Sigurður Þórðarson, eða Siggi hakkari eins og hann er betur þekktur, var dæmdur í síbrotagæslu í þarsíðustu viku. Sigurður situr nú á Litla hrauni. Þetta staðfestir Húnbogi J. Andersen, lögmaður Sigurður, í samtali við Stundina.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar var Sigurður handtekinn þann 23. september síðastliðinn, sama dag og hann kom frá Spáni. Hann var svo dæmdur í síbrotagæslu Héraðsdómi Reykjavíkur og sendur strax daginn eftir á Litla Hraun. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir að Sigurður yrði settur í síbrotagæslu.
Síbrotagæsla er ekki algengt úrræði og er aðeins beitt að sérstökum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt lögum er heimilt að úrskurða sakborning sem er til rannsóknar í síbrotagæslu ef ástæða þykir til að ætla að hann muni halda áfram að fremja lögbrot á meðan viðkomandi mál er til rannsóknar. Tekið er mið af persónulegum og félagslegum aðstæðum, sakarferil og hótunum um áframhaldandi brotastarfsemi. Ákvörðunin á að byggja á heildarmati málsatvika hverju sinni. Lögunum er fyrst og fremst beitt þegar um síafbrotamenn er að ræða.
Heimildir Stundarinnar herma að ástæðan fyrir því að Sigurður var dæmdur í síbrotagæslu sé fjöldi fjársvikamála og tilrauna til fjársvika sem eru til rannsóknar hjá lögreglu. Þá er til rannsóknar grunur um að hann hafi falsað undirskrift eigin lögmanns til að láta líta út fyrir að greitt hafi verið fé inn á reikninga fyrirækis sem Sigurður er sjálfur hluthafi í.
Sigurður hefur notast við fjölda fyrirtækja og félagasamtaka til að svíkja tugi milljóna króna af einstaklingum og fyrirtækjum á undanförnum árum. Þá hefur hann áður verið dæmdur fyrir fjársvik fyrir tugi milljóna.
Sveik fé af fjölda fyrirtækja
Meðal þeirra fyrirtækja sem lögreglan er að rannsaka í dag er ferðaþjónustufyrirtækið Northern Tours, en það var stofnað árið 2016 af Dan Sommer og Stefáni Laurence Stefánssyni. Reksturs félagsins var erfiður og skilaði aldrei hagnaði heldur var milljóna tap á rekstrinum á þeim fjórum árum sem það starfaði.
Ekki var mikil starfsemi í fyrirtækinu á þeim tíma sem það starfaði, en í byrjun september 2019 virðist starfsemin fara á fullt. Stundin hefur undir höndum gögn sem sýna að á eingöngu tveimur mánuðum, í september og október 2019, tókst félaginu að sækja vörur og þjónustu fyrir um 11 milljónir króna. Á þessum tíma var ríkisskattstjóri búinn að tilkynna eigendum fyrirtækisins að árangurslaust fjárnám hefði átt sér stað hjá því. Þá var Creditinfo einnig búið að tilkynna eigendum að þeir væru á leið á vanskilaskrá. Þrátt fyrir þessar tilkynningar fóru eigendur fyrirtækisins að stofna til skulda hjá fyrirtækjum úti um allan bæ. Leigðir voru lúxusbílar fyrir um tvær og hálfa milljón króna á tímabilinu og borðað á veitingastöðum fyrir um 300 þúsund krónur. Þá voru keyptar tölvur og símar fyrir um eina og hálfa milljón króna.
Margir tóku þátt í að sækja vörur
Í gögnum sem Stundin hefur undir höndum sést að margir tóku þátt í að panta vörur og þjónustu á reikning Northern Tours. Allt voru þetta aðilar tengdir Sigurði Þórðarsyni og Dan Sommer. Samkvæmt gögnunum voru sóttar þrjár bifreiðar til bílaleigunnar Hertz á einum degi. Dan Sommer sótti tvær og Helgi Snær Kristjánsson eina. Þá náðu Nertil Lila og Helgi Snær Kristjánsson í nokkra síma í Tölvutek fyrir um 300 þúsund krónur. Dan Sommer sótti leikjatölvu og annan tölvubúnað einnig fyrir um 300 þúsund krónur. Í samtali við Stundina segir Dan Sommer að hann hafi eingöngu verið að sækja þessar vörur fyrir Sigurð Inga en ekki sjálfan sig. „Ég var bara að sækja þetta fyrir Sigga, ekki fyrir mig. Hann hringdi í mig og bað mig um að sækja hitt og þetta fyrir sig. Hann var alltaf að vakna svo seint og svona, svo hann bað mig um að sækja hitt og þetta.“
Dan Sommer segir að Sigurður hafi keypt félagið af sér um sumarið 2019. Þegar hann var spurður hvað kaupverðið hafi verið og hvort Sigurður hafi í raun greitt fyrir félagið sagðist hann ekki vita það alveg. Samkvæmt tilkynningum til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra kemur fram að Sigurður Ingi hafi ekki verið skráður fyrir félaginu fyrr en í lok nóvember 2019, eftir að búið var að skuldsetja félagið talsvert á þessum tveim mánuðum. Stuttu seinna skráðu Dan Sommer og Stefán Laurence Stefánsson sig úr félaginu alfarið og sat því Sigurður uppi með skuldir félagsins.
„Hugmyndin með félögunum var að kreista út hverja einustu krónu og á endanum færi það í þrot“
Játning Sigurðar
Sigurður mætti í viðtal hjá Stundinni vegna málsins á sínum tíma. Í byrjun viðtalsins neitaði Sigurður Ingi ítrekað að svara spurningum blaðamanns um úttektir sem voru gerðar fyrir hönd Northern Tours ehf. Eftir nokkuð langt samtal játaði Sigurður Ingi loks allt.
„Hugmyndin með félögunum var að kreista út hverja einustu krónu og á endanum færi það í þrot af því að skatturinn myndi fara fram á gjaldþrotabeiðni og myndi þá leggja út peninginn fyrir því,“ segir Sigurður. „Er þetta ólöglegt? Nei, þetta er mjög siðlaust, ég er sammála því. Ég veit ekki til þess að einhver hafi verið dæmdur fyrir svona.“
Viðurkenndi hann að það hafi átt að ná sem mestu af fyrirtækjum með reikningsviðskiptum við Northern Tours. Aðspurður játaði Sigurður að hann vissi að hvorki hann né fyrirtækið myndi nokkurn tímann fara að greiða fyrir þær vörur sem hann tók út á vegum fyrirtækisins. Eins og kom fram hér að ofan þá náðu Sigurður og félagar hans að svíkja út vörur fyrir um 11 milljónir króna á eingöngu tveggja mánaða tímabili. Þá játaði Sigurður einnig fyrir blaðamanni að hann hafi ítrekað falsað undirskriftir á pappírum sem sendir voru inn til ríkisskattstjóra vegna skráningar félaga sinna og hækkun hlutafjár í félögum í hans eigu.
Er það ekki rétt að þú vissir að allar þessar vörur sem þú og vinir þínir voru að sækja myndu aldrei verða greiddar?
„Já, ég vissi það,“ svaraði Sigurður Ingi.
Þú falsaðir undirskriftir?
„Já,“ svaraði Sigurður Ingi.
„Ég veit ekki til þess að einhver hafi verið dæmdur fyrir svona.“
Kærður fyrir að svíkja út kjúkling
Eftir að Sigurður játaði við blaðamann að hafa svikið um 11 milljónir króna af ýmsum fyrirtækjum, í gegnum Northern Tours, spurði blaðamaður út í öll hin félögin sem Sigurður hefur átt og sett í þrot. Þegar hann var spurður hvort eini tilgangur þessara félaga hafi verið að svíkja fé út úr íslenskum fyrirtækjum játaði hann því. Meðal fyrirtækja sem Sigurður er að nota í dag til að svíkja út vörur er Fiix Innovation ehf. Með því félagi tókst honum meðal annars að svíkja út kjúkling frá Ísfugli fyrir um eina og hálfa milljón í þremur sendingum. Þetta staðfestir Jón Magnús Jónsson, framkvæmdastjóri og eigandi Ísfugls. Í samtali við Stundina segir Jón að fyrirtækið sé búið kæra málið og að það verði farið fyrir dóm á næstu vikum.
Sigurður Ingi er einnig skráður fyrir mörgum félagasamtökum. Sigurður Ingi hefur einnig notað þau til að svíkja út vörur. Þetta viðurkenndi Sigurður Ingi fyrir blaðamanni Stundarinnar. Eitt þeirra, Litboltafélag Íslands, var notað til að svíkja vörur úr heildsölunni Ásbjörn Ólafsson ehf. Um var að ræða sælgæti og bílahreinsivörur fyrir um 400 þúsund krónur. Í samtali við Stundina segir Guðmundur K. Björnsson, framkvæmdastjóri Ásbjarnar Ólafssonar ehf., að Sigurður Ingi hafi reynt að nota önnur félög í sinni eigu til að reyna að svíkja meira út úr fyrirtækinu, en það hafi verið stoppað af. Í samtali við Stundina viðurkennir Sigurður Ingi að hann hafi notað Litboltafélag Íslands til að svíkja út vörur frá þeim.
Athugasemdir