„Ísland er sannarlega land tækifæranna,“ skrifaði Katrín Jakobsdóttir í Morgunblaðið 14. ágúst. Fjórum dögum síðar birtist auglýsing í sama blaði undir titlinum: Land tækifæranna. Það var ekki Katrín eða flokkur hennar, Vinstri græn, heldur helsti valdaflokkur Íslands, sem þar til fyrir fjórum árum var meginandstæðingur þeirra. „Taktu þátt í að móta stefnu Sjálfstæðisflokksins,“ sagði í auglýsingunni.
Á fjórum árum hefur orðið slík sátt í íslenskum meginstraumsstjórnmálum að formenn helsta vinstri flokksins og helsta hægri flokksins kynna kosningastefnu sína með sama slagorðinu. Það hefur ekki orðið önnur eins samlegð andstæðra stjórnmálaafla á Íslandi síðan Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, kyssti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, á kinnina við stjórnarmyndun árið 2007, rúmlega einu og hálfu ári áður en hvorugt þeirra kannaðist við að bera ábyrgð á því hvernig efnahagslífið fór á hliðina.
Land gróðatækifæranna
Ísland er sannarlega land tækifæranna þessa dagana, eins og Katrín endurtók á flokksfundi Vinstri grænna.
Fasteignaverð hefur hækkað um 18 prósent frá því að Covid-faraldurinn hófst og ferðaþjónustan hrundi. Það þýðir að sá sem átti 100 milljóna króna fasteign þegar Covid-faraldurinn skall á landinu hefur grætt meira en milljón á mánuði í fasteignaverðhækkunum einum og sér. Og það í kreppu. Skatturinn af þessum gróða er minna en helmingur af hæsta tekjuskatti launþega.
Frá því fyrsta Covid-tilfellið greindist á Íslandi 28. febrúar 2020 hefur hlutabréfaverð, mælt í vísitölunni OMX Iceland 10, hækkað um 78 prósent. Hvergi í heiminum hækkuðu hlutabréf jafnmikið í verði og á Íslandi frá ágúst í fyrra til loka síðasta mánaðar, eða um 65 prósent á meðan næstmesta hækkunin var 42 prósent.
Skatturinn af þessum gróða, í miðri kreppu, er sömuleiðis tæplega helmingur af fullum skatti af launatekjum.
Og tækifærin eru að koma á færibandi. Þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra náði því fram í samráði við Katrínu Jakobsdóttur og Sigurð Inga Jóhannsson að selja 35% hlut í Íslandsbanka varð niðurstaðan að þeir sem höfðu ráð og rænu á að kaupa hækkuðu eign sína um 20% á einum degi. Í júní varð áttföld umframeftirspurn í hlutafjárútboði Play, allir vilja verða „players“ á markaðnum.
Óháð því hvort rétt sé að selja hlut ríkisins í banka er afleiðingin sú að væntingar um skyndigróða verða til. Stjórnmálamenn framleiða þannig menningu sem innifelur gróðatrú þegar ríkið selur hlut sem stækkar um fimmtung á einum degi.
Öll vandamál eru tækifæri, segir Sjálfstæðisflokkurinn í kosningastefnu sinni. „Svartsýnir sjá vandamál í öllum tækifærum en bjartsýnir sjá tækifæri í öllum vandamálum,“ segir Bjarni Benediktsson í Facebook-auglýsingu. „Við skulum vera þannig fólk.“
Tækifærismenning
Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins var á sínum tíma svo nálægur tækifærunum, starfandi í stjórnmálum og viðskiptum á sama tíma, að honum auðnaðist að forða peningum sínum – eins og fjölskylda hans – úr Glitni á sama tíma og málefni bankans voru til meðferðar hjá stjórnmálamönnum – meðal annars honum – meðan annað fólk velti fyrir sér hvort það ætti að trúa því sem stjórnmálamenn sögðu opinberlega, að hér væri engin kreppa, ekkert óvenjulegt á ferðinni. Bara að hitta mennina, í landi tækifæranna til að forða sér.
Nú er aftur verið að normalísera hagsmunaárekstur. Ritstjóri Markaðarins, eins helsta viðskiptafjölmiðils landsins, sem nú er að stofna nýjan áskriftarmiðil hjá fjölmiðlafyrirtækinu Sýn hf., reyndist vera eigandi margra milljóna króna hlutabréfa í banka sem hann skrifar reglulegar fréttir um. Það að sagt væri frá því kallaði fram mikla hneykslun hans og fleiri.
Árið 2008 átti þáverandi ritstjóri sama viðskiptafjölmiðils, Björn Ingi Hrafnsson – nú ritstjóri Viljans – hundruð milljóna króna hlutabréf í sama banka, nema hvað með kúluláni frá bankanum sem hann skrifaði um.
Nú er aftur orðið svo ómótstæðilega rétt að græða á markaðnum að hagsmunir hlutverksins og skyldunnar gagnvart almenningi verða víkjandi.
„Að vera ríkur er komið aftur í tísku,“ sagði ungur fjárfestir í viðtali við Stundina í sumar eftir að hafa séð vel heppnað útboð á Íslandsbanka.
Einn mælikvarði á bjartsýnina og tækifærismenninguna er að frá marsmánuði fram á sumar jókst yfirlýstur lestur á Viðskiptablaðinu um 62 prósent á meðan lestur á Fréttablaðinu og Morgunblaðinu féll um tæp 3 prósent í könnunum. Á sama tímabili hækkaði Kauphöllin um 20 prósent.
Sjálfsprottin orsök
En hver er ástæðan fyrir því að fasteignaverð hækkaði þegar það fækkaði um hátt í tvær milljónir ferðamanna á landinu, rekstrargrundvöllur airbnb-íbúða hrundi og kreppa reið yfir landið?
Fyrsta skýringin er stjórnvaldsaðgerð Seðlabankans að lækka vexti. Það að lækka vexti hafði tvöföld áhrif í þessa átt. Í fyrsta lagi hækkaði það fasteignaverð, en um leið gerði það ávöxtun af innlánsreikningum og skuldabréfum rýrari þannig að fjárfestar sáu tækifæri í því að færa peningana yfir í hlutabréfin.
Tvær stórar innlendar orsakir af mörgum fyrir góðæristryllingnum fram til 2008 voru einkavæðing bankanna, eignfærsla og veðsetning auðlindarinnar og svo áherslur stjórnmálamanna, meðal annars áhersla Framsóknarflokksins á að Ísland yrði „alþjóðleg fjármálamiðstöð“.
Hugsanlega rétt ákvörðun, að lækka vexti, hefur þannig bólumyndandi hliðaráhrif sem eru mögnuð upp með skilaboðum stjórnmálamanna í orði og á borði. Og næst á dagskrá hjá flokki Bjarna Benediktssonar er þekkt örvunarsprauta fyrir bóluhagkerfi: Að lækka skatta, en alls ekki hækka skatta á þau sem græða mest.
Tækifærisstefnan
Tækifærisstefna sem slík er ekki ný á Íslandi. Hún til dæmis bar sigurorð í kosningunum 2013 þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn náðu að núllgilda eitt helsta kosningamálið með því að boða þjóðaratkvæðagreiðslu um gjaldmiðilsmálið og Evrópusambandsaðild, en slíta svo einhliða viðræðunum með bréfi frá utanríkisráðherra vegna „pólitísks ómöguleika“.
Núna notar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tækifærið og lofar fólki að hann muni leggja inn á okkur pening á fullveldisdaginn og gefa okkur bankann, í stað þess einfaldlega að lækka skatta. Og þessi sami flokksleiðtogi sem hótaði þremur fjölmiðlum lögsókn fyrir að fjalla um dulinn hagsmunaárekstur hans, hefur lofað „tíu nýjum réttindum fyrir íslensku þjóðina“, eitt af þeim verandi tjáningarfrelsi, annað að hann leggi inn á okkur peninga á Fullveldisdaginn.
Við sáum tækifærisstefnuna þegar Viðreisn – sem var mynduð utan um stuðning hægri manna við Evrópusambandsaðild og markaðsverð fyrir fiskveiðiauðlindina – myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum án nokkurrar raunverulegrar tilraunar til að ná fram þessum lykilstefnumálum. Eins og sagði í stjórnarsáttmálanum, að ef þannig hitti á verði kosið um það: „Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins.“
Hann innihélt líka útvatnaða klausu um að ná fram markaðsverði fyrir fiskveiðiauðlindina, eða að pælt verði í því: „Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum.“
Eftir síðasta söludag
Þegar stjórnmálamenn selja okkur sig fyrir kosningar selja þeir um leið ákveðna lífssýn. Jákvæð sálfræði, eins og sú sem Sjálfstæðisflokkurinn selur, hefur góð áhrif á líðan. Þar til við blindumst af bjartsýni og rekum okkur á vegg. Reiði, eins og Sósíalistaflokkur Íslands vinnur með, hefur eflandi áhrif og hvetur fólk til aðgerða. Þar til við leiðum reiðina til valda.
Við kosningar þarf almenningur því að hafa í huga hvernig tækifærin og tækifærisstefnan hafa áhrif á endanlega niðurstöðu á söluvöruna.
„Við liggjum lengst frá Sjálfstæðisflokknum í okkar stefnu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í júlí 2016, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn útilokaði kerfisbreytingar. „Óhugsandi,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, í október 2016. Árið eftir voru haldnar kosningar. Því sem næst engar breytingar höfðu orðið á forystu flokksins.
Samlögun Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna er hins vegar heiðarleg og birtist vel í stefnunni. Kosningaslagorð Vinstri grænna er: „Það skiptir máli hver stjórnar“. Samkvæmt VG snúast stjórnmálin þannig frekar um verkstjórn en stefnu. Rétt eins er Framsóknarflokkurinn heiðarlegur í uppgjafartón, sem alltumvefjandi varavalkostur kjósenda, með slagorðinu: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“
Það getur verið styrkur að gera málamiðlanir, eins og Framsókn gerði alltaf best áður en Vinstri græn urðu samstarfsvæn. Mannkynssagan sýnir nefnilega að okkur stafar mest hætta af þeim sem eru bæði í senn valdsæknastir og tækifærissinnaðastir.
Svart-hvíta hetjan
Um leið og Katrín Jakobsdóttir hefur tekið sveigju hefur myndast svigrúm fyrir harðari vinstri stefnu.
Sósíalistaflokkur Íslands er eini flokkurinn sem hefur beinlínis skilgreint sérstaka andstæðinga sína. Hann segist gera engar málamiðlanir við auðvaldið. Facebook-hópur flokksins var stofnaður af fyrrverandi atvinnurekanda í fjölmiðlageiranum, Gunnari Smára Egilssyni, árið 2014, sem þá boðaði að Ísland ætti að ganga í Noreg. Áður en norskir auðmenn keyptu firðina fyrir laxeldi, leigufélagið Heimavelli og jafnvel Nóa Siríus. Eftir að nokkur þúsund höfðu gengið í Facebook-hópinn var nafni hans að lokum breytt í Sósíalistaflokkur Íslands.
„Það eru aðeins fáein misseri þangað til við munum breyta Valhöll í almenningssalerni,“ sagði Gunnar Smári á dögunum um fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem gagnrýndi hann. „Og þá munum við ráða Björn Bjarnason sem klósettvörð, ekki til að lítillækka hann heldur þvert á móti til að hækka hann í tign.“
Hann varð svo ósáttur við að heyra umræður á Rás 1 að hann vildi loka Ríkisútvarpinu. „Og það er kominn tími til að loka Ríkisútvarpinu. Hugmyndin með rekstri þess var að halda utan um íslenska menningu, fræða fólk og vera farvegur samfélagsumræðu; ekki að vera eintóna áróður fyrir braskara og þjófa og senditíkur þeirra ... Þegar alþýðan nær völdum er rétt að stofna nýjan miðil, getum kallað það Alþýðuútvarpið, og loka þessari hryggðarmynd sem ohf-að RÚV er. Hin ríku geta þá haldið úti sínu Útvarpi Valhöll fyrir eigin pening.“
Gunnar Smári vill „ryðja réttinn og byggja nýtt réttlátt réttarkerfi“, ef dómstólar dæma ekki rétt. Hann boðar því beitingu flokksvalds á jafnvel enn stærri skala en þegar Sjálfstæðisflokkurinn nýtti tækifærið við völd til þess að raða sér þóknanlegum og flokksreyndum fulltrúum yfir Ríkisútvarpið, Landsvirkjun og í dómstólana.
Traust sem kosningamál
Þau sem taka algeran umsnúning á kjarnamálunum sem þau seldu kjósendum eru eins og segir í orðabókinni um tækifærissinna: „Sá eða sú sem breytir um stefnu eftir því hvað hentar honum hverju sinni.“
Vangreindasta kosningamálið er trúverðugleiki, þar sem ýmist er erfitt að mæla framtíðarheiðarleika eða þykir jafnvel dónalegt að tala um fortíð fólksins sem býður sig fram. Hættan er að tækifærismennskan verði svo mikil að þeir taki eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni fjöldans.
Eitt mesta áherslumál Katrínar Jakobsdóttur var að auka traust á stjórnmálum. Traustið hefur fallið um allan heim. Í Bandaríkjunum treystu 77% stjórnvöldum árið 1964, en 17% í tíð Trumps 2019 og 24% síðasta vor.
Árið 2012 náði traust á Alþingi lágmarki þegar 10% landsmanna treystu þinginu. Síðar sama ár sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að tímabært væri að Jóhanna Sigurðardóttir „skilaði lyklunum“, og uppskar „heyr, heyr!“ á þinginu. Þetta var eftir að Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði endurreisnarskýrslu flokksins að háði og spotti, og nýr formaður taldi endurkomu flokksins án fullrar endurskoðunar vera tímabæra. Árið eftir komst hann til valda með Framsóknarflokknum, sem lofaði húsnæðiseigendum skuldalækkun.
Traust á Alþingi er núna 34%. Í ríkjum OECD, efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, treystu að meðaltali 45% stjórnvöldum sínum árið 2019. Ríkisstjórn Katrínar hefur hins vegar 57% stuðning.
Vandamálið er að flokkurinn hennar hefur hins vegar aðeins tæplega 12 prósenta fylgi samkvæmt sömu könnun, ólíkt 17 prósentum í kosningunum 2017. Það vandamál flokkast eflaust sem tækifæri hjá öðrum flokki.
Athugasemdir