Meðlimur í Hundasamfélaginu á Facebook kallaði til lögreglu í Breiðholtinu seinni partinn í dag eftir að hafa orðið vitni að því sem hann og fleiri meðlimir hópsins töldu vera dýraníð.
Vitnið kvaðst hafa séð hund bundinn í taumi fyrir utan íþróttasvæði ÍR, með bundið fyrir augun. Eftir að hundurinn hafi verið „að gelta eitthvað mjög lítið og þá kom kona út og batt trýnið á honum fast“, útskýrði vitnið. „Þetta er ekkert annað en dýraníð,“ bætti hann við.
Mikil reiði hefur brotist út í ummælum meðlima Hundasamfélagsins í garð eiganda hundsins.
„Hvað er að frétta af hundinum? Ég er við það að fara keyra þangað,“ sagði einn meðlimur.
Maðurinn sem setti inn myndirnar og greindi frá tilfellinu sagði að lokum frá því að lögreglan væri að ræða við konuna sem á hundinn. „Lögreglan kom á svæðið og henni tjáð hvernig farið var með hundin ásamt fékk hún að sjá þær myndir sem teknar voru,“ sagði hann.
Samkvæmt íslenskum lögum er í höndum Matvælastofnunar að bregðast við illri meðferð á dýrum. Almennt er þó eigendum eða umsjónarmönnum dýra gefinn frestur til úrbóta. „Sé um minni háttar brot á lögum eða reglugerðum að ræða, er eigendum eða umsjónarmönnum gefinn frestur til að bæta úr innan tiltekins tíma. Ef fyrirmælum um úrbætur er ekki sinnt er Matvælastofnun heimilt að beita þvingunaraðgerðum eða svipta umráðamann dýra vörslu þeirra,“ segir á vef stofnunarinnar.
Konan hefur því verið hvött til þess að binda hund sinn sömu hnútum og samferðamenn hennar. Ólíklegt er þó að hún verði svipt umsjón með honum.
Hér er hægt að tilkynna um dýraníð á vef Matvælastofnunar.
Athugasemdir