Örlög frjálsrar fjölmiðlunar á Íslandi eru kaldhæðnisleg í þeim skilningi að einkahlutafélagið Frjáls fjölmiðlun ehf., sem gaf út DV og fleiri fjölmiðla, var fjármagnað á laun af helsta auðmanni Íslands, í greinilegum bága við anda laga um gagnsæi á eignarhaldi fjölmiðla, á sama tíma og allar eldri umfjallanir hurfu af vef miðilsins.
Frjáls fjölmiðlun, sem var nafnið á útgáfufélagi hins frjálsa og óháða DV á níunda áratugnum, endaði sem táknmynd þess hvernig íslenskir fjölmiðlar urðu í reynd leikföng ríkustu Íslendinganna. Það er ekki skoðun, heldur sýna tölurnar fram á það.
Spurningin hvort fjölmiðill geti raunverulega verið frjáls ef hann er háður hagsmunaaðilum eða tilteknum auðmönnum, á við um nánast alla fjölmiðla á Íslandi í dag.
Tilraun til að reka sjálfbæran fjölmiðil
Þegar Stundin var stofnuð árið 2015 var markmiðið að starfrækja fjölmiðil sem væri sjálfbær vettvangur fyrir gagnrýna rannsóknarblaðamennsku undir beinum áhrifum af hagsmunum almennings.
Hugmyndin var að fjölmiðillinn væri ekki aðeins hugmyndafræðilega með almannahagsmuni að leiðarljósi, heldur lifði beint eftir vilja almennings sem ákveddi að kaupa áskrift eða ekki, sem eru hátt í 90% tekna miðilsins. Fjárhagsleg sjálfbærni er síðan forsenda þess að fjölmiðill sé raunverulega frjáls og óháður.
Frá því Stundin var stofnuð hefur hún verið rekin í jafnvægi, uppsafnað með 2,7 milljón króna afgangi að meðtöldum öllum stofnkostnaði.
Á sama tíma og Stundin hefur axlað ábyrgð á eigin fjárhag og lifað á forsendum almennings hefur Morgunblaðið verið rekið með 1,2 milljarða króna tapi sem eigendurnir, aðallega útgerðarmenn, borga fyrir undir ritstjórn fyrrverandi formanns valdamesta stjórnmálaflokks landsins.
En þetta er bara brot af myndinni. Auðfólk hefur borgað fyrir milljarðatap fréttamiðla frá því Stundin var stofnuð.
Fjársterkir borga stöðugt tap
Í fyrra tapaði útgáfufélag Fréttablaðsins og DV.is 600 milljónum króna, eða 1,6 milljónum króna á hverjum degi, 200 þúsund krónum á hverja virka vinnustund. Það þýðir að eftir klukkutíma og korter hefur tapast jafn mikið og atvinnulaus manneskja fær í fullar útborgaðar bætur á mánuði. Eigandinn, fjárfestirinn Helgi Magnússon, sem meðal annars átti hlut í Bláa lóninu og er þekktur fyrir stuðning við stjórnmálaflokkinn Viðreisn, borgar tapið og segist hafa hafnað tilboðum um að selja fyrirtækið. Hver vill kaupa fyrirtæki sem tapar svona miklu er ráðgáta, nema þegar horft er á forsöguna, ástarsögu auðmanna og íslenskra fjölmiðla. Þeir hafa nefnilega verið til í að fórna peningunum sínum fyrir fjölmiðlana sína.
Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið, tapaði 75 milljónum króna í fyrra og hefur tapað 2,2 milljörðum í ritstjóratíð Davíðs Oddssonar, en fær stöðug fjárframlög frá útgerðarfélögum til að halda rekstrinum gangandi.
Sýn hf., sem heldur úti Vísi, Stöð 2 og Bylgjunni, tapaði 405 milljónum í fyrra og 1,7 milljörðum árið áður. Útgáfufélag Viðskiptablaðsins tapaði 55 milljónum í fyrra. Kjarninn tapaði síðan 6 milljónum króna og samtals 53 milljónum króna frá árinu 2014.
Undantekningarnar eru síðan tvær meðal fréttamiðla á árinu. N4 á Akureyri hagnaðist um 600 þúsund krónur í fyrra, en fyrirtækið er í eigu ýmissa hagsmunaaðila á Norður- og Austurlandi, meðal annars KEA, Kaupfélags Skagfirðinga og Síldarvinnslunnar, sem er að stórum hluta í eigu Samherja. N4 hefur samtals tapað 94 milljónum króna frá árinu 2015 sem eigendur hafa greitt fyrir.
Stundin hagnaðist síðan um 7,2 milljónir króna í fyrra og var með besta rekstur allra fréttamiðla.
Þetta eru staðreyndir, en ekki skoðanir, fengnar upp úr ársreikningum fjölmiðlafyrirtækja.
Hvorki frjáls fjölmiðlun né frjáls samkeppni
Frjáls fjölmiðlun er gamalt heiti á útgáfufélagi DV, þegar DV var stofnað sem andsvar við fjölmiðlun á forsendum stjórnmálaflokkanna. Þetta var fjölmiðill fyrir það fólk sem vildi ekki láta starfsmenn stjórnmálaflokka sjá um að veita því upplýsingar um samfélagið, vegna þess að flokksbundin fjölmiðlun er ekki óháð.
Rétt eins og heitið Frjáls fjölmiðlun var endurnýtt og afskræmt fyrir fjölmiðil sem ríkasti maður Íslands niðurgreiddi á laun í botnlausu tapi ákvað lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson sem frontaði gjörninginn að nefna félagið sitt Dalsdal ehf., til höfuðs Dalnum ehf., sem annar auðmaður, Róbert Wessmann, hafði ætlað til eignarhalds á DV, áður en hann var svikinn af Birni Inga Hrafnssyni, sem gerði sig að mennskri brú milli stjórnmála- og viðskiptahagsmuna, og svo fjölmiðla. Fram hefur komið að Róbert borgaði sjálfur 10 milljónir króna fyrir að vera í forsíðuumfjöllun viðskiptatímarits.
Á sama tíma og Björgólfur Thor Björgólfsson fjármagnaði leynilega tap DV var fréttavefurinn uppfærður þannig að allar eldri greinar hurfu, meðal annars gagnrýnar fréttir af viðskiptum sama leynieiganda, nokkuð sem um leið leitarvélabestaði hann.
Frjáls fjölmiðlun tapaði 745 milljónum króna árin 2017 til 2020, en tvö ár þar áður var ekki skilað ársreikningi fyrir útgáfufélag DV. Á sama tíma stundaði DV það rekstrarmódel að afrita fréttir af samfélagsmiðlum og úr öðrum fjölmiðlum, meðal annars frá blaðamönnum Stundarinnar, og birta þær lauslega umorðaðar með smellibeitufyrirsögnum til að knýja auglýsingabirtingar á vefnum sínum.
Samtímasaga fjölmiðla drifin hagsmunum
Fjölmiðlasaga síðari ára á Íslandi lyktar af leynd og hagsmunaárekstrum. Meðan við gerðum upp viðskiptahluta efnahagshrunsins var stóra fríblaðið í eigu umsvifamesta athafnafólks útrásaráranna, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur, með sér tengdan ritstjóra sem barðist gegn uppgjöri á efnahagsbrotum.
Meðan við gerðum upp stjórnmála- og efnahagshlutann var fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri ritstjóri hins stóra blaðsins með áróður gegn uppgjörinu, sem hefur kostað 2,2 milljarða króna í taprekstri.
Þriðji prentmiðillinn var Viðskiptablaðið og fjórði DV, sem var á endanum yfirtekið af Frjálsri fjölmiðlun fyrir tilstuðlan ríkasta manns landsins og líklega siðferðislega frjálsasta lögmanns landsins.
Hugsjónir hins frjálsa markaðar
Á tyllidögum vísar atvinnulífs- og frelsissinnað fólk, eins og aðstandendur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, á mikilvægi frjálsrar samkeppni, sem faðir hagfræðinnar, Adam Smith, lagði svo mikla áherslu á. En þetta er ekki frelsið sem allir tala um sem berjast fyrir frjálsum markaði. Þetta er ekki „ósýnilega höndin“ sem Adam Smith sagði að stýrði hagkerfinu í rétta átt. Þetta er allt annar handleggur, allt önnur hönd.
Þetta er ekki „ósýnilega höndin“ sem Adam Smith sagði að stýrði hagkerfinu í rétta átt.
Það skiptir í raun ekki máli hver ástæða auðfólksins er til þess að tapa peningunum sínum í niðurgreiðslur fjölmiðla. Við vitum þó að flestir þessara aðila hafa ríka hagsmuni af því að bæta ímynd sína og þrífast jafnvel á því að geta framkallað traust í viðskiptum.
Hvort sem það er vegna hégómagirndar fjársterks fólks eða útreiknaðra viðskiptahagsmuna af því að vernda eða fegra ímynd og hagsmuni eigenda, er afleiðingin að nánast er ómögulegt að reka fréttamiðil í samkeppni við milljarða niðurgreiðslur auðmanna.
Það þýðir að Íslendingar eru smám saman dæmdir til þess að neyta fréttamiðla sem lifa einungis upp á náð og miskunn auðugra eigendanna.
Fjölmiðlar verða aldrei eins og þeir voru. Upplýsingagjöf hefur færst frá þeim yfir til stofnana, fyrirtækjanna sjálfra og jafnvel einstaklinga, með tæknibyltingunni. Eftir stendur enn mikilvægara það kjarnahlutverk fjölmiðla sem hvorki fyrirtæki, stofnanir eða frægt fólk getur gert í staðinn, að fjalla óháð og gagnrýnið um þróun og atburði með aðferðum blaðamennskunnar.
Það er engin sjálfgefin staða að fjölmiðlar séu í sjálfstæðri eigu og hafi fyrst og fremst hagsmuni af því að þrífast sjálfir í sambandi við áskrifendur án fylgilags við valdamikla aðila eða hópa.
Athugasemdir