Í yfirlýsingu frá Magnúsi Davíð Norðdahl, oddvita Pírata í Norðvesturkjördæmi, segir að Magnús hafi ákveðið að kæra kosningarnar í kjördæminu til kjörbréfanefndar Alþingis og fara fram á svokallaða uppkosningu sem felur í sér að kosið yrði að nýju í kjördæminu. „Ljóst er að alvarlegir ágallar voru á talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi,“ segir í yfirlýsingunni.
„Kjörgögn voru ekki innsigluð eftir lok talningar snemma morguns 26. september heldur skilin eftir á Hótel Borgarnesi í sal hótelsins þegar
talningafólk fór heim. Varsla og eftirlit á þeim tíma, sem leið frá
lokum talningar og fram að endurtalningu, þegar starfsfólk mætti aftur
liggur ekki fyrir með fullnægjandi hætti. Hótelið var opið og þar mátti
sjá gesti þegar endurtalning fór fram. Hafi salnum verið læst var hann
ekki innsiglaður og þá liggur ekki fyrir hver eða hverjir höfðu lykla að
umræddum sal,“ segir í yfirlýsingunni.
Biðu ekki eftir umboðsmönnum
Enn fremur segir Magnús að endurtalning atkvæða hafi hafist án þess að umboðsmönnum á lista Pírata í kjördæminu hafi verið gert viðvart. „Formaður kjörstjórnar varð síðan ekki við kröfu umboðsmanna að bíða með endurtalningu þar til umboðsmenn kæmu á staðinn.“
Framangreind atriði eru að mati Magnúsar „háalvarleg“ og „til þess falin að draga úr trúverðugleika talningarinnar, sama hvort litið er til fyrri eða síðari talningarinnar, starfa yfirkjörstjórnar í heild og þar með trúverðugleika kosninganna sem fram fóru í kjördæminu“.
Endurtekning eina leiðin
Magnús segir ljóst að breyting varð á fjölda ógildra og auðra seðla milli fyrri og síðari talningar og sama eigi við um atkvæðafjölda einstakra framboða. „Svona vinnubrögð í lýðræðislegu ferli kosninga og talningar eru algjörlega óásættanleg.“
Að mati Magnúsar er eina leiðin til að leysa úr þeirri stöðu sem hefur komið upp að endurtaka kosningarnar í Norðvesturkjördæmi og „tryggja gagnsæi og að farið sé eftir lögum og reglum“. „Það er sanngjörn og réttmæt krafa okkar frambjóðenda og ekki síst kjósenda í kjördæminu,“ segir hann.
Karl Gauti kærir líka
Karl Gauti Hjaltason, sem var í framboði fyrir Miðflokkinn í Suðvesturkjördæmi, hefur einnig ákveðið að kæra endurtalningu atkvæða og meðferð þeirra í Norðvesturkjördæmi til lögreglu. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
„Ég er að vinna að kæru til lögreglu þar sem ég fer fram á að hún upplýsi atvik og atburðarás varðandi þessa endurtalningu þarna í Norðvestur,“ segir Karl Gauti í samtali við fréttastofu RÚV.
Athugasemdir