Ég er sko kunnugur þeim
erfiðu tímunum
uppþvottavélin biluð
skrúbba leirtauið með bursta
og nokkrum lítrum af sápu
tímunum saman,
leirtauið frá
mánudegi
þriðjudegi
miðvikudegi
fimmtudegi
föstudagskvöldin fara öll
í yfirbót
fyrir syndir vikunnar.
Láttu mig þekkja þá
erfiðu tímana.
Ég tala nú ekki um að strauja.
Renni járninu snarlega yfir buxur
en skyrturnar eru annar kapítuli
þær hafa löngum reynst mér erfiðar.
Föstudagskvöldin fara öll
í sýsífusarleit
eftir ókrumpaðri skyrtu.
Í óravíddum stofunnar
greini ég veikan bjarma flatskjásins,
þar blómgast hin fögru fyrirheit
danska ríkissjónvarpsins.
Mikið væri indælt að fá sér eitt
bara eitt rauðvínsglas
með Belganum knáa,
Hercule Poirot
og my friend Hastings
og miss Lemon
en eftir einn
ei straui neinn.
Þeir hafa reynst mér illa,
erfiðu tímarnir.
Athugasemdir