Fyrri aukaspurning:
Hvað nefnist fuglinn hér að ofan?
***
Aðalspurningar:
1. Jósef Stalín var einræðisherra Sovétríkjanna í aldarfjórðung. En hvaða embættistitil bar hann lengst af?
2. Hvað hét maðurinn sem varð arftaki Stalíns sem valdamesti maður Sovétríkanna næstu árin eftir að einræðisherrann dó?
3. Hvað er Stradivarius?
4. Í hvaða ríki er borgin Bilbao?
5. Hvaða ár sagði Geir Haarde „Guð blessi Ísland“?
6. Baltasar Kormákur er nú í óða önn að koma upp gríðarmiklu kvikmyndaveri hér á landi. Hvar er það — nákvæmlega?
7. Hvað hét Menntaskólinn við Sund í Reykjavík áður en hann fluttist inn að Sundum?
8. Hvað þýðir orðið bábilja?
9. Hve gömul er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra? Hér má skeika einu ári.
10. Önnur spurning um forsætisráðherra: Tryggvi Þórhallsson, Ásgeir Ásgeirsson, Sigurður Kristinsson, Jónas Jónsson frá Hriflu, Hermann Jónasson, Eysteinn Jónsson, Ólafur Jóhannesson og Steingrímur Hermannsson voru formenn Framsóknarflokksins frá 1928 til 1994. Af þessum átta formönnum urðu aðeins þrír EKKI forsætisráðherrar. Hverjir voru þeir? Og já, þar sem sjálfsagt er að allir kunni góð skil á sögu Framsóknarflokksins, þá þarf að hafa ALLA ÞRJÁ rétta.
***
Seinni aukaspurning:
Myndin hér að neðan er af albúmi fyrstu plötu gríðarlega vinsællar íslenskrar hljómsveitar. Hvað heitir hljómsveitin?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Aðalritari Kommúnistaflokksins.
2. Krustjov.
3. Gömul og einstaklega velhljómandi fiðlutegund.
4. Spáni.
5. 2008.
6. Gufunesi.
7. Menntaskólinn við Tjörnina.
8. Vitleysa, bull — allt í þá áttina. Einnig hjátrú og hindurvitni.
9. Hún er 45 ára svo rétt er allt frá 44-46.
10. Sigurður, Jónas og Eysteinn urðu ekki forsætisráðherrar.
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni er fýll — einnig nefndur múkki.
Á neðri myndinni er plata Sigur Rósar.
Athugasemdir