Á myndinni hér að ofan má sjá meðalstóran mammút á rápi í miðbæ borgarinnar Swindon á Englandi. Swindon er í Wiltshere-héraði í vesturhluta Englands og þar búa 180.000 manns. Og nú er komið í ljós að þar bjó líka á sínum tíma hjörð mammúta, því beinagrindur fimm þeirra hafa nýlega fundist í næsta nágrenni við Swindon.
Vissulega er nokkuð langt síðan mammútarnir, eða loðfílarnir, voru á kreiki á svæðinu, enda er mynin samsett eins og nærri má geta. Vísindamenn áætla að beinin frá Swindon séu allt að 220.000 ára gömul.
Þá var ísöld í fullum gangi á norðurhveli og Norðurlöndin og Ísland voru til dæmis hulin ís. Bretlandseyjar voru þá hluti af köldu meginlandi Norður-Evrópu og Neanderdalsmenn reikuðu þar um og veiddu þau stóru veiðidýr sem héldu sig á steppunum og freðmýrunum sem huldu mestallan suðurhluta Englands og langt austur í álfu.
Verktakafyrirtæki frá Swindon festi sér nýlega svæði til grjótnáms og byrjaði að grafa þar upp möl og grjót. Þessi nýja grjótnáma var rétt við þjóðveginn út úr Swindon en á fimm metra dýpi fóru gröfukallar fyrirtækisins að rekast á bein loðfílanna. Og fleira fannst þar, því þar eru líka bein risaelgs og fleiri dýra.
Og þar hafa fundist leifar af tólum Neanderdalsmanna sem bersýnilega hafa setið um þessar risaskepnur og veitt þær sér til matar.
Mammútabeinin sem fundist hafa eru af tveim fullorðnum dýrum, tveim unglingum og einum unga. Beinagrindurnar eru mjög heillegar, mun heillegri en nokkrar mammútaleifar sem áður hafa fundist á Bretlandseyjum. Um er að ræða steppumammúta, stærstu tegund mammúta sem þekktist, en fullvaxinn tarfur vóg líkastil um 15 tonn.
Til samanburðar er fullvaxinn Afríkufíll (frændi mammúta) um það bil 4 tonn.
Bretar eru fullvissir um að grjótnáman við Swindon geymi enn frekari gersemar. Eigendur grjótnámunnar þurftu ekki lengi að hugsa sig um þegar gröfukallarnir þeirra komu niður á beinin, þeir hringdu auðvitað í David Attenborough sem kom á staðinn með kvikmyndalið og þáttur um þennan stórmerkilega beinafund verður sýndur á BBC nú í árslok.
Athugasemdir