Ég var seinn til þess að fá mér snjallsíma, ég var viss um að þetta snjallsímadæmi væri bóla. Ég gekk svo langt að gera veðmál við Telmu vinkonu mína í menntaskóla um að ég yrði ekki kominn með snjallsíma árið 2017. Hún hafði betur í því veðmáli, en var þá flutt úr landi og ég slapp við að borga henni það sem hún átti inni. Fyrir svona áratug voru flestir, ef ekki allir, vinir mínir komnir með snjallsíma, en ég sat eftir eins og síðasti móhíkaninn með minn takkasíma og sagði það sem heilagan sannleik að þessi bóla væri að eyðileggja öll samtöl. Það var aldrei ástæða til þess að ræða neitt, allir vinir mínir höfðu alla heimsins þekkingu í vasa sínum. Ef við vorum ósammála um eitthvað gúggluðu þau svarið og umræðurnar brunnu út.
Þetta reyndist ekki vera bóla, ég lét undan og internetið verður sífellt stærri hluti af lífi mínu með hverjum degi sem líður. Lífið mitt er raunar orðið það gegnsýrt af internetinu að þegar vinir mínir fóru í nokkurra daga göngu í sumar þar sem ekkert netsamband var, þótti mér það hljóma hrikalega. Þau sögðu að umræðurnar væru líflegri, að það væri skemmtilegra að spila spil þar sem þau þurftu að komast að samkomulagi um það hvernig reglurnar virkuðu, í stað þess að gúggla þær, að þau væru lausari við áreiti og samanburð. Þetta þótti mér óhugsandi líferni.
Þessar líflegu umræður vöktu hins vegar áhuga minn, hvernig leitar maður svara án þess að styðjast við internetið? Ég ákvað að láta á það reyna. Fyrsta skrefið var að finna spurningu til þess að svara. Ég fór á Twitter og spurði: „Eruð þið með spurningu sem þið viljið svar við?“ Ég fékk fjölda góðra tillagna og ákvað að reyna að komast að því hvers vegna rauður laukur yrði sætari en hvítur þegar hann er steiktur.
Þetta veit eflaust fjöldi fólks og ég hugsa að minnst ein grein hafi verið skrifuð um málið. Stutta leiðin væri sjálfsagt að logga sig inn á Metaverse-ið og pósta inn á Matartips, því gefirðu nógu mörgum bezzerwisserum nægan tíma kemur rétta svarið á endanum, rétt eins og aparnir, ritvélarnar og Shakespeare-verkin. Það er ekki í myndinni og þegar ég ræddi verkefnið við Hófí, kærustuna mína, einn morguninn, komst ég að því að það væri talsvert fleira sem ég gæti ekki gert. „Ég hugsa að ég byrji á því að fara út í háskóla,“ sagði ég: „Banka þar hjá nokkrum doktorum og lektorum, einn þeirra hlýtur að vísa mér á réttan stað.“ „Ætlarðu að labba þangað í þessu veðri?“ spurði hún og benti út. Það var aftakaveður og ég er mjög sérhlífinn, þetta veit hún. „Nei, ég var að hugsa um að taka strætó.“ „Máttu nota appið?“ Þetta þótti mér leiðinda komment, en það var rétt hjá henni. Ég má ekki nota strætó-appið, ég á ekki strætókort og forðast klink eins og vítislogana sjálfa. Ég veit ekki einu sinni hvar strætómiðar fást keyptir lengur. Ég gat heldur ekki notast við rafskútur og raunar gat ég ekki heldur tekið leigubíl, ég hef ekki séð veskið mitt svo mánuðum skiptir, eða frá því að ég setti kortin í Apple wallet-ið mitt. Þá væri faktískt ólöglegt fyrir mig að keyra. Allavega myndu mamma og pabbi ekki lána mér bílinn sinn, vitandi það að ég er ekki með ökuskírteni. Ég leit aftur út um gluggann. „Nei, ég hugsa að ég byrji niðri á skrifstofu.“
Fyrsta skrefið var að skilgreina reglurnar.
-
Ég má ekki nota internetið neitt
-
Þau sem aðstoða mig mega ekki nota internetið neitt
Regla eitt útilokar ekki eingöngu Google og samfélagsmiðla, heldur jafnframt alla samgöngumáta sem eru á mínu færi, fyrir utan göngu og hjól. Ég get heldur ekki hlustað á tónlist og podköst þegar ég geng milli staða, sem útilokar nánast göngu og hjólreiðar í mínum huga. Auk þess get ég ekki notast við Google Maps og þarf því að treysta á að ég rati út um alla borg. Ég má hringja í vini mína og biðja um far, en ég ætla að reyna að komast hjá því. Regla tvö útilokar upplýsingaveitur í síma, ég fékk það staðfest. Ég gæti farið á bókasafn, en bókavörðurinn gæti ekki flett upp bókinni fyrir mig, þar sem þeirra kerfi er einnig tengt internetinu. Hann þyrfti því að safna saman öðrum starfsmönnum safnsins og reyna að rifja það upp í hvaða bók er fjallað um sætu mismunandi lauktegunda.
Ég sat fyrir framan tölvuna og fylltist kvíða. Kannski er þetta verkefni mér ofviða. Ég vissi ekki einu sinni að rauður laukur væri sætari en hvítur, mér finnst laukur bara vera laukur. Ég ákvað að hringja í mömmu. „Hæ, ég er að vinna verkefni fyrir Stundina þar sem ég má ekki nota internetið neitt og heldur ekki þú. Veistu hvers vegna rauður laukur verður sætari en hvítur þegar hann er steiktur?“ spurði ég og mamma hló. „Nei, ég veit það ekki. Ég hef bara ekki spáð í það.“ „Nei einmitt, heldur ekki ég. Veistu hver gæti vitað það?“ „Kannski kokkur, eða líffræðingur, eða matvælafræðingur, já eða garðyrkjufræðingur.“ „Einmitt. Takk. Þekkir þú kokk, eða líffræðing, eða matvælafræðing, já eða garðyrkjufræðing?“ „Nei því miður.“ „Ok. Ég ætla að reyna að hafa uppi á einum slíkum. Takk, mamma.“
Svili minn, Eiríkur Gísli Johansson, er matreiðsumeistari, ég get hringt í hann, eflaust veit hann svarið. Ég hringdi og hann vissi ekki svarið, hann var samt með kenningu: „Ætli það sé ekki meiri frúktósi í rauðum lauk. Ég þori ekki að fullyrða um það, en mér þykir það langlíklegast.“ „Einmitt, takk. Já, það hljómar sennilega, ég ætla samt að reyna að fá það staðfest.“ Ég reyni að rifja upp samtal úr The Newsroom-þáttunum um hversu marga heimildarmenn rannsóknarblaðamenn vilja hafa áður en þau þora að birta frétt, ég vil vera viss. Næstur á listanum hennar mömmu var matvælafræðingur. Ég fletti í gegnum símaskrána mína í leit að einhverjum sem gæti þekkt matvælafræðing, en þá rifjast tvennt upp fyrir mér. Annars vegar það að ég hringi aldrei í fólk, heldur notast eingöngu við Messenger, og hins vegar að þegar ég hringi í fólk þá vista ég aldrei númerin þeirra. Ég er með svona átta símanúmer skráð og til viðbótar við þau kann ég kannski tíu númer utan að. Sum get ég útilokað strax, ég var til dæmis óþarflega hvass við Villa vin minn fyrr í dag og ætla að bíða með að tala við hann þangað til að samviskubitið hefur aðeins sjatnað. Vigdís, ég hringi í Vigdísi Hafliðadóttur, söngkonu og grínista. Hún er mín sterkasta tenging inn í akademíuna, þar sem hún er eina manneskjan í símaskránni minni sem útskrifaðist úr Háskóla Íslands, fyrir utan Hófí en mér finnst ég búinn að trufla hana nóg í dag. Auk þess er Vigdís menntuð í heimspeki, það gæti verið gaman að fá heimspekilegt sjónarhorn. Hún segir mér að það sé gott að hafa eitthvert haldreipi í þeirri annars botnlausu óvissu sem lífið er, að þekkingarfræðin reyni að komast að því hvað megi með sanni kalla staðreyndir og að í ljósi þeirrar almennu samskynjunar að rauður laukur sé sætari en hvítur þá sé nánast hægt að fullyrða um það. Ég verð oft óöruggur þegar ég tala við Vigdísi, hún er svo miklu klárari en ég, þannig að ég velti því upp hvort það sé eðli rauðs lauks að vera sætari en hvítur, eða hvort það sé bundið við bragðlauka mannsins. Við vitum ekki hvor laukurinn snákum þykir til að mynda sætari. Hún tekur undir þetta, en ég fæ það á tilfinninguna að það sé frekar af vinsemd heldur en raunverulegum áhuga á þessari pælingu. Engu að síður er ég ánægður með mig. Þótt ég komist ekki að svarinu með þessum hætti þá hef ég það á tilfinningunni að þetta verkefni muni efla vinabönd mín við fólk, sem leit á Google hefði ekki gert. Að lokum spyr ég Vigdísi hvort hún þekki matvælafræðing sem hún og gerir. Ólöf Huld, föðursystir hennar, er matvælafræðingur. Ég fæ númerið og er viss um að vinnudeginum ljúki senn.
Rangt númer. Ég hringi aftur í Vigdísi sem lofar mér að hún muni komast til botns í þessu og senda mér rétt númer. Og ég bíð. Ég er ekki vanur því að þurfa að bíða, hvað þá eftir upplýsingum. Ein mínúta, tvær, þrjár. Andskotinn hafi það, nenni ég þessu? Eitthvað verð ég að gera. Ég hringi í systur mína. „Hæ, ég er að vinna grein fyrir Stundina þar sem ég má ekki nota internetið neitt og heldur ekki þú. Veistu af hverju rauður laukur verður sætari en hvítur þegar hann er steiktur?“ Hún veit það ekki og finnst þetta vera skrýtið verkefni, systkinum mínum finnst ég oft vera að vesenast í einhverju stórfurðulegu en látum það vera. „Þekkirðu nokkuð líffræðing, matvælafræðing, garðyrkjufræðing eða kokk?“ „Já, Lilja, dóttir Steina og Svanhvítar, er líffræðingur.“ Alveg rétt! Það er stutt í næsta líffræðing.
Ég hringi aftur í mömmu og bið hana um númerið hjá Lilju, hún er ekki með það, þannig að ég bið hana um númerið hjá Svanhvíti. „Þú getur líka sent Lilju vinabeiðni á Facebook og spurt hana,“ segir hún og ég minni hana á að ég megi það ekki.
Svanhvít sendir mér númerið hjá Lilju og ég hringi í Lilju sem segist ekkert hafa stúderað lauka, hún gefur mér númerið hjá næringarfræðingi sem gæti vitað svarið. Næringarfræðingurinn svarar ekki símanum þegar ég hringi, kannski svarar hún ekki ókunnugum númerum. Það geri ég allavega ekki. Um það leyti sem þessi hurð lokast opnast nýr gluggi, Vigdís sendir mér rétt númer hjá frænku sinni, matvælafræðingnum Ólöfu Huld. „Má ég gúggla?“ spyr hún mig, hún er með kenningar en þorir ekki að fullyrða um að þær séu réttar. „Það er sennilega vegna þess að það eru meiri kolvetni í rauðum lauk en gulum.“ Síðan gæti það líka eitthvað haft með karamelliseringu að gera, segir hún, en það tengist prótínum og svokölluðum majardprósess. Gott er að það komi hér fram að ég kann ekki að skrifa majardprósess, hún var ekki alveg viss um hvernig það væri stafsett og mér er lífsins ómögulegt að fletta því upp, án þess að brjóta reglu eitt. Niðurstaðan hjá Ólöfu Huld er sú sama og hjá Eiríki, svila mínum, góðar kenningar, en engin vissa. Kannski veit þetta enginn.
Næst á dagskrá er annar matreiðslumaður sem ég þekki, Sindri Þór, en kærastan hans er einmitt líffræðingur. „Ég er ekki matreiðslumaður, en ég hef unnið í eldhúsi,“ segir Sindri. „En er það rétt hjá mér að Bryndís sé líffræðingur?“ „Nei, hún er lífeindafræðingur.“ „Ó. Veistu hvers vegna rauður laukur verður sætari en hvítur?“ spyr ég hann. „Stutta svarið er nei, en ég held að það sé miklu frekar mýta en einhver sannleikur.“ Ég íhuga að ráðast á hann með þekkingarfræðinni hennar Vigdísar að vopni, en efast um að ég kunni að beita henni, þannig að ég læt það eiga sig. „Ég hef allavega ekki fundið það að rauður laukur sé sætari, hann er hins vegar fallegri. Ég held að þetta snúist miklu frekar um það.“ Þetta slær mig út af laginu. Fram að þessu hafa öll verið sammála um að rauður laukur sé sætasti laukurinn. „Heldurðu að Bryndís hafi eitthvað rannsakað þetta í vinnunni sinni?“ „Þar sem hún rannsakar öndunarfærasjúkdóma? Ég efast um það,“ segir Sindri.
Það er greinilegt að þessi rannsókn mín er farin að kvisast út um allan bæ. Pabbi minn hringir í mig og segist þekkja mann sem veit pottþétt svarið við þessu, Viggó heitir hann og er kokkur.
„Nei, ég veit það reyndar ekki,“ segir Viggó, aðspurður hvort hann viti hvers vegna rauður laukur er sætari en hvítur. „En hann er það, þú myndir ekki til dæmis setja hráan hvítan lauk út í salat en þú myndir setja rauðan.“ Ég tek undir það, þó ég hafi aldrei sett lauk út í salat og hélt fram að þessu að eini munurinn á hvítum lauk og rauðum væri liturinn. „En ég veit ekki hvað veldur þessu, Nanna Rögnvaldardóttir veit það örugglega. Ég myndi hringja í hana.“
Viti menn, ég þekki bróðurson Nönnu, sem segir mér að fletta númerinu hennar hennar upp á ja.is, ég útskýri að ég megi það ekki, þá segir hann mér að fletta númerinu hennar upp í símaskrá. Ég útskýri að ég sé fæddur árið 1993 og eigi þar af leiðandi ekki símaskrá, að ég viti ekki einu sinni hvar ég ætti að leita að símaskrá. Þetta þykja honum óþarfa hortugheit, en gefur mér engu að síður númerið hjá pabba sínum, sem svo gefur mér númerið hjá Nönnu, sem svarar ekki símanum. Og við það lokast öll sund.
Sennilega mun ég aldrei komast að því hvers vegna rauður laukur verður sætari en hvítur þegar hann er steiktur, en eitt veit ég sem ég vissi ekki fyrir þessa vegferð mína og það er að rauður laukur þyki almennt sætari en hvítur. Pabbi hringir aftur og segir að ég sé á villigötum með þessa rannsókn. Það er ekki hægt að flokka lauk í rauðan og hvítan. „Það er til laukur sem heitir sætur laukur og hann er hvítur,“ segir hann.
Ég lagði greinilega upp með ranga tilgátu og enginn þeirra sem ég ræddi við vissi það, eða hafði það í sér að leiðrétta mig. „Það er gott fyrir Stefán að hafa eitthvað fyrir stafni,“ hugsuðu þau kannski. Eftir sit ég engu nær, með fleiri spurningar en svör, og minni virðingu fyrir þekkingarfræðinni en áður.
Athugasemdir