Landsmönnum sem standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga eða hafa ótilgreinda skráningu hefur fjölgað um tæplega 3.500 frá 1. desember síðastliðnum. Tæpur fjórðungur landsmanna er ýmist skráður utan trú- og lífsskoðunarfélaga eða með ótilgreinda skráningu.
Sem fyrr er langstærstur hluti landsmanna skráður í þjóðkirkjuna, tæplega tveir þriðju hlutar landsmanna, alls 229.686 manns. Lítilsháttar fækkun hefur orðið frá 1. desember, um 31 meðlim. Frá 1. desember árið 2019 hefur hins vegar fækkað um rétt tæplega 1.500 manns í þjóðkirkjunni.
Tæplega 57 þúsund manns eru með ótilgreinda skráningu og hefur fjölgað um ríflega 2.300 manns frá 1. desember síðastliðnum. Frá 1. desember 2019 hefur fjölgað um ríflega 5.500 manns í þeim hópi.
Tæplega 29 þúsund manns eru skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga og hefur þeim fjölgað um ríflega eitt þúsund frá 1. desember síðastliðnum og um tæplega þrjú þúsund frá árinu 2019.
Helstu breytingar aðrar á trúfélagaskráningu eru þær að áfram fækkar þeim sem skráðir eru í zuism trúfélagið. Frá því á síðasta ári hefur þeim fækkað um 185 og eru nú 731 skráðir í félagið. Í desember 2019 voru 1.255 manns skráðir í félagið. Forsvarsmenn félagsins lýstu því yfir árið 2015 að þeir hyggðust endurgreiða sóknargjöld þeirra sem skráðir væru í félagið og á stuttum tíma skráðu yfir þrjú þúsund manns sig í félagið. Deilur stóðu um stjórn félagsins lengi vel og engin starfsemi hefur verið í því um margra missera skeið, ef starfsemi var þá nokkurn tíma til staðar.
Mest fjölgun hefur orðið í ásatrúarfélaginu á tímabilinu, um 257 meðlimi og eru nú ríflega 5.300 manns skráðir í félagið. Meðlimum í lífsskoðunarfélaginu Siðmennt hefur á sama tíma fjölgað um 228 og eru þeir nú tæplega 4.300.
Athugasemdir