Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur tekið við sem ritstjóri Fréttablaðsins af Jóni Þórissyni. Sigmundur verður aðalritstjóri Torgs sem rekur fjölmiðlana Fréttablaðið, Markaðinn, DV og Hringbraut, hvar Sigmundur hefur verið sjónvarpsstjóri til þessa.
Fréttablaðið sjálft greinir svo frá. Sigmundur er þrautreyndur fjölmiðlamaður en hann hóf störf á síðdegisblaðinu Vísi fyrir fjórum áratugum. Hann vann einnig á Helgarpóstinum, hjá Ríkisútvarpinu og varð fréttaþulur á Stöð 2 strax við stofnun árið 1986. Sigmundur ritstýrði DV í upphafi aldarinnar og varð fréttaritstjóri Fréttablaðsins 2004 og síðar fréttastjóri Stöðvar 2 árið 2005. Sigmundur sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2009 til 2014. Hann hefur sem fyrr segir unnið á sjónvarpsstöðinni Hringbraut síðustu ár.
Jón Þórisson tók við sem ritstjóri Fréttablaðsins haustið 2009 en mun nú snúa sér að öðrum verkefnum. Hann hefur setið sem varamaður í stjórn Torgs og mun sinna því verkefni áfram.
Athugasemdir