,,Það er ekkert launungarmál hvaðan peningarnir koma eins og ýjað er að í umræddri frétt. Aztiq fjármagnar sig á virði undirliggjandi eigna sem hafa vaxið mikið á undanförnum árum,” segir í yfirlýsingu frá fjárfestingarfélagi Róberts Wessman, Aztiq, um frétt Stundarinnar um ársreikning félagsins Aztic Partners AB í Svíþjóð sem heldur utan um eignarhluti Róberts Wessman í Alvogen og Alvotech. Félagið greiddi út 11,3 milljarða króna arð til hluthafa félagsins sem er eignarhaldsfélag í Lúxemborg sem er í eigu sjóðs í skattaskjólinu Jersey. Aztiq segir hins vegar ekki í yfirlýsingunni hvaðan peningarnir sem mynda arðinn koma.
Þrátt fyrir að Stundin hafi einnig spurt Aqtiz að því ,,hvaðan” peningarnir sem greiddir eru í arð út úr sænska félaginu komi, og að Aztiq segi að það sé ekkert leyndarmál þar á bak við þá svarar félagið ekki spurningu blaðsins um þetta.
Alvogen og Alvotech er að hluta til í eigu þessa sænska félags Róberts Wessman. Þessi félög hafa aldrei skilað hagnaði og aldrei greitt út arð en samt hefur sænska félagið greitt út veglegan arð, rúma 11 milljarða króna í arð til fyrirtækis í eigu Róberts í Lúxemborg og þaðan á Jersey. Íslenskir fjárfestar eins og Tryggingamiðstöðin, Lífeyrissjóður Vestmanna, Sjóðsstýringarfyrirtækið Stefnir og Hvalur hf. hafa sett peninga inn í Alvotech.
Eitt af því sem kemur fram í svari upplýsingafulltrúa Aztiq, Láru Ómarsdóttur, við spurningum Stundarinnar er eða arðgreiðslan út úr sænska félaginu hafi í reynd ekki verið greidd út í peningum heldur hafi upphæðin verið ,,nettuð” á móti skuldum. ,,Engar peningalegar millifærslur áttu sér stað milli Aztiq Partners AB og Horizone því arðgreiðslan var nettuð á móti skuldum.”
,,Engar peningalegar millifærslur áttu sér stað milli Aztiq Partners AB og Horizone því arðgreiðslan var nettuð á móti skuldum."
Spurningar Stundarinnar og svör Láru Ómarsdóttur um ársreikning sænska félags Róberts Wessman fylgja hér á eftir sem og yfirlýsing Aztiq þar á eftir:
Spurning Stundarinnar: Í ársreikningi félagsins er greint frá arðgreiðslum í fyrra til hluthafa sem nema rúmum 11 milljörðum króna. Hvaðan koma þeir peningar sem þarna eru greiddir út í arð og á hvaða forsendum á þessi arðgreiðsla sér stað þar sem félögin sem sænska félagið á, Alvogen og Alvotech, hafa ekki skilað hagnaði og greitt út arð?
Svar Aztiq: Alvogen og Alvotech eru aðeins hluti af eignarsafni Aztiq Partners AB. Félagið er endurskoðað félag og vinnur samkvæmt endurskoðun og varúðarsjónarmiðum. Félagið á hlut í mörgum félögum sem ganga misvel. Þó er eigið fé þess og arðgreiðslurými jákvætt sem þýðir að í heildina á litið hefur rekstur þess gegnið vel frá stofnun þess árið 2009. Virðisbreytingar í samstæðunni geta bæði verið jákvæðar og neikvæðar.
Hagnaður og rekstrur félagsins byggir á fjölmörgum eignum eins og fram kemur í yfirlýsingu Aztiq. Stjórn félagsins fylgir eftir fjárfestinga- og arðgreiðslustefnu og á þeim forsendum er tekin ákvörðun um arðgreiðslur. Engar peningalegar millifærslur áttu sér stað milli Aztiq Partners AB og Horizone því arðgreiðslan var nettuð á móti skuldum.
Spurning Stundarinnar: Í ársreikningi félagsins fyrir 2019 er greint frá niðurfærslum á viðskiptakröfum upp á tæplega 432 m SEK, Vegna þessa tapaði ffélagið 370 milljónum SEK þetta ár. Hvaða afskriftir á viðskiptakröfum voru þetta? Hvaða aðili eða aðilar skulduðu félaginu þessa fjármuni og af hverju voru þeir afskrifaðir?
Svar Aztiq: Ekki er hægt að gefa upp nákvæmar fjárhagsupplýsingar eins og hér er óskað eftir vegna persónuverndarsjónarmiða og viðskiptahagsmuna.
Spurning Stundarinnar. Matthías Johannesen fékk greiddan vel á annan milljarð króna frá þessu sænska félagi á sínum tíma í gegnum íslenska milliliði. Hvernig var sú greiðsla bókfærð í reikningi sænska félagsins og hvaðan komu þeir peningar?
Svar Aztiq: Greiðslan til Matthíasar er frá Aztiq Pharma Partners ehf. þ.e.a.s því félagi sem tengdist dómsmáli hans. Ársreikningar þess félags staðfesta það.
Þá vil ég ítreka að fullnaðargreiðsla vegna eðlilegrar greiðsludreifingar á gatnagerðargjöldum barst Reykjavíkurborg fyrir ári eða þann 21. september 2020.
Að örðu leyti vísa ég í yfirlýsingu Aztiq frá því í hádeginu í dag.
Yfirlýsing frá Aztiq vegna fréttaflutnings Stundarinnar
,,Vegna fréttar Stundarinnar þann 26. ágúst 2021 sem ber yfirskriftina „Alvogenfélag Róberts greiddi 11,3 milljarða króna í arð til félag í eigu sjóðs í skattaskjólunu Jersey“ vill Aztiq koma eftirfarandi á framfæri.
Það er ekkert launungarmál hvaðan peningarnir koma eins og ýjað er að í umræddri frétt. Aztiq fjármagnar sig á virði undirliggjandi eigna sem hafa vaxið mikið á undanförnum árum. Þannig hefur til að mynda virði Alvogen miðað við síðustu viðskipti aukist mikið sem og virði Alvotech eins og fram hefur komið í fréttum. Virði annarra eigna í eigu Aztiq hafa einnig aukist aðundanförnu. Fjármögnun Aztiq er fyrir neðan Aztiq Partners og sést því ekki í ársreikningi Aztiq Partners AB.
Astiq Partners AB er í raun kostnaðar- og greiðslumiðlun fyrir Aztiq samstæðuna. Þannig lánar Aztiq Partners AB félögunum eftir þörfum og breytir síðan skuldum í hlutabréf eða afskrifar þær. Fjármagn Aztiq félaganna kemur því í gegnum fjármögnun Aztiq Partners AB sem byggir á undirliggjandi eignum félagsins eins og fyrr segir en að auki er félagið með leigutekjur í fasteignafélögum.
Alvotech eignfærir ekkert af þróunarkostnaði heldur gjaldfærir allt og því er þróunarkosntaður á tímanum fram að þeim tíma er félagið byrjar að selja lyf sem verið er að þróa, reikningshaldslega tap en ekki eignamyndun, sem er algerlega í samræmi við áætlanir félagsins. Margir af helstu sérfræðingum í lyfjageiranum í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum hafa fjárfest í félaginu vegna þess að þeir hafa gert áreiðanleikakannanir á félaginu og trúa á stefnu og aðferðafræði félagsins enda hafa allar áætlanir félagsins staðist og fjárfestar skilja uppbyggingu félagsins.
Skuldir við Reykjavíkurborg að fullu greiddar Þá skal taka fram að Fasteignafélagið Sæmundur, sem er í eigu Aztiq, fjármagnaði og byggði
höfuðstöðvar Alvogen og Alvotech í Vatnsmýri. Félagið var stofnað í þeim tilgangi til að halda utan um framkvæmdina og fjármögnun á byggingunni í Vatnsmýrinni. Það var alltaf skýrt í öllum samningum við borgina og við Háskólann. Í upphafi reyndist fremur erfitt að fjármagna bygginguna enda var mikið frost á markaði á þeim tíma og litlir möguleikar á lánum til byggingaframkvæmda og ekki fyrir hendi áhugi fasteignafélaga og sjóða að taka þátt í verkefninu. Eigendur Aztiq þurftu því að fjármagna eigið fé í framkvæmdina sjálfir á móti byggingarfjármögnun frá Arion banka, enda er byggingin í raun sprota uppbygging sem á að hýsa framleiðslu nýrra líftæknilyfja.
Félagið hefur að fullu greitt skuldir sínar við Reykjavíkurborg. Það sést ef veðbandayfirlit Sæmundar er skoðað. Skuldirnar voru til komnar vegna greiðsludreifingar á gatnagerðargjöldum vegna uppbyggingar á lóðinni sem Sæmundur leigir af Vísindagörðum Háskóla Íslands."
Athugasemdir