Ég keypti ilmolíulampa um daginn. Ég fór á vefverslun fyrirtækis sem sérhæfir sig í heilsueflandi tækjum og eyddi tólf þúsund kalli í hvítan lampa með viðarbotni, tvö þúsund kalli í olíu sem heitir Sleeptime og fyrst ég var þarna keypti ég líka einhverja dagsbirtuljósaperu á tvö þúsund og fimmhundruð kall. Ég trúi ekkert sérstaklega á ilmkjarnaolíur, en þegar ég fékk lampann heim fylgdi ég leiðbeiningunum eins og um óskeikulan leiðarvísi til betra lífs væri að ræða. Ég hefði stokkið fram af brú ef það hefði verið eitt skrefanna í þessum bæklingi.
Ég hef ekki getað fest svefn undanfarna mánuði. Ég er búinn að prófa öll trikkin í bókinni, ég er hættur að drekka kaffi eftir hádegi, fer í ró klukkustund fyrir svefn, skoða ekki símann, horfi ekki á sjónvarpið tveimur tímum fyrir svefn en ekkert blivar. Kannski á svefnleysið sér einhverjar dýpri rætur, en á meðan stjórnvöld ákveða að niðurgreiða ekki sálfræðiþjónustu þá eru það bara getgátur og framlegð mín í efnahagnum verður um helmingur þess sem hún væri ella, svæfi ég almennilega.
Fyrsta skrefið til þess að takast á við svefnleysið var að óska eftir svefnlyfjum frá heimilislækni, ég fékk þau uppáskrifuð í gegnum Heilsuveru og borgaði einhvern fimm þúsund kall fyrir þau. Sálfræðitími kostar nítjánþúsund. Fjórtán þúsund króna sparnaður. Ef pillurnar hjálpa er ég viss um að afköstin aukist, að ég skapi meiri verðmæti. Þessum fjórtán þúsund krónum get ég varið í að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki í mínu nærumhverfi. Ég tek pilluna og ég vaki, ég tek hana aftur og ég vaki, ég tek hana og ég er syfjaður en ég vaki. Ég ligg dauðþreyttur á bakinu og stari upp í loft, á vírana úr loftljósinu sem ég ætti að vera búinn að ganga frá. Ég ákveð að gera það á morgun, en þegar morgundagurinn rennur upp finn ég að ég þarf alla mína krafta í vinnu dagsins. Óunnin verkefnin hrúgast upp á todo-lista sem mun gleypa íbúðina eins og hún leggur sig nái ég ekki að höggva á hann. Verðmæti sem komast ekki í verð, geri ég ekki eitthvað í mínum málum.
Eftir hálfan mánuð af lyfjuðu svefnleysi hitti ég nágranna minn á förnum vegi. Hann spyr mig hvernig hemp-græðlingnum mínum líður, þessum sem hann gaf mér í afmælisgjöf. Hann er auðvitað löngu dauður, hann var á bakvið gardínuna inni í stofu, þessa sem ég dreg aldrei frá. Hjá nágranna mínum er uppskera sem hann segist nota í te, að það sé bragðvont en róandi, að það hjálpi til með svefn. Þetta vekur áhuga minn og hann segir að svona hemp-te fáist keypt í mörgum helstu verslunum bæjarins, þetta sé íslensk framleiðsla. Úti í búð kosta 30 grömm af teinu þrjú þúsund kall. Teið plús töflurnar kosta átta þúsund, það er samt ódýrara en sálfræðitími. Ellefu þúsund króna sparnaður og þessi þrjú þúsund kall fer óskiptur í að örva íslenskan iðnað, þetta hlýtur að kallast win win.
Þetta kvöldið tek ég töfluna tveimur tímum áður en ég leggst upp í rúm og les á tepokann: „Setjið eina teskeið út í heitt vatn, ekki sjóðandi, og hrærið. Blandið bragðlausri olíu saman við og hrærið. Látið standa í 5–15 mínútur.“ Þessu hlýði ég.
Þetta geri ég næstu kvöld en ekkert breytist. Ég er kominn með alls konar hugmyndir um hvernig við getum gengið smekklega frá vírunum yfir rúminu, eina nóttina sef ég vel og einn daginn geng ég frá þessum vírum. Það kemur að því, ég veit það.
Afköstin minnka frá degi til dags. Bein afleiðing þess er að ég sé fleiri auglýsingar fyrir CBD olíu á Instagram. „Slær á kvíða“ segir í auglýsingunni: „Bætir svefn.“ Eina nóttina gefst ég upp. Ég eyði klukkutíma eða svo í að lesa um CBD til þess að vera viss um að hún sé ekki vímugjafi, ég get ekki neytt vímugjafa án þess að allt fari til andskotans. Eftir drjúga stund á einhverju alþjóðlegu AA spjallborði, hvar fólk skiptist á reynslusögum af CBD, þykir mér þetta öruggt og ákveð að panta mér glas.
Olían kostar tuttugu þúsund kall. Olían, teið og töflurnar kosta saman tuttugu og átta þúsund. Það er meira en einn sálfræðitími en minna en tveir.
Ég þyrfti örugglega að fara tvisvar í mánuði til sálfræðings, ég er viss um það. Þetta er enn sparnaður. Tíu þúsund króna sparnaður. Verslunin sem selur dropana er líka lítið fyrirtæki. Þessi kaup skapa störf. Þessi kaup láta drauma frumkvöðla rætast. Þessi kaup stýra þjóðarskútunni út úr Covid-kreppunni. Ég er ábyrgur þátttakandi í samfélaginu, ég er fyrirmyndarneytandi.
Næsta kvöld sæki ég dropana í pósthólf og les leiðbeiningarnar á leiðinni heim. „Settu tvo dropa undir tunguna og geymdu þar í mínútu áður en þú kyngir.“ Þetta á ég að gera tvisvar sinnum á dag og stækka skammtinn á hverjum degi, þangað til ég hef fundið réttan skammt. Þegar heim er komið hræri ég kókosolíu út í heitt vatn og tek töfluna, set dropa undir tunguna og bíð í mínútu.
Ég leggst upp í rúm og hugsa um verkefni morgundagsins, um þau sem ég náði ekki að klára fyrr um daginn. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að nýta mér þessa andvöku. Kannski er líkaminn að segja mér eitthvað. Ég sef helmingi minna en ég vildi gera og framlegðin mín er helmingi minni en hún ætti að vera. Kannski ætti ég einfaldlega að lengja vinnudaginn, vinna tvöfalt lengur og fara þeim mun seinna upp í rúm.
Ég næ botninum þessa nótt, þegar ég panta ilmolíulampann. Hann kostar tólf þúsund kall, olían tvö þúsund og ljósaperan tvö þúsund og fimmhundruð. Sextán þúsund og fimmhundruð kall, til viðbótar við það sem ég hef þegar eytt, fjörutíu og tvö þúsund og fimmhundruð krónur í heildina. Meira en tveir sálfræðitímar. Hvað hef ég gert?
Nei, þetta er allt í lagi. Ég þarf ekki að kaupa lampann aftur, olían dugir eflaust í tvo mánuði, teið, droparnir og töflurnar í einn. Það er ekki eins og tveir tímar hjá sálfræðingi séu að fara að lækna mig, ég þyrfti sjálfsagt að fara í nokkra. Ef ég færi tvisvar í mánuði í heilt ár þá myndi það kosta 456.000 krónur.
Þetta er enn sparnaður. Ef pillurnar, teið, droparnir, olían og lampinn spara mér kostnaðinn við sálfræðing þá er þetta góð fjárfesting.
Ég get verslað mig út úr þessum vanda, ég er viss um það.
Athugasemdir