á ógnarhraða í 14 milljarða ára og þótt ljósið sé vissulega fljótt í förum, þá er alheimurinn nú orðinn svo stór að ljós frá þessum frumstjörnum er enn að „silast“ í áttina til okkar.
Og James Webb er sérútbúinn til að nema þetta ljós aftan úr grárri forneskju!
Ef okkur auðnast að koma auga á þessar elstu stjörnur alheimsins mun það ekki aðeins vera næstum ógnvænleg sjón að sjá, heldur munu rannsóknir á þeim líka auka mjög skilning okkar á frumdrögum alheimsins.
Svo fylgist spennt með eftir hálft ár!
Hitt meginverkefni James Webb er svo að rannsaka plánetur við aðrar sólir. Hubble hefur staðið sig frábærlega við að finna þær en James Webb er svo miklu stærri og návæmari að mun auðveldara verður en áður að greina efni í lofthjúp plánetna í órafjarlægð sem geta gefið til kynna hversu líklegt sé að líf leynist þar.
Svo fylgist þá enn spenntari með!
Athugasemdir