Eyjólfur Ármannsson, einn sex þingmanna Flokks fólksins, vill að tekið verði á málefnum Ríkisútvarpsins vegna umræðu um ásakanir gegn landsliðsmönnum í knattspyrnu.
Þingmaðurinn nýkjörni boðaði þessa afstöðu í ummælum undir færslu lögmannsins Sigurðar G. Guðjónssonar á Facebook, þar sem hann kvartar undan því að landsliðsþjálfarinn í knattspyrnu hafi ekki geta valið alla þá í landsliðið sem hann vildi, vegna þess að sex landsliðsmenn hefðu verið ásakaðir um brot. Í umkvörtun sinni segir Sigurður G. að menn „bogni og brotni“ og gefist upp „af ótta við úthrópun og aftöku í bergmálshelli samfélagsmiðla“. Eyjólfur tekur undir það.
„Þessi kúltúr var búinn til á RÚV. Því fyrr sem tekið verður málefnum stofnunarinnar því betra. Tjáningarfrelsið krefst þess,“ skrifaði Eyjólfur.
Eyjólfur var kjörinn á þing í nýafstöðnum alþingiskosningum í krafti kosningasigurs Flokks fólksins, sem hlaut óvænt 8,8% atkvæða á landsvísu. Hann hafði vakið athygli fyrir uppáhalds „fimmaurabrandarann“ sinn, í svari til Vísis.is í kosningaumfjöllun, sem snerist um að Íslendingur myndi kasta Pólverja úr Eiffel-turninum, vegna þess að nóg væri af Pólverjum hér á landi, eins og Frakki myndi kasta crossaint og Pólverji pylsu.
Sigurður G. Guðjónsson, sem verið hefur forseti dómstóla KSÍ, var nýverið gagnrýndur fyrir að birta trúnaðarskjöl um ásakanir konu gegn landsliðsmanni í knattspyrnu.
Athugasemdir