Bandaríkjamaðurinn Dwayne Lamore Fontana, sem spilaði með liði KFÍ á Ísafirði árið 2000 til 2001, er viðmælandi í nýrri heimildarmynd á streymisþjónustunni Netflix um veðmálasvindl í bandaríska háskólakörfuboltanum árið 1994, nánar tiltekið í liði Arizona State. Myndin um veðmálasvindlið í körfuboltaliði Arizona State er hluti af sex mynda seríu á Netflix sem heitir Bad Sport og fjallar um svindl og glæpi í íþróttaheiminum.
Dwayne lék háskólabolta með Arizona State á árunum 1990 til 1994, nokkrum árum áður en hann kom til Íslands og KFÍ þar sem hann varð stigakóngur deildarinnar með 33 stig að meðaltali í leik og tæp 14 fráköst.
Dæmdur í fangelsi fyrir svindlið
Myndin á Netflix fjallar um það hvernig stjarna Arizona State-liðsins, Steven „Hedake“ Smith, dróst inn í veðmálasvindl ásamt einum meðspilara sinna. Svindlið gekk út á það að Smith átti að sjá til þess að liðið myndi sigra eða tapa með ákveðið mörgum stigum. Fyrir þessa þjónustu sína fékk Smith greiddar upphæðir sem voru á bilinu 10 til 20 þúsund dollarar.
Maðurinn sem skipulagði svindlið náði hins vegar að svindla út nokkrar milljónir dollara með þessum hætti áður en hann tapaði öllu í einum leik þar sem Smith náði ekki að stýra leiknum þannig að hann næði að láta úrslitin verða eins og hann átti að gera. Í kjölfarið komst upp um svindlið enda hafði aðalskipuleggjandinn gengið á milli hótela í Las Vegas og veðjað á leikinn fyrir alls fimm milljónir dollara og vakti þetta grunsemdir í borginni.
Smith, og liðsfélagi hans sem vann með honum að hluta, og tveir af þeim sem skipulögðu svindlið og græddu mest á því voru dæmdir í fangelsi.
Í myndinni er rætt um það að Smith hafi í kjölfarið ekki verið valinn af neinu liði í NBA-deildinni árið 1994 en árlega fer fram svokallað NBA-draft þar sem bitist er um bestu leikmennina í bandaríska háskólaboltanum. Þar kemur fram að fyrir veðmálahneykslið hafi fastlega verið búist við því að Smith yrði valinn í NBA-deildina.
„Þetta hvíldi yfir mér eins og svart ský í mörg ár.“
Í stað NBA-deildarinnar fór Smith til Evrópu og spilaði með nokkrum liðum í ýmsum löndum. Smith átti nokkrum áður síðar, 1997, eftir að gera skammtímasamning við Dallas Mavericks í NBA-deildinni og spila nokkra leiki fyrir liðið þar sem hann var með 1,8 stig að meðaltali. Hann hélt svo aftur til Evrópu og spilaði fyrir lið í Frakklandi, Búlgaríu og Rússlandi áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2008.
Dwayne segist ekki hafa jafnað sig á svindlinu
Dwayne Fontana segir að hann hafi ekki ennþá jafnað sig til fulls á veðmálasvindlinu.
Á Facebook-síðu sinni segir hann um málið: „Ég hef fengið mikil viðbrögð og pælingar við þætti á Netflix sem ég var viðmælandi í sem snérist um stigasvindl sem háskólaliðið mitt í körfubolta tengdist. Ég hef eiginlega áttað mig á einu loksins: Ég er ennþá dálítið reiður yfir því. Ég hélt að þetta tilheyrði fortíðinni en ég hef ekki komist yfir þetta 100 prósent. Þegar ég horfði á þetta aftur minnti það á mig hversu oft ég hef þurft að svara spurningum um einhvern skít sem ég kom ekki nálægt og sem ég vissi ekkert um. Þetta hvíldi yfir mér eins og svart ský í mörg ár.“
Benedikt: „Ísafjarðar-Barkley“
Íþróttablaðamenn á Íslandi nefndu Dwayne Fontana reglulega sem einn af betri leikmönnum deildarinnar enda var tölfræði hans líka þannig þó svo KFÍ-liðið hafi kolfallið um deild þetta árið með aðeins þrjá sigra. Í einni af greinum sínum um leiki með KFÍ sagði þáverandi íþróttafréttamaður DV og sigursæll körfuboltaþjálfari, Benedikt Guðmundsson, að Dwayne Fontana þyrfti aðeins að bæta varnarleikinn: „Ef Fontana myndi bæta varnarleikinn þá væri hann einn besti erlendi leikmaður deildarinnar.“
„Ég skil ekki í mér að hafa ekki kallað hann Ísafjarðar-Barkley á sínum tíma þegar ég var að skrifa um leiki liðsins.“
Aðspurður segir Benedikt, sem í dag er þjálfari Njarðvíkur í úrvalsdeildinni, að hann hafi verið mjög hrifinn af Dwayne Fontana sem leikmanni.
Benedikt segir að hann hafi minnt sig á bandaríska köfuboltamanninn Charles Barkley sem er ein af helstu goðsögnum NBA-deildarinnar síðastliðna áratugi: „Ég var mjög hrifinn af Fontana sem leikmanni á sínum tíma og það kom mér alls ekki á óvart hversu góður hann var með KFÍ. Hann kom úr góðum háskóla í USA þar sem hann stóð sig þvílíkt vel og var stundum líkt við Charles Barkley. Hann var bæði líkamlega sterkur og ofboðslega fjölhæfur. Þrátt fyrir að vera ekki hár í loftinu miðað við körfuboltamann þá var hann frábær frákastari. Þá var hann óstöðvandi skorari með KFÍ því vopnabúrið var svo fjölbreytt eins og hjá Barkley. Hann var algjörlega sérsniðinn fyrir íslensku deildina. Ég skil ekki í mér að hafa ekki kallað hann Ísafjarðar Barkley á sínum tíma þegar ég var að skrifa um leiki liðsins.“
Umrædda mynd má sjá hér.
Fyrirvari um tengsl: Blaðamaður Stundarinnar spilaði körfubolta með Dwayne Lamore Fontana í KFÍ keppnistímabilið 2000-2001. Blaðamaður bjó auk þess fyrir ofan Dwayne í blokk sem kennd er við Múlaland á Ísafirði og keyrði með honum á körfuboltaæfingar og í heimaleiki í sjálfskiptum Saab, árgerð 1988.
Athugasemdir