Einar Jónsson (1874-1954) var fyrsti raunverulegi myndhöggvari íslensku þjóðarinnar og gerði ýmsar höggmyndir sem allir þekkja, svo sem Útilegumanninn, Ingólf Arnarson, Jón Sigurðsson og fleiri.
Og hann gerði styttu af Jónasi Hallgrímssyni sem raunar var fyrsta útilistaverkið sem sett var upp eftir íslenskan myndhöggvara hér á landi.
Jónas átti upphaflega að standa fyrir framan safnahúsið svonefnda — nú kallað þjóðmenningarhús — en var á endanum komið fyrir á horni Amtmannsstígs og Lækjargötu. Þetta var árið 1907. Árið 1947 var styttan flutt í Hljómskálagarðinn og hefur staðið þar síðan, en stytta af Friðriki Friðrikssyni að klappa barni var sett niður á hinum fyrri stað.
Á vefsíðu Listasafns Íslands kemur fram að „Einar var aldrei ánægður með verkið en hann var knúinn til þess að gera nákvæma eftirlíkingu af Jónasi af þeim sem borguðu fyrir verkið“. Og ennfremur:
„Sjálfur vildi hann gera verk sem sýndi hversu mikið Einar dáði skáldið.“
Í 1. tölublaði 1. árgangs tímaritsins Jarðar, sem kom út í febrúar 1940, er stutt viðtal við Einar og birtar ljósmyndir af styttunni eins og Einar vildi hafa hana.
Viðtalið er ómerkt en skrifað af mikilli upphafningu og virðingu fyrir Einari. Skjáskot af því í heild eru hér að neðan en eftir að blaðamaður Jarðar hefur numið um stund af viskubrunni meistarans fær hann að sjá stórt leirlíkneski sem Einar hafði verið að vinna að en hafði fram að þessu verið hulið.
Það reyndist vera sú stytta af Jónasi Hallgrímssyni sem Einar vildi í raun og veru láta steypa í brons í stað þess hógværa Jónasar sem þá stóð enn við Amtmannsstíginn.
Blaðamaðurinn heillast af snilldinni sem skyndilega blasir við honum!
„Vér erum sem steini lostnir: Þetta áttum vér eftir! Átti Einar jónsson þetta eftir?! Hvílíkur er þessi maður, sem kominn á efra aldur og kominn í þá fágætu hæð listar og frægðar, sem alkunna er, skýtur nú — kannski stærstu vaxtarsprotum sínum ? Þetta er Jónas Hallgrímsson — skáldið í gerfi Jónasar Hallgrímssonar — skáld allra alda, sjáari eilífrar fegurðar; listamaðurinn, sem kallaður er til að vera miðill æðri sanninda til mannanna, — sýndur á hugljómunarstund. Líkaminn þreklegi og sálmagnaði minnir á ekkert fremur en Geysi gjósandi. Höfuðið drúpir í algleymi fyrir hinum eilífa krafti, er leggur leið sína um þennan stundlega líkama. Hvílíkur svipur!“
Nú er spurningin: Hefðu aðdáendur Jónasar Hallgrímssonar frekar viljað sjá hann svo vöðvastæltan, þreklegan og íturvaxinn allan?! Það er ekki laust við að þessi Jónas hefði sómt sér vel í ofurhetjubíómynd nútímans. Fyrir mína parta hefði það auðvitað verið háðung hin mesta í garð Jónasar og ljóðanna sem hann orti.
Athugasemdir