Um aldamótin síðustu var lítil stúlka að nafni Robyn Rihanna Fenty að alast upp þar sem heitir Bridgetown á örsmáu eyríki sem er umkringt hinum heiðbláa sjó Karíbahafsins. Ríkið er Barbados og þið sjáið á meðfylgjandi korti hversu lítið það er, en fagurt er það og veðrið milt.
Líf þessarar ungu stúlku var enginn leikur. Faðir hennar var illa haldinn drykkjusjúklingur og til sífelldra og mikilla vandræða fyrir eiginkonu sína og þrjár dætur. Rihanna var elst dætranna og tók ástandið svo nærri sér að hún þjáðist af ofsafengnum höfuðverkjaköstum sem engin líkamleg skýring fannst á.
Það eina sem Rihanna hafði sér til hugarhægðar í sárum raunum sínum var tónlist. Sem betur fer er rík tónlistarhefð á Barbados. Calypso-tónlistin leikur lausum hala eins og víðar við Karíbahafið og afrísk áhrif eru sterk, en einnig suður-amerísk, og líka bresk enda var Barbados um aldir undir stjórn Breta. Tuk og spouge heita svo tónlistarstefnur sem eru beinlínis upprunnar á Barbados. Gáið á Youtube!
Þjóðhetja!
Allt þetta drakk Rihanna í sig þótt allra mest dáðist hún að bandarískri söngkonu að nafni Madonna, sem flestallar söngfúsar stúlkur fæddar 1988 hlutu að máta sig við.
Þegar Rihanna var 15 ára hafði hún myndað söngtríó með vinkonum sínum og þegar frægur bandarískur músíkfrömuður kom til Barbados, með þarlenskri eiginkonu sinni, tókst stúlkunum að útvega sér áheyrn hjá honum.
Og sú áheyrn endaði með því að nú um daginn, þegar Barbados sleit síðustu tengsl sín við Bretland með því að taka sér forseta, þá fór jafnframt fram athöfn þar sem Rihanna litla Fenty, söngglaða stúlkan með höfuðverkjaköstin og drykkjusjúka ruddalega föðurinn, var formlega útnefnd „þjóðhetja Barbados“ að kröfu sjálfrar þjóðarinnar!
Á kulborða
Höfuðverkjaköstin höfðu reyndar lagast um leið og hún slapp úr sínum sorglegu aðstæðum heima á eyjunni fögru í sjónum bláa.
Barbados er hluti Kulborðaeyjanna sem liggja í suður frá Hléborðaeyjum að strönd Suður-Ameríku. Eyjan er þó ekki í hinni eiginlegu Kulborðaröð heldur ein úti í hafinu, um 160 kílómetra í austur frá St. Vincent. Frumbyggjar frá Suður-Ameríku námu þar land í nokkrum bylgjum, sú síðasta kom um 1200. Nú er helst talið að frumbyggjar þessir hafi allir verið af kyni Aravaka en hinir herskáu bogamenn Karíba-þjóðarinnar hafi ekki sest þar að þótt þeir hafi iðulega heimsótt eyjuna á ferðum sínum.
Frumbyggjum útrýmt algjörlega
Eftir að sjóferðir Spánverja vestur um haf hófust 1492 lentu þeir fljótlega á Barbados og virðast hafa hneppt alla íbúana í þrældóm og flutt þá burt. Svo mikið er víst að þegar portúgalski sæfarinn Campos kom þar við 1436 var eyjan óbyggð með öllu.
Campos skírði eyjuna Barbados, sem þýðir „sá skeggjaði“ og mun vísa til fíkjutrés sem sprettur á eyjunni en smágreinar og lauf sem hanga til jarðar þykja ekki ósvipuð síðu skeggi.
Portúgalar litu á Barbados sem sitt yfirráðasvæði í tæpa öld en árið 1625 mættu Bretar til leiks en þeir voru þá að hreiðra um sig á mörgum eyjum Karbíahafsins og hrifsa sumar þeirra frá öðrum Evrópuþjóðum.
Mjög víða, eins og á Barbados, hafði frumbyggjum þá fyrir löngu verið eytt gjörsamlega.
Bretar settu á land 80 bændur sem rækta skyldu eyjuna og fylgdu þeim 10 ánauðugir verkamenn og skömmu síðar voru fluttir inn 40 þrælar frá Guyana á norðurströnd Suður-Ameríku. Tólf árum seinna voru íbúar orðnir 8.700, aðallega landnemar frá Bretlandi og ánauðugir verkamenn, glæpamenn eða stjórnarandstæðingar sem yfirleitt fengu frelsi eftir að hafa púlað kauplaust í fimm ár.
Sykur í stað tóbaks
Framan af ræktuðu Bretar aðallega tóbak á Barbados en mjög fljótlega fór ræktun á sykurreyr að verða sífellt umfangsmeiri. Barbados er láglendari og frjósamari en flestar hinna eyjanna í Karíbahafi og hentaði svo vel til sykurræktunar að 1660 var velta verslunar með afurðir frá Barbados meiri en allra annarra nýlendna Breta samanlagt. Bresku smábændurnir og þeirra fátæku hvítu verkamenn hrökkluðust burt, margir til Jamaíka eða Suður-Karólínu, en í staðinn komu stórar plantekrur þar sem púluðu þrælar sem fluttir voru inn á hinum illræmdu þrælaskipum frá Austur-Afríku.
Árið 1750 voru 18.000 hvítir íbúar á Barbados en 65.000 svartir þrælar.
Fína hyskið á Bretlandi græddi á púli þræla
Þrælar sættu svo illri meðferð við sykurpúlið að þeir hrundu niður en alltaf var hægt að fá ódýra þræla í staðinn. Plantekrueigendurnir rökuðu saman ofsagróða og flestir urðu forríkir. Fæstir bjuggu á staðnum, heldur létu umboðsmenn og verkstjóra reka plantekrurnar fyrir sig og halda þrælunum við efnið.
Ýmsar af þeim snöfurlegu bresku aðalsættum, sem okkur þykir svo gaman að sjá bukka sig og beygja í bíómyndum og sjónvarpsþáttum, þær byggðu sitt iðjuleysislíf og mannasiðaprump á púli húðstrýktra þræla á Barbados.
Því þrælarnir sættu oft og iðulega hinni verstu meðferð. Þegar almenningsálit á Bretlandi og víðar á Vesturlöndum tók að snúast gegn þrælahaldi undir lok 18. aldar, þá fullyrtu plantekrueigendurnir á Barbados gjarnan að sögur um illa meðferð á þrælum væru uppspuni. Þrælarnir á Barbados fengju nóg að bíta og brenna, þeir liðu engan skort og þeir fengju meira að segja að halda sín böll sér til skemmtunar!
Ekki rétt til lífs
En sannleikurinn var sá að auk frelsissviptingar og sviptingar nær allra mannréttinda, sem þrælarnir sættu, þá kom berum orðum fram í reglugerðum hvítu plantekrueigendanna um þrælahaldið hve lítils metnir þeir voru. Þeir höfðu ekki einu sinni þann rétt til lífs sem þá var farið að telja til mannréttinda. Ef þeir gerðu eitthvað af sér – og dómarinn í þeirri sök var eigandinn – þá mátti húðstrýkja þá „alvarlega“, skera af þeim nefið, svíða af þeim andlitið og svo framvegis.
Við annað brot mátti taka þá af lífi. Þrælar áttu ekki rétt á réttarhöldum, „þar sem þeir eru þrælar og rustamenni og staða þeirra hin lægsta í samfélaginu“ stóð berum orðum í þrælareglum Breta.
Ef hvítur maður drap þræl sinn „af einskærri mannvonsku“ – eins og stóð blákalt í reglunum – þá þurfti hann að borga lítils háttar sekt til yfirvalda, en dræpi hann þræl annars manns þurfti auk þess að borga tvöfalt virði hans til eigandans.
En ef þræll missti líf eða limi í höndum eiganda sem var að refsa honum „sem gerist mjög sjaldan“, staðhæfðu reglurnar, þá þurfti hinn refsiglaði eigandi ekki að borga neina sekt.
Því refsingin hlaut að hafa verið réttlætanleg!
Uppreisn Bussa
Árið 1807 bönnuðu Breta verslun með þræla og á Barbados og víðar héldu þrælarnir að nú færi þrældómi þeirra að ljúka. En það var eitthvað annað, því sjálft þrælahaldið var enn leyft.
Í apríl 1816 gerðu þúsundir þræla á Barbados uppreisn sem kennd er við Bussa nokkurn, og athyglisvert er að þrælarnir töldu sig mundu fá stuðning frá yfirvöldum á Bretlandi gegn þrælahöldurum á Barbados.
Svo fór vitaskuld ekki og yfirvöld á Barbados brutu uppreisnina á bak aftur af mikilli hörku, þótt uppreisnarþrælarnir hefðu kostað kapps um að fella ekki hvíta menn þegar þeir hófu uppreisn sína. Bussa var meðal þeirra uppreisnarþræla sem féllu í bardaga og handteknir uppreisnarmenn voru síðan brytjaðir niður í hundraðatali og enn fleiri limlestir.
Þrælahald loks afnumið
Tíu árum síðar samþykkti þing hvítra manna á Barbados ráðstafanir sem juku réttindi svartra þræla töluvert en raunverulegur tilgangur reglnanna var þó að róa hvíta þrælaeigendur og sýna þeim fram á að þótt réttur svartra ykist yrði sjálft þrælahaldið enn við lýði. Það var loks úr sögunni 1834 þegar breska þingið samþykkti að afnema þrælahald.
Þrælaeigendur fengu þá gríðarlega háar bætur frá breska ríkinu fyrir þessa „eignaupptöku“ og lifðu fyrrum plantekrueigendur og afkomendur þeirra bílífi á bótunum í meira en hundrað ár.
Þrælarnir eða afkomendur þeirra fengu engar bætur.
Eftir afnám þrælahaldsins voru svartir mjög lengi kúguð undirstétt á Barbados þótt heita ættu frjálsir. Þeir héldu áfram að puða á plantekrunum og framleiða sykurinn sem hefðarfólkið á Bretlandi græddi stórfé á – en sjálfir löptu þeir dauðann úr skel.
En þeir voru þó ekki barðir og ekki klippt af þeim nefið við minnstu „yfirsjón“.
Smátt og smátt náðu svartir og aðrir innflytjendur frá Asíu og víðar þó undirtökunum í nýlendunni enda mun fjölmennari en „hreinræktaðir“ hvítir menn. Sú þróun hélt mjög áfram eftir að Barbados varð sjálfstætt ríki 1966.
Traust lýðræðisríki, Barbados
Síðan Barbados varð sjálfstætt ríki hefur þróun þess verið að mörgu leyti góð. Á undanförnum áratugum hefur dregið úr sykurgróðanum en mikilvægi ferðamennsku hins vegar aukist. Hinn blái sjór ku vart eiga sinn líka. Lýðræði er stöðugt á Barbados og stofnanir ríkisins traustar. Mannréttindi eru flest með mesta sóma, gegnsæi einna mest hjá ríkjum í heimshlutanum og spilling aðeins í meðallagi – svipuð og í Bandaríkjunum, segja eftirlitsmenn. Fátækt er tiltölulega minni en víðast hvar í Ameríku, en launamisrétti fer þó vaxandi og hinir ríkustu ryksuga upp æ fleiri eignir og auðlindir.
En það gerist nú víðar en á Barbados, sem kunnugt er.
Hvað myndi Gunnar Smári segja?
Frá 1966 hafa Verkamannaflokkur Barbados (BLP) og Verkamannaflokkur alþýðu (DLP) skipst á um völdin. Báðir flokkarnir telja sig sósíaldemókratíska en sá sem kennir sig við alþýðuna er ívið vinstri sinnaðri en hinn.
Vinstristefna hvorugs flokksins mundi þó falla sérstaklega í kramið hjá Gunnari Smára um þessar mundir.
DLP var við völd 2008–2018 og fyrir nokkrum árum kom forsætisráðherrann Freundel Stuart hreyfingu á þrálátar umræður frá fyrri tíð um að afskaffa Elísabetu 2. sem þjóðhöfðingja en setja í staðinn forseta.
Í kosningum 2018 gerðust þau undur og stórmerki að Verkamannaflokkur Barbados, BLP, vann öll 30 þingsætin sem kosið er um á barbadosíska þinginu. Mia Mottley, þrautreyndur stjórnmálamaður um fimmtugt, tók við forsætisráðherraembættinu, fyrst kvenna, og var hún þar með eini lýðræðislega kjörni valdamaðurinn í heiminum sem þurfti ekki að hafa NEINAR áhyggjur af stjórnarandstöðu á þingi.
Eitthvað bogið við kosningarnar?
Raunar er til öldungadeild á Barbados sem skipað hefur verið í af landstjóra, forsætisráðherra og leiðtoga stjórnarandstöðunnur, en þessi deild hefur lítil sem engin raunveruleg völd.
Og nei, ekkert var bogið við kosningarnar 2018, svo því sé nú til skila haldið, en þar sem einmenningskjördæmi eru við lýði á Barbados og Stuart og DLP höfðu hvarvetna glatað miklu fylgi vegna erfiðleika í efnahagsmálum, þá fékk BLP einfaldlega meira fylgi en DLP í öllum kjördæmunum 30, og þar með eina þingmann hvers kjördæmis.
Og þannig gat þetta gerst.
Sigur BLP var raunar svo vandræðalega stór að viku eftir kosningarnar sagði einn af þingmönnum flokksins skilið við hann, bara svo að EINHVER stjórnarandstaða væri til staðar í þinginu.
Forseti tekur við
Mottley ákvað að halda fast við hugmyndir DLP um að stofna lýðveldi og því verkefni er nú lokið. Ekki leituðu Barbadosbúar langt yfir skammt til að finna sér forseta. Frá sjálfstæðisyfirlýsingunni 1966 hafði barbadosíska þingið skipað sérstakan landstjóra sem sinnti hinum táknrænu embættisverkum þjóðhöfðingja á eyjunni í umboði Elísabetar drottningar, og eftir þingkosningarnar 2018 var hin sjötuga Sandra Mason valin í starfið. Hún var á sínum tíma fyrsta konan sem varð starfandi lögmaður á Barbados.
Og nú í nóvemberlok kaus barbadosíska þingið Mason með öllum greiddum atkvæðum fyrsta forseta landsins.
Og Rihanna tók við viðurkenningu sinni sem ellefta þjóðhetja eyjunnar fögru.
Athugasemdir