Á þessum degi, 23. desember, lauk rómversku jólahátíðinni — öðru nafni Satúrnalíuhátíðinni — sem hafist hafði 17. desember. Þá gáfu Rómverjar hver öðrum gjafir, héldu stöðug partí og alls konar hátíðahöld voru alla dagana, og rétt eins og á okkur jólum, þá fannst sumum nóg um, og kvörtuðu sáran yfir óhófinu og gleðilátunum sem stóðu tæpa viku — eða fram á okkar Þorláksmessu.
Satúrnalíuhátíðin var kennd við guðinn Satúrnus sem var í eðli sínu landbúnaðarguð og þótt margt sé á huldu um Satúrnalíuhátíðina er talið að hún hafi til að byrja með verið vetrarsólstöðuhátíð, fólk sleppti fram af sér beislinu í dimmasta skammdeginu (þótt skammdegið sé hvergi nærri eins mikið á Ítalíu og hér norður frá) og fór svo að huga að nýjum jarðargróðri þegar sólin tók að hætta.
Þannig hélst Satúrnalíuhátíðin í hendur við nýárshátíð Rómverja og hinar seinni aldir Rómaveldis var haldið sérstaklega upp á afmæli sólarguðsins Sol Invictus um leið og fólk var búið að jafna sig eftir Satúrnalíuhátíðina eða þann 25. desember. Seinna tóku kristnir menn þetta flestallt yfir.
Þið munið jú hver lagði undir sig afmælisdag Sol Invictus?
Í rauninni eru aðventan og jólin okkar býsna nákvæm eftirlíking af Satúrnalíuhátíðinni og síðan fæðingardegi sólarguðsins. Fyrst sleppa menn fram af sér beislinu í júlefrúkost og á skemmtunum Baggalúts en heiðra svo fæðingu frelsarans með því að gefa gjafir.
Satúrnalíuhátíðin er þó reyndar ólík jólunum að því leyti að skemmtanir hátíðisdagana gengu mikið út á að fólk skipti um hlutverk, þjónar og lægra sett fólk fékk þá að leika hlutverk yfirstéttar og húsbænda. Jafnvel þrælar fengu að bragða á frelsinu þessa daga.
Keimur af slíkum siðum héldust reyndar öldum saman eftir að kristindómurinn tók yfir, en loks tókst kirkjufeðrum að bæla niður þann óskunda og leggja áherslu á að á jólunum ættum við öll að vera þæg og góð, en ekki fríka út eins og á Satúrnalíúhátíðinni.
Athugasemdir