„Jóðl er bók sem er búin að vera ansi lengi í smíðum ef allt er tiltekið, segir Bragi Valdimar Skúlason. „Þetta eru kvæði, ljóð, textar, vísur, alls konar bull og fjör og skemmtilegheit og alvarlegheit og allt þar á milli sem hafa safnast upp hjá mér í örugglega tuttugu og fimm ár, jafnvel lengur. Elsta stöffið er frá því einhvern tímann í síðmenntaskóla og nýjasta er frá því í síðustu viku. Þannig að þetta er alls konar og ég verð bara að standa við þetta. Það er ýmislegt subbulegt en líka alls konar fallegt og hugljúft. Það eru jarðarfararhittarar þarna og einhverjar vessavísur og alls konar fjör.“
Spéhræddur við að setja texta á prent
„Þessi bók kom eiginlega þannig til að Páll Valsson hjá Bjarti dró hana upp úr mér með logandi töngum. Hann var búinn að ganga á eftir mér í dálítinn tíma að koma þessu á prent. Af því að ég hef verið að gera lagatexta og ég var svolítið spéhræddur við að vera að setja þá á prent svona eina og sér, svona laglausa. Mér fannst skrítið að vera að setja eitthvað sem er spunnið lag og þá er ég ekkert að vanda mig í stuðlum og höfuðstöfum. En þetta fékk allt að fljóta með, eða sumt, og ég er bara nokkuð ánægður með þetta. Þetta er bara að spjara sig ágætlega þarna.
Ég sest mjög sjaldan niður: Nú ætla ég að skrifa ljóð. Það gerist eiginlega aldrei. Þetta er meira byggt á tímapressu, deadline, og svo eiginlega bara leiða. Þegar mér leiðist þá finnst mér voða gaman að skrifa inn í símann minn. Það er lítill pappír sem kemur þarna nálægt. Þannig að ég set mig voða sjaldan í einhverjar stellingar. Þetta bara bunast einhvern veginn út, svo er bara að vona það besta.“
Þykir vænt um bókina
„Mér líður nokkuð vel með þessa bók. Mér þykir eiginlega svolítið vænt um hana. Þetta er eiginlega fyrsta, hvað á ég að segja, varan sem ég þarf einn og sjálfur að standa með. Yfirleitt er ég með her af tónlistarfólki í kringum mig eða meðhöfundum eða öðru sem passar upp á mig. En ég þarf bara gjöra svo vel að skrifa undir þetta og standa og falla með þessu. Þannig að ég er bara nokkuð ánægður með þetta.“
Athugasemdir