Það að þurfa að staðfesta hvort þeir einstaklingar sem leita á bráðamóttöku Landspítalans séu með Covid smit teppir verulega flæði og starfsemi bráðamóttökunnar. Starfsemin er nú þegar þung vegna manneklu. Þeir sjúklingar sem þurfa á gjörgæsluplássi að halda vegna veikinda í tengslum við Covid sýkingu þurfa því að bíða á „pakkaðri“ bráðamóttöku þar til þeir komast á gjörgæslu.
Þetta segir Eggert Eyjólfsson, bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítala. Bráðamóttakan tekur á móti töluverðum fjölda Covid sjúklinga. Að mati Eggerts mun þeim fara fjölgandi. „Það er ekki á það bætandi miðað við ástandið eins og það er núna á sjúkrahúsinu.“ Bráðamóttökuna segir hann fulla og ef eitthvað bregður út af séu starfsmenn í „miklum vandræðum“.
Staðfesting á smitum tímafrek
Að sögn Eggerts tekur mikinn tíma að staðfesta hvort um Covid smit sé að ræða hjá þeim sjúklingum sem leita þangað með einkenni. „Þetta eru sjúklingar sem leita á bráðadeild og þurfa að leggjast inn sem eru með öndunarfæraeinkenni, hálsbólgu, hósta eða niðurgang og kviðverki. Það þarf að staðfesta að þessir sjúklingar séu ekki með Covid-19 og sú staðfesting tekur mikinn tíma og teppir flæði á bráðamóttökunni.“
Þeir sjúklingar þurfi einangrunarpláss ofan á þá sjúklinga sem þau þurfa vegna annarra umgangspesta. „Það eru þessir sjúklingar sem eru grunaðir um Covid en ekki staðfestir sem reynast okkur erfiðastir,“ segir hann. Eitthvað er því um það að sjúklingar sem leita á bráðamóttöku greinist smitaðir af Covid þar. „Svo það er allur gangur á því hvort smit séu þekkt þegar þau koma til okkar.“
Sjúklingar með staðfest Covid smit eiga að hans sögn greiða leið inn á spítalann, þrátt fyrir skort á legurýmum. „Enn sem komið er en það á líklegast eftir að breytast nema þeir opni aðra Covid deild en það þýðir að þau legupláss lokast fyrir öðrum sjúklingum“.
„Sú staða getur komið upp að sjúklingur er fastur á pakkaðri bráðamóttöku á meðan beðið er eftir því að hann komist upp á gjörgæslu“
Undanfarna daga hafa einn til tveir sjúklingar greinst með Covid-19 á hverri vakt sem Eggert hefur unnið á bráðamóttökunni. Í síðustu viku upplifði hann til að mynda vakt þar sem þurfti að leggja þrjá Covid smitaða sjúklinga inn á spítalann af bráðamóttöku, þar af tvo beint á gjörgæslu. Síðast þegar Eggert var á vakt á bráðamóttöku biðu fimmtán manns eftir innlögn á spítalann.
Gjörgæslu sjúklingar fastir á „pakkaðri“ bráðamóttöku
Bráðamóttakan sinnir að sögn Eggerts allra veikustu Covid sjúklingunum en þeir sem dvelja á Covid göngudeildinni og veikjast mikið eða hratt þurfa að fara í gegnum bráðamóttökuna áður en þeir eru lagðir inn á gjörgæslu. Það sama á við um Covid sjúklinga sem eru veikir heima og veikindi þeirra versna. Í sumum tilfellum þurfi þeir að koma fyrst við á bráðamóttöku svo hægt sé að bæta ástand þeirra áður en þeir leggjast svo inn á göngudeildina eða gjörgæslu.
Covid smitaður sjúklingur getur þurft að bíða á bráðamóttökunni í allt að klukkutíma áður en hann fær pláss á gjörgæslu. „Sú staða getur komið upp að sjúklingur er fastur á pakkaðri bráðamóttöku á meðan beðið er eftir því að hann komist upp á gjörgæslu,“ segir hann.
Aðeins tíu gjörgæslu rými eru laus á Landspítalanum vegna manneklu. Þegar blaðamaður ræddi við Eggert voru tólf sjúklingar í þeim tíu plássum og því mikið álag á gjörgæslunni. „Þeir sjúklingar sem þurfa á gjörgæslu að halda eru mjög veikir. Það veikir að þeir geta hreinlega dáið ef þeir komast ekki á gjörgæsluna á ásættanlegum tíma eða innan við klukkutíma í flestum tilfellum,“ segir hann og heldur áfram:
„Bráðamóttakan getur veitt gjörgæslumeðferð en bara í stuttan tíma. Á gjörgæslu er miðað við að einn hjúkrunarfræðingur sinni hverjum sjúkling. Á bráðamóttöku væri eðlilegt að hver hjúkrunarfræðingur sinnti þremur til fjórum sjúklingum en á Landspítalanum eru oft sex til átta sjúklingar á hvern hjúkrunarfræðing. Svo ef sá hjúkrunarfræðingur er fastur með gjörgæslusjúkling þá eru kannski sex eða sjö sjúklingar sem fá ekki þjónustu á sama tíma.“
Stjórnmálamenn skortir innsýn og skilning
Eggert segir stjórnmálamenn á Íslandi skorta „alla innsýn og skilning á því að tölur segi ekki allt“. „Framleiðni heilbrigðiskerfisins ætti að meta í auknum lífsgæðum og lifuðum árum en ekki í spöruðum krónum eða fjölda sjúklinga séðum af hverjum lækni eða hjúkrunarfræðingi per klukkutíma“.
Þetta segir hann eiga við um ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, sem sagði í viðtali við mbl.is að afköst í heilbrigðiskerfinu hafi ekki þróast í takt við aukin fjárframlög. „Það er ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að starfa í eða þurfa að leita þjónustu í einu ódýrasta heilbrigðiskerfi evrópu, eða þar sem meiri áhersla er á framleiðni en fagleg vinnubrögð,“ segir Eggert.
Athugasemdir