
Tilfinningar eru fyrir aumingja
Skrambi fyndin samtímasaga um nærri fertugan eilífðarungling með sama og ekkert sjálfstraust, sem líður þó fyrir að vera dálítið eintóna og tíðindalítil. En manni leiðist samt aldrei.
„En það var komið að ögurstundu í vinahópnum. Bara eitt matarboð í viðbót þar sem ekki væri rætt um annað en dren og annað fasteignaviðhald og eitthvert okkar hefði hent sér fram af svölunum eða kveikt í sér.“
Það má sjálfsagt finna einhverjar metafórur hérna; hvernig allt snýst um að halda vatni og lífi frá sér, um viðhald, um að viðhalda ástandi þegar fólk þyrfti frekar að breyta til.
Þetta er vinahópur snemmiðaldra fólks, þau eiga öll stutt í fertugt. Þau kynntust þegar þau voru óformleg öldungadeild Fjölbrautaskólans í Ármúla, öll mætt til að klára stúdentinn nokkrum árum á eftir áætlun.
En Halla er krónískt einhleyp og virðist töluvert meiri krakki en þau hin, allavega í eigin augum – og þetta er allt með hennar augum, hún er sögumaðurinn. Hún sér ekki mikla rómantík í hjónaböndum þeirra giftu í vinahópnum og upplifir sig raunar sem hálfgerðan stuðpúða fyrir hjónaböndin.
Athugasemdir (1)