Reiknistofa lífeyrissjóða hefur ákveðið að taka sjálft yfir rekstur tölvukerfisins Jóakims, sem áður var í umsjá hugbúnaðarfyrirtækisins Init. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reiknistofunni.
Samningi Init hafði áður verið sagt upp í kjölfar þess að Kveikur á RÚV afhjúpaði hvernig eigendur þess rukkuðu Init fyrir eigin vinnu í gegnum eignarhaldsfélög sín og hvernig systurfélag Init, Init-rekstur, rukkaði það fyrrnefnda fyrir ýmsa óskilgreinda þjónustu. Í umfjöllun Kveiks kom fram að á árunum 2015 til 2019 hafi 636 milljónir farið frá Init til Init-rekstrar og aðrar 278 milljónir til þriggja einkahlutafélaga í eigu þriggja eigenda og lykilstarfsmanna Init. Þá hafi 600 milljóna arður verið greiddur út úr þessu systurfélagi til eigendanna á tímabilinu.
Í kjölfar umfjöllunar Kveiks ákvað Reiknistofan að fela endurskoðendaskrifstofunni EY að yfirfara og rannsaka málið. Niðurstaða endurskoðendanna var að Init og eigendur þess hefðu brotið samninginn um rekstur Jóakims. Auk þess að ráðast í úttekt á starfsháttum Init réðu lífeyrissjóðirnir Almar Guðmundsson sem framkvæmdastjóra Reiknistofunnar.
Kerfið Jóakim er mikilvægur hlekkur í rekstri lífeyrissjóðanna og annarra sem nota kerfið. Kerfið heldur utan um eignir lífeyrissjóða, réttindi sjóðfélaga og fleiri lykilupplýsingar í starfsemi þeirra. Til viðbótar við lífeyrissjóði notar fjöldi stéttarfélaga, þar á meðal Efling, eitt stærsta stéttarfélag landsins, kerfið til að halda utan um réttindi síns félagsfólks.
Í yfirlýsingu Reiknistofunnar segir að vinna við að yfirfara öll atriði er varða rekstur og þróun Jóakims muni halda áfram á næstunni og að upplýsa eigi sjóðfélaga um stöðu þeirrar vinnu „eftir því sem efni og aðstæður leyfa“, eins og það er orðað.
Yfirtaka Reiknistofunnar á Jóakim er líka ætlað að spara peninga. „Samhliða er stefnt að því að draga úr kostnaði við rekstur á Jóakim kerfinu til lengri tíma meðal annars með því að einfalda rekstrarfyrirkomulag,“ segir í yfirlýsingunni. Reiknistofan er í eigu tíu lífeyrissjóða en af þeim nota átta kerfið.
Athugasemdir