Sú var tíð að vér menn þekktum aðeins reikistjörnurnar í okkar eigin sólkerfi. Fyrir tæpum 30 árum var tækni svo komin á það stig að vísindamenn gátu farið að greina plánetur við aðrar sólir en okkar. Yfirleitt tókst það með því að greina örlitlar truflanir í birtumagni frá öðrum sólstjörnum. Þær reyndust stafa af því að reikistjörnur sveimuðu fyrir birtuna frá viðkomandi sól.
Með tímanum hafa menn náð mikilli leikni í að greina þessar truflanir og birtumagnið og mæla út frá þeim stærð viðkomandi plánetu, umferðarhraða hennar og jafnvel efnagerð.
Nú hafa fundist 5.000 plánetur utan sólkerfis okkar og þeim fjölgar sífellt.
Allar þær plánetur eiga það hins vegar sameiginlegt að vera í okkar stjörnuþoku, sem við köllum Vetrarbrautina.
Enda fjarlægðir nægar innan Vetrarbrautarinnar, þótt ekki sé farið að skima út fyrir hana.
Hvað er að gerast við M51-ULS-1?
Í gær tilkynntu vísindamenn hins vegar að fundist hefðu merki um fyrstu plánetuna í annarri stjörnuþoku en okkar. Það voru dr. Rosanne Di Stefano og félagar hennar vestan hafs sem fundu þau merki með Chandra röntgengeislasjónaukanum sem NASA starfrækir.
Aðferðin sem notuð var er í grundvallaratriðum svipuð þeirri sem notuð er til að finna plánetur innan Vetrarbrautarinnar, nema hvað vegna gífurlegrar fjarlægðar er skimað eftir truflunum á röntgengeislasendingum frá sólstjörnum í öðrum stjörnuþokum.
Doktor Di Stefano og kollegar hennar leggja áherslu á að enn sem komið er geti þau ekki slegið fullkomlega föstu að truflanirnir sem þau hafa greint við sólkerfið M51-ULS-1 í stjörnuþokunni Messier 51 séu af völdum plánetu. Meiri rannsókna sé þörf.
En þau viðurkenna líka að vera mjög vongóð um að niðurstöðurnar séu réttar.
Einn af félögum Di Stefano, Julia Berndtsson við Princeton-háskóla í New Jersey, sagði um þetta — og vitnað til þess hér hjá BBC — að „við vitum að við erum að setja fram spennandi og djarfa tilgátu sem við vonum að aðrir stjarnvísindamenn muni nú skoða mjög vandlega“.
Það munu þeir vafalaust gera, en það gæti sett strik í reikninginn að séu útreikningar réttir, þá munu nú líða 70 ár þangað til hin meinta pláneta á aftur heppilega leið fyrir röntgengeislaútgeislun frá tvístirninu, svo að greina megi truflanirnar alla leið frá Jörðu.
En kannski verður hægt að finna aðra leið til að sannreyna þetta.
Tvisvar sinnum stærri en Satúrnus
En sé þarna um plánetu að ræða er það stórmerkileg uppgötvun. Þar með væri endanlega sannað það sem flestir telja sig nú reyndar hafa vitað — að plánetur séu ekki bara í Vetrarbrautinni okkar, heldur í öðrum stjörnuþokum líka, sem þýðir að reikna má með að í hinum sjáanlega alheimi séu silljón skrilljón billjón plánetur — að minnsta kosti!
M51-ULS-1 er tvístirni þar sem annaðhvort „lítið“ svarthol eða nevtrónustjarna (samanhrunin risasól) snýst um sólstjörnu sem er um það bil 20 sinnum stærri en sólin okkar.
Di Stefano og félagar reiknuðu út að ef truflanirnir á röntgensendingunum eru til marks um plánetu, þá er plánetan líklega á stærð við Satúrnus í okkar sólkerfi og er á braut um svartholið eða nevtrónustjörnuna í um það bil tvöfaldri þeirri fjarlægð sem Satúrnus er frá Sólinni okkar.
Varla líf að finna
Vart er við því að búast að á þessari meintu plánetu sé líf, þar eð ugglaust er um að ræða gasrisa sem álpast um jökulkaldan geiminn, langt frá birtu sólarinnar í M51-ULS-1, auk þess sem hvikular aðstæður í tvístirnum eru sennilega yfirleitt heldur óheppilegar fyrir líf.
En um þetta er þó auðvitað ekkert hægt að fullyrða, og svo mikið er víst að við munum ekki geta skroppið til M51-ULS-1 og skoðað aðstæður. Messier 51 er nefnilega í 28 milljóna ljósára fjarlægð.
Til samanburðar má geta að sú stjörnuþoka utan Vetrarbrautarinnar sem flestir þekkja nafnið á og sú sem næst okkur er af stórum stjörnuþokum, Andromeda (raunar heitir hún Messier 31 á fræðimáli), hún er í „aðeins“ 2,5 milljóna ljósára fjarlægð.
Athugasemdir