Fyrir nokkrum árum var ég að kenna nemendum á miðstigi og í einum íslenskutímanum komu upp pælingar um nöfn. Íslenskutíminn hafði verið frekar heimspekilegur fram að þessu því á undan höfðum við prófað okkur áfram í að fallbeygja guð í öllum kynjum, í eintölu og fleirtölu, með og án greinis. Við sem sagt veltum fyrir okkur þeirri staðreynd að ekki mætti heita Guð og í framhaldinu fórum við að spá í önnur nöfn sem fólk mætti ekki nota og af hverju. Af hverju má heita Guðrún og Guðmundur en ekki Guð? Hvers vegna má fólk heita Úlfur og Hind en ekki Hundur og Kind? Hvers vegna Svala og Valur en ekki Grágæs og Himbrimi? Hver ræður þessu og hvernig virkar þetta? Svo ræddum við um kyn nafna og spáðum í hvers vegna Þórunn og Auðunn væru ekki í sama kyni og hvers vegna nafnið Auður væri kvenkyns þegar nafnorðið auður er karlkyns. Og hvers vegna má ekki heita nafni í hvorugkyni? Ég sagði þeim að á Íslandi væru lög um nöfn og því væri starfandi mannanafnanefnd og fólkið þar væri í vinnu við ákveða hvaða nöfn mætti bera og hvaða nöfn mætti ekki bera. Eins við má búast hjá klárum krökkum var mikið um pælingar og spurningar og áhuginn á málefninu minnkaði ekki þegar leið á kennslustundina. Mér varð á að svara einni spurningunni eitthvað á þá leið að mér finndist fjölbreytni í nafnavali mjög skemmtileg, ég hefði oft velt fyrir mér að fá mér millinafn og ef ekki væri fyrir þessar furðulegu nafnareglur gæti ég vel hugsað mér að heita Elín Sófasett. Bjallan hringdi og tíminn var búinn og við drifum okkur í frímó og mér skilst að eitthvað hafi þetta verið rætt áfram af nemendum mínum þar.
Fátt finnst mér skemmtilegra en að lesa sögur og ritgerðir og um það bil viku eftir að nafnapælingarnar fóru fram áttu nemendur mínir að skrifa lygasögu um eitthvað sem ég man ekki. Þegar sögurnar höfðu skilað sér og nemendur höfðu yfirgefið svæðið settist ég niður með kaffibolla og byrjaði að lesa. Þær voru auðvitað stórskemmtilegar en ein var aðeins meira sérstök, svona í ljósi sögunnar. Hún hófst á þessum orðum: „Einu sinni var prinsessa sem hét Sófasett.“ Já sagan var um hana Sófasett prinsessu og ævintýrin sem hún lenti í með vinum sínum og dýrunum í skóginum. Ég las söguna og svo las ég hana aftur og Sófasett bar nafið sitt vel og ekkert var eðlilegra en prinsessa sem hét Sófasett. Síðan þá hefur mér bara þótt vænna og vænna um þetta nafn og ég er ekki viss um að ég myndi hvá ef nemandi með þessu nafni myndi mæta á svæðið.
Heitirðu bara Elín?
En af mér er það að segja að ég ólst upp við nafnið Elín Finnbogadóttir og fannst það alveg ágætt svona framan af. Þegar ég kynnti mig var fólk gjarnt á að spyrja: Heitirðu Bara Elín? Og ég var því miður bara með eitt nafn og frekar snubbótt í þokkabót og það var þannig. Síðan þegar ég var orðin fimmtíu plús gömul þá ákvað ég að nú væri eðlilegt að hætta að nota föðurnafnið og taka upp móðurnafnið, í nafni jafnréttis og þess vegna hætti ég að vera Finnbogadóttir og varð Eddudóttir. Ég velti fyrir mér á þeim tíma hvort ég ætti að finna eitthvað fallegt millinafn en hafði enga löngun í neitt sérstakt svo ég lét þetta duga. Svo fyrir rúmum tveimur árum sá ég frétt og viðtal við Kristbjörgu Konu sem var búin að sækja tvisvar um að heita Kona en fengið höfnun frá mannanafnanefnd í bæði skiptin. Ég fékk hugljómun, Kona, vá hvað það er fallegt nafn, hugsaði ég og femíníska hjartað mitt tók gleðikipp. Þetta var nafnið sem mig langaði að hafa sem millinafn. Því meira sem ég hugsaði um það því meira langaði mig að heita það. Ég sótti um og umsókninni var vísað til mannanafnanefndar, sem hafnaði mér á þeim forsendum að það væri ekki hægt því orðið Kona vísaði í ákveðið kyn á ákveðnum aldri og væri niðrandi. Að vísu væru nöfnin Karl, Drengur, Sveinn og Hrund líka vísun í ákveðið kyn á ákveðnum aldri en það væri hefð fyrir þeim og þau væru ekki niðrandi. Ég virtist eiga í höggi við hefðarfólk með fordóma fyrir konum. Ég er nú ekkert sérlega klár kona og því er kannski ekkert skrítið þótt ég hafi ekki skilið þessa röksemdarfærslu en ég sá samt ekki betur en að mannanafnanefnd væri að brjóta lög þegar ég las Meginreglur um mannanöfn. Ég meina, einu sinni var ekki hefð fyrir að heita Karl, Sveinn, Drengur og Karlynja en það má samt. Svo var nafnið sett á manneskju og þá var komin hefð. Eins er með nafnið Kona. Það er bara ný hefð, ekkert flóknara við það en hin nöfnin en nei. Ekki að ræða það, sagði mannanafnanefnd í fimm A4 blaðsíðum og ég sendi kvörtun til Umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að mannanafnanefnd bæri að samþykkja nafnið því annars væri hún að brjóta lög og ég sótti um aftur og tvennt af þrennu mannanafnanefndarfólki ákvað að hætta að brjóta lög, Sigurður Konráðsson skilaði séráliti og sat við sinn keip en hann virðist vera sérlega fordómafullur og forpokaður maður ef marka má skoðanir hans á því sem hann kallar „sérviskunöfn“. En hvað um það, ég er ánægð og stolt af mínu nafni og finnst hvorki niðrandi að vera kona eða heita Kona hvað sem öllum Sigurðum heimsins finnst um það.
En aftur af nöfnum og nafnahefðum. Ég man þegar Jón Gnarr fékk ekki að heita Gnarr, ég man þegar foreldrar máttu ekki skíra dóttur sína Villimey og ég man eftir veseninu sem Blær stóð í vegna þess að hún mátti ekki heita Blær og í hvert sinn sem eitthvað svona mál hefur komið upp þá hefur mér alltaf þótt þessi mannanafnanefnd vera hópur af fordómafullu og miðaldahugsandi fólki sem hefur vald sem það á ekki að hafa. Fyrir tveimur árum voru lög um kynrænt sjálfræði samþykkt á Alþingi á sem fólu í sér breytingar á lögum um mannanöfn. Nú mega stúlkur, strákar og stálp; konur, karlar og kvár fá nöfn af öllum kynjum án þess að það eigi að vera eitthvað svaka vandamál. Hugsið ykkur, ég hefði ekki þurft að standa í þessu veseni hefði ég bara viljað heita Karl, Drengur eða Sveinn.
Þið munið Eilífan Frið
Þegar ég var að alast upp var það mjög framandi ef einhver hafði búið í útlöndum eða átti útlenskt foreldri. Ef fólk flutti til Íslands þurfti það að hætta að heita Charles og heita Karl. Það mátti ekki heita nafninu sínu ef það ætlaði að búa hér heldur þurfti það að taka upp alíslenskt nafn. Þú getur ekki heitið Gemma þú verður að heita Guðrún eða Guðfinna eða eitthvað svoleiðis, var sagt. Ég man eftir manni að nafni Jorge Ricardo Cabrera Hidalgo sem flutti til Íslands og þurfti að hlíta þessum fáránlegu mannanafnalögum sem eru jú ekkert annað en mannréttindabrot. Hann heitir í dag Eilífur Friður Edgarsson. Ég man frekar langt aftur, ekki kannski aftur í miðaldir en næstum því. Ég er allavega nógu gömul til að vera hætt að fá harðsperrur í augabrúnirnar þegar ég set upp hissasvip, svo oft hef ég orðið hissa um ævina á skrítnum og fasískum lagasetningum eins og nafnalögum. Vissulega hefur þetta lagast því við erum ekki lengur öll hvít og alíslensk aftur í miðaldir. Nei nú búum við í fjölmenningarsamfélagi og erum allskonar. Þess vegna þurfa nöfn að vera allskonar. Eins og við. Þau þurfa að endurspegla okkur og taka mið af okkur. Mér finnst stundum eins og afþvíbara reglur og lög séu settog svo þurfi embættisfólk til að laga fólk að þeim eftir sínu höfði, sem þarf ekkert að vera fordómalaust. Mér finnst það rangt. Mig langar mikið frekar að sjá lög og reglur búnar til í kringum okkur en að láta búa okkur til í kringum lög og reglur. Nöfn ættu að vera allskonar eins og við. Nöfn eru bara nöfn og hver manneskja ætti að hafa rétt til að halda nafni sínu eða finna nafn sem henni líður vel með án þess að upplifa ríkisrekinn fordómafasisma á eigin skinni. Ég get ekki ímyndað mér að foreldrar vilji skíra börn sín niðrandi nöfnum enda veit ég ekki til þess að hafa séð svoleiðis umsóknir á úrskurðarsíðum mannanafnanefndar. Enginn hefur óskað eftir nöfnum eins og Ofbeldi, Morðingi, Þjófur, Stríð, Fáviti eða Nauðgun svo dæmi sé tekið. Aftur á móti hafa komið óskir um nöfnin Gull, Gunnarsson, Ólasteina og Guðrúnhalla sem öllum var hafnað af einhverjum undarlegum ástæðum.
Hættum forræðishyggju
Þótt mannanafnanefnd sé enn við lýði og starfi eins og hún sé í allt öðru tímatali en við hin sem búum hér í fjölmenningarsamfélaginu má hún gjarnan bara taka sig í pínulitla naflaskoðun. Hún þarf að velta fyrir sér hvað það sé nákvæmlega sem er niðrandi. Er það í alvöru niðrandi að heita Kona? Er niðrandi að heita Sófasett? Nei það er það ekki í neinum skilningi. Sama hvað ég velti því mikið fyrir mér. Það er ekkert niðrandi við nöfnin okkar og ef þetta er viðleitni nefndarinnar við að gæta þess að barn lendi ekki í ofbeldi í skóla þá er fullt af nöfnum sem eru í notkun nú þegar, notuð til ofbeldisverka og það er bara þannig að ofbeldisfólk sem leggur annað fólk í einelti finnur þá bara eitthvað annað, af nógu er að taka ef viljinn er fyrir hendi og ofbeldi fær að þrífast. Hættum þessari fáránlegu forræðishyggju og einföldum nafnalögin. Ef landsfólk vill endilega hafa nafnanefnd þá óska ég eftir að fá nefndarfólk sem er laust við fordóma, fasisma og rasisma, ég kalla eftir að nefndin skipti um nafn og vísi til fólks af öllum kynjum, ekki bara manna og viðhafi fjölmenningu og víðsýni því við sem í þessu samfélagi búum erum öll allskonar og búum í því núna, ekki einu sinni. Og það má.
Athugasemdir