„Hættulegasta fólk heimsins var alltaf í réttlætisbaráttu,“ sagði þingmaðurinn Brynjar Níelsson, í útvarpsviðtali.
Skilaboðin sem bárust frá stjórnmálaflokki forsætisráðherra í aðdraganda kosninga voru einföld: Það skiptir máli hver stjórnar.
Ekki hvað þú gerir, heldur hver þú ert.
Að Vinstrihreyfingin – grænt framboð sé við völd. Stjórnmálaflokkurinn sem „einsetur sér að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis í samfélaginu,“ „ráðast að rótum kynjakerfisins,“ og „brjóta þannig upp kynjakerfi sem er skaðlegt“ fyrir alla.
Að Katrín Jakobsdóttir sé forsætisráðherra. Kona sem er á lista yfir 100 áhrifamestu jafnréttisfrömuði í heiminum. Sem sendi þau skilaboð á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að jafnrétti ætti að vera haft að leiðarljósi í enduruppbyggingu og endurhugsun veraldar eftir heimsfaraldurinn, og í fyrirrúmi í öllu skipulagi og ákvörðunartöku.
Má ég kyssa þig?
„Má ég kyssa þig?“ spurði Brynjar mótframbjóðanda sinn í Vinstri grænum á opnum fundi í aðdraganda alþingiskosninga. Hún sagði að hann hefði farið yfir strikið, hann spurði hvort kímnigáfa á landinu væri dauð.
Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna skrifaði forsætisráðherra grein þar sem hún varaði við því að við stæðum „frammi fyrir alvarlegu bakslagi í jafnréttismálum“. Kynbundið ofbeldi væri að aukast, sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama væri ógnað og í heimsfaraldrinum ættu konur erfiðara uppdráttar. Á erlendum vettvangi væri fólk gjarnan forvitið um jafnréttisparadísina Ísland en hér væri enn verk að vinna og í réttindabaráttu mætti aldrei slaka á.
„Allt í nafni réttlætis, nafni einhverra byltinga, nafni einhverra réttinda. Þið eruð ekki að því, þið eruð að eyðileggja samfélagið í mínum huga,“ hélt þingmaðurinn áfram í útvarpsviðtalinu, sá hinn sami og hefur nú verið skipaður aðstoðarmaður dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, áður en hann ávarpaði spurninguna um hvort þolendur ættu ekki að njóta vafans. „Í leikreglunum er það hinn sakaði sem nýtur vafans þegar við erum að tala um háttsemi af þessu tagi,“ og bætti við: „Hverju áttu að trúa? Trúa? Þetta er miklu flóknara en það.“
Skylda að líta ekki undan ofbeldi
Já, það skiptir máli hver stjórnar.
Vinstri hreyfingin - grænt framboð komst aftur til valda. Sá flokkur sem hefur öðrum fremur gefið sig út fyrir kvenfrelsisstefnu. Katrín Jakobsdóttir varð aftur forsætisráðherra, hún sem sagðist ekki ætla að láta neinn né nokkurn annan „segja að ég standi ekki vaktina í jafnréttismálum“.
Enda er talað um jafnrétti kynjanna sem eitt af lykilatriðum farsæls samfélags í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, þar sem boðað er að uppfæra og leggja fram frumvarp sem á að bæta réttarstöðu brotaþola.
Ástæðan er augljós: „Kynbundið ofbeldi er mesta ógn gegn frelsi og sjálfsákvörðunarrétti kvenna sem fyrirfinnst í íslensku samfélagi,“ sagði fráfarandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Hún benti á að árlega leita hundruð kvenna til Stígamóta, Kvennaathvarfsins og að annan hvern dag komi kona með áverka eftir heimilisofbeldi á Landspítala. Það sé skylda þeirra sem eru kjörnir á þing að líta ekki undan ofbeldi eða áreitni og leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi þolenda. Fram undan væru ærin verkefni, sífellt færi fram endurskoðun á löggjöfinni og sömuleiðis þyrfti sífellt að endurmennta rannsakendur kynferðisbrota með það að markmiði að veita þolendum skjól og tryggja að „kerfið geri það af fagmennsku, hlýju og tillitssemi“.
Kynferðisbrot?
„Kynferðisbrot?“
Spurningin var fyrirsögn á pistli sem Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, skrifaði sem lögmaður 77 ára gamals manns sem hafði verið dæmdur fyrir að tæla unglingsstúlku til kynferðismaka með gjöfum. Maðurinn kynntist stúlkunni þegar hún var fjórtán ára, illa klædd úti í rigningu og hann bauð henni far.
Sonur mannsins, sem hafði verið búsettur erlendis, mætti með föður sínum í viðtal vegna málsins og las upp greinar eftir Jón Steinar Gunnlaugsson. Þegar faðir hans sýndi myndir af stúlkunni tólf ára sem hún hafði gefið honum sagði sonurinn: „Hún lítur ekki út fyrir að vera barn. Ef við erum að tala um barnaníðing þá erum við að tala um sex, sjö ára krakka og feitan, sveittan ógeðslegan karl.“
Lögmaðurinn, Brynjar, sagði að jú, það væri óumdeilt að maðurinn hefði verið í kynferðissambandi við stúlkuna og gefið henni gjafir en deilt væri um hvort í því fælist tæling. Sjálfur gæfi hann konunni sinni gjafir og skutlaði henni á milli staða. Síðan skrifaði hann grein til varnar hinum dæmda þar sem hann tók fram að maðurinn hefði frá upphafi haldið fram sakleysi, „enda ekki refsivert í sjálfu sér að eiga kynferðismök við sautján ára stúlku,“ sagði Brynjar og bætti því við að gjafir ekki endilega verið afhentar áður en kynmök fóru fram. „Það er að minnsta kosti ekki sjálfgefið að kynferðissamband eldri manns við unga stúlku sé kynferðisbrot,“ sagði hann.
Rétturinn á réttlátri málsmeðferð
Það skiptir máli hver stjórnar, ekki hvað þú gerir.
Á sama tíma og Áslaug Arna, sem boðaði „fagmennsku, hlýju og tillitssemi“, fór með dómsvaldið kærðu níu konur íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna reynslu sinnar af réttarvörslukerfinu. „Ég upplifði alla málsmeðferðina eins og ég væri fangi refsivörslukerfisins,“ var lýsing einnar á upplifuninni af því að kæra líkamsárás og hótun í nánu sambandi.
Játning geranda og afsökunarbeiðni lá fyrir en málið var aldrei rannsakað, vitni voru ekki kölluð til fyrr en eftir að lögregla sagði rannsókn málsins lokið, sakborningi var ekki kynnt sakarefni fyrr en átta mánuðum eftir að kæra var lögð fram, áverkavottorð og önnur mikilsverð gögn voru aldrei sótt og lögreglan felldi málið niður án rökstuðnings. Ríkissaksóknari gerði margvíslegar athugasemdir við framgöngu lögreglu en það var of seint, málsmeðferð hafði dregist svo á langinn að líkamsárásarbrotin fyrndust í höndum lögreglu og ekkert við því að gera meira. Maðurinn var að lokum sakfelldur fyrir hótunarbrot, einu brotin sem voru ekki fyrnd.
Sama sagan aftur og aftur og aftur og aftur og aftur.
Konurnar sem kærðu íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu gera það á grundvelli þess að brotið hafi verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar, sem og réttinum til friðhelgis einkalífs, réttinum til að vera laus undan ofbeldi í einkalífinu. Þær standa í þeirri trú að það sé réttur brotaþola að lögreglan rannsaki mál, að mál fyrnist ekki í fórum lögreglu og í alvarlegustu málunum er talað um réttinn til lífs og skyldu ríkisins til að vernda hann. Lögmaður þeirra benti líka á bann við mismunun, því tölfræðin sýnir að ofbeldismál fá aðra meðferð í réttarvörslukerfinu heldur en önnur mál. Þar er miklu sjaldnar ákært, gegnumgangandi er litið fram hjá sönnunargögnum eins og sálfræðivottorðum, ummerkjum á vettvangi og ljósmyndum af áverkum. Þetta þykir ekki nóg. Jafnvel í málum þar sem skriflegar játningar liggja fyrir duga þær ekki til ef sakborningur neitar hjá lögreglu. Og þeir neita nánast allir, alltaf og endalaust.
Ekki benda á mig.
Það var hann. Nei, hinn. Nei, hún vildi þetta sjálf.
Þannig lýsti vinkona landsliðsmanna samtalinu í vinahópnum þegar kona ætlaði að kæra nauðgun.
Trúa?
Hún vildi þetta alltaf sjálf.
Á þjóðhátíð 2016 leitaði kona í sjúkraskýli þar sem hjúkrunarfræðingur tók á móti henni. Margvíslegir áverkar voru á líkama hennar. Óumdeilt var að maðurinn hefði verið ofbeldisfullur. Fyrir dómi var jafnframt rætt við sálfræðing sem hafði konuna til meðferðar í kjölfar atvika. Maðurinn hélt því fram að um venjulegar samfarir hafi verið að ræða en lýsingar hans á atvikum bentu til annars. Hann var samt sýknaður af Landsrétti sem taldi ósannað að konan hefði ekki verið samþykk því að láta beita sig ofbeldi.
„Trúa?“ spyr aðstoðarmaður ráðherra, „þetta er nú aðeins flóknara en það.“
Eiginkona aðstoðarmannsins situr nú í Landsrétti. Fyrrverandi dómsmálaráðherra skipaði hana áður en hún þurfti að segja af sér þegar Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi íslenska ríkið brotlegt vegna málsins. Í millitíðinni hafði aðstoðarmaðurinn núverandi, þá þingmaður, gefið eftir oddvitasætið í kjördæminu svo hún ætti meiri líkur á að komast aftur inn í dómsmálaráðuneytið. Og nú situr hún og hlær: „haha,“ skrifaði hún á Facebook þegar ráðherrann var krafinn svara um val sitt á aðstoðarmanni.
Af 189 tilkynntum nauðgunarmálum til lögreglu árin 2008 og 2009 játuðu aðeins fjórir brot sín. Niðurstaðan er sú að ríkið bregst skyldum sínum á kerfisbundinn hátt, sviptir konur rétti sínum á réttlátri málsmeðferð og verndar þær ekki gegn ofbeldi. Frá 2000 til 2020 voru um 1.600 nauðgunarmál felld niður.
En það skal enginn halda því fram að forsætisráðherra sé ekki á vaktinni í jafnréttismálum.
Er mælikvarðinn að hún taki ekki þátt?
„Þarna játaði hann verknaðinn en játaði ekki að hafa ætlað að nauðga manneskjunni. Það er heljarinnar munur þar á. Ég er hræddur um að það þyrfti þá að byggja ansi stór fangelsi ef menn ætluðu sér að telja öll svona atvik sem nauðganir og dæma alla. Það væri ekki bara alvarlegt heldur skelfilegt að senda menn á Litla-Hraun án þess að þeir viti nokkurn tímann af hverju,“ sagði þáverandi ríkissaskóknari árið 2010 í tilraun til að útskýra fjölda niðurfelldra mála. „Þú getur rétt ímyndað þér að eftir svona djamm væri lífi þeirra lokið. Ég þarf ekki að setja mig í spor þessara manna til þess að skilja það.“
Síðan tók hann dæmi af konu sem hafði ekki mótmælt nauðgun beint heldur frosið. „Ef þú frýst verður gerandinn að vita að þú stirðnir upp vegna þess að þú vilt þetta ekki,“ sagði hann. „Er mælikvarðinn endilega sá að hún sé ekki virk í rúminu, taki ekki þátt? Það held ég að sé nú bara mismunandi.“
Eins og menn nauðgi óvart. Eins og allir geti bara lent í því. Eins og það sé rangt að refsa mönnum fyrir að hætta ekki kynferðismökum þegar þeir eru beðnir um það, líkt og maðurinn játaði að hafa gert.
Eða að allir geti lent í opinberri smánun, líkt og aðstoðarmaðurinn hélt fram, þegar hann brást við því að frásagnir 23 kvenna af áreitni eins og sama mannsins voru birtar á vefsíðu, með því að segja að hann gæti líka alveg stofnað sína eigin síðu.
Kallaði þingmann frumuklasa
„Við þurfum að halda áfram að hlusta, læra og gera betur,“ voru skilaboð fyrrverandi dómsmálaráðherra og inn steig nýr ráðherra í ráðuneytið, dæmigerður karlakarl sem glápti á eftir sjónvarpskonu í beinni útsendingu, vill auka vopnabúnað lögreglunnar, hefur barist fyrir stóriðju langt út fyrir samþykktir rammaáætlunar, lagt áherslu á stórframkvæmdir og vildi setja vegaframkvæmdir í hendur einkaaðila og rukka vegfarendur við höfuðborgina um tolla, styrktur af verktakafyrirtækjum.
Skömmu eftir að forsætisráðherra varaði við bakslagi í jafnréttisbaráttunni og undirstrikaði að það mætti aldrei slaka á í réttindabaráttu þá var þetta sá einstaklingur sem var valinn til að fara með dómsvaldið í landinu, þar sem svo margt er óunnið varðandi meðferð kynferðisbrotamála samkvæmt forvera hans og forsætisráðherra.
Maður sem kallaði mótmælanda aumingja og annan þingmann „frumuklasa“, hefur aldrei látið sig jafnréttismál varða, aldrei látið sig kynbundið ofbeldi varða, aldrei látið til sín taka öðruvísi en með því að greiða atkvæði gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna varðandi þungunarrof og með frumvarpi sem átti að skikka foreldra í allt að fimm ára fangelsi fyrir að tálma umgengni við börnin, jafnvel þótt það sé staðreynd að sýslumaður skikkar börn í umgengni við foreldra sem beita þau ofbeldi.
Eina frumvarpið sem aðstoðarmaður ráðherra lagði fram á meðan hann sat á þingi og gerði fjórar tilraunir á fjórum árum til að ná í því gegnum þingið.
„Snýst auðvitað ekkert um kvenfrelsi“
Aðstoðarmaðurinn hefur reyndar talað fyrir fleiri lagabreytingum, svo sem því að afnema refsingu við vændiskaupum, meðal annars á þeim forsendum að „menn séu mjög uppteknir af því að konan ráði yfir líkama sínum. Hún má meira að segja deyða fóstur,“ enda hefur hann haldið því fram að það sé „fráleitt“ að þungunarrof snúist einungis um kvenfrelsi og vildi líkt og ráðherrann setja því skilyrði. „Þetta snýst auðvitað ekkert um kvenfrelsi.“
Kynjakvótar eru heldur ekki jafnréttismál að hans mati, umræðan um mansal á Íslandi ekkert nema hluti af pólitískri hugmyndafræði og femínismi rétttrúnaður sem er að eyðileggja allt. „Það má ekki einu sinni taka myndir af typpum, hvað þá deila þeim.“
Hann sem veigrar sér orðið við að halda tækifærisræður af ótta við að lenda í fréttunum fyrir að segja tvíræða brandara. En veigrar sér aldrei við því að taka upp hanskann fyrir menn sem eru sakaðir um kynferðisbrot. „Það eru til alvarlegri brot heldur en þessi gagnvart börnum,“ sagði hann um uppreist æru lögmanns sem var dæmdur í fangelsi fyrir að brjóta gegn fjórum unglingsstúlkum.
Aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota
Hlutverk dómsmálaráðherra er meðal annars að fylgja eftir stjórnarsáttmálanum, þar sem boðað er í kafla um löggæslu, að ráðast í framhald aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Nýja aðgerðaáætlunin á að taka gildi þegar í upphafi árs 2023, eftir eitt ár og einn mánuð, tæpan.
Eitt fyrsta verk Jóns sem dómsmálaráðherra var að ráða Brynjar Níelsson sem aðstoðarmann sinn. Val hans á aðstoðarmanni sendir ákveðin skilaboð. „Það er heldur ekki gott í svona viðkvæmum málum að við séum með einhvern öfgamálflutning,“ útskýrði ráðherrann.
Það skiptir máli hver stjórnar voru skilaboðin fyrir kosningar. Forsætisráðherrann, sem gegnir lykilhlutverki í ríkisstjórninni og leiddi hana saman, varaði við bakslagi í jafnréttisbaráttunni áður en hann leiddi þessa menn til æðstu metorða yfir málaflokki kynferðisbrota.
Athugasemdir (1)