Tvær lykilbreytingar hafa orðið á forsendum í Covid-19 faraldrinum. Bóluefnið myndar ekki hjarðónæmi og Covid er ekki lengur jafnhættulegur sjúkdómur og áður. Þetta þýðir annars vegar að við höfum tapað varanlega þeirri forsendu að viðbragðsaðgerðir stjórnvalda séu tímabundnar og hins vegar að Covid-smit í dag er ekki það sama og Covid-smit í fyrra.
Enn á eftir að komast betri reynsla á þessa nýju veiki, en fram hefur komið að 97% hafi verið einkennalausir. Við erum búin að missa tökin á smitrakningu, enda varla annað hægt þegar fólk finnur oftast ekki einkenni umfram venjulegt kvef eða hita. Það breytist eflaust eftir aldurssamsetningu og fleiru. Til skamms tíma eru vísbendingar um að 1% finni til alvarlegra veikinda, helst óbólusettir, en bólusettir í enn minna mæli. Veikindin eru afstæð við tegund bólusetningar, með tæpa 90% vörn af Pfizer en tvo þriðju af AstraZeneca. Á sama tíma er enn verið að tala um Covid-smit eins og þau séu sami hluturinn og þau voru fyrir bólusetningu.
Þverstæður
Margir gagnrýna nú að ekki hafi verið innleiddar harðari aðgerðir vegna Covid, á þeim grundvelli að Ísland geti orðið gult eða rautt land í alþjóðlegri skilgreiningu. Aðgerðirnar sem talað er um fela í sér þrengingar á ferðalögum. Það er í raun sama niðurstaða og verður við að Ísland falli í litaflokki.
Önnur þverstæðan er að útlendingar séu hættulegri en Íslendingar með tilliti til Covid. Vissulega geta verið tölfræðilega einhverju hærri líkur á því að ríkisborgari tiltekins lands eða dvalargestur þess sé með Covid-smit, heldur en Íslendingur. Nú þegar Ísland er appelsínugult í litakóðum Sóttvarnastofnunar Evrópu, sem telst nálægt meðaltali í álfunni er illskiljanlegt að skikka fólk í sérstaka sýnatöku eða hömlur vegna ferðalaga.
Að hólfa niður hlýtur að teljast skynsamleg ráðstöfun á bráðastigi þegar reynt er að forðast dreifingu óviðráðanlegs sjúkdóms, en núna er sjúkdómurinn ekki sá sami og við vitum að það óviðráðanlega er að útrýma honum.
Það að leggja til hólfun milli landa er því að öllum líkindum úrelt viðbragð byggt á útrunnum forsendum.
Vanræktar forsendur
Fyrir marga eru viðbrögð yfirvalda við Covid-sýkingu hræðilegri tilhugsun en veikin sjálf í núverandi mynd. Það er inni í myndinni að óttast ekkert meira en óttann sjálfan, hvort sem það er viðbragðið við að maður smitist eða viðbrögð stjórnvalda við áhættunni.
Þótt það sé ekki hægt að kenna Katrínu Jakobsdóttur, Svandísi Svavarsdóttur og Bjarna Benediktssyni um Covid, og reyndar ástæða til að hrósa þeim fyrir að gæta jafnvægis í stjórnvaldsaðgerðum, er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja innviðina sem þarf. Það var á ábyrgð heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra að tryggja að aðbúnaður viðkvæmasta fólksins, sem dvaldi á Landakoti, væri allt annar en í hámarkshættu þegar á annan tug vistmanna lést úr veirunni í annarri bylgjunni. Það er síðan mest á ábyrgð þessara þriggja einstaklinga að heilbrigðiskerfið sé sterkara en svo að einn Covid-smitaður sjúklingur setji ríkissjúkrahúsið á hættustig. Eins og læknirinn Ragnar Freyr Ingvarsson sagði: „Fjölmiðlar hafa ekki veitt því sérstaka eftirtekt en ekki þurftu nema þrír að leggjast inn með Covid-19 til að setja spítalann á hættustig. Þrjár innlagnir! Hættustig!“
Salan á Covid-pólitík
Stjórnarandstaðan heldur áfram að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir viðbrögð við Covid, til dæmis fyrir að hætta að skima bólusetta ferðamenn – sem sóttvarnalæknir mælti sjálfur með. Á tímabili var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ósáttur við samstarf um bóluefni, eða það sem hann kallaði „Evrópusambandsklúðrið“, en niðurstaðan var nokkrum vikum síðar að Íslendingar bólusettu hraðar en aðrar þjóðir. Samfylkingin hefur kvartað undan meira atvinnuleysi hér en annars staðar, en gagnrýnir á sama tíma að höftum á ferðamennsku hafi verið aflétt. Margir áberandi í sviðslistum kvarta undan því að ferðafrelsi hafi ekki verið takmarkað meira, eða jafnvel landinu lokað eins og Herra Hnetusmjör ætlaði að framfylgja með lokun Reykjanesbrautarinnar í mótmælaáskorun sem dreifðist um samfélagsmiðla í vor eins og veira í útskriftarferð.
Það að kenna Sjálfstæðisflokknum um nýju Covid-bylgjuna – X-Delta – er langsótt og líklegt til að draga úr trúverðugleika stjórnarandstöðuflokkanna og tryggja Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherrastól í sama ríkisstjórnarmynstri eftir kosningar.
Nægt tilefni hefur verið til að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn, til dæmis fyrir hagsmunaárekstur dómsmálaráðherra þegar hún þrýsti á lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag vegna dagbókarfærslu lögreglunnar um aðild formanns flokks hennar að sóttvarnabroti á listagalleríi sem var umbreytt í verslun til að breyta því í skemmtistað. Tilfellið er auðvitað að helstu leiðtogar flokksins sýndu hræsni eða siðleysi í tengslum með hegðun sinni í Covid. Bjarni með því að svala grímulaust listaþorsta, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir iðnaðar- og ferðamálaráðherra með partístandi á tímum samkomutakmarkana og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra með því að beita valdi sínu sem átti að vera í okkar umboði, til að fá afsökunarbeiðni lögreglunnar, eftir að formaðurinn vakti athygli með sérstöku skemmtanalífi utan veruleika almennings.
Sérstaða Íslands
Það er vissulega alger klisja að tala um sérstöðu Íslands, en engu að síður eru Íslendingar með óvenjulega hátt bólusetningarhlutfall. Á meðan 14% mannkyns eru bólusett eru 75% Íslendinga fullbólusettir. Ísraelar, sem hafa fengið mikla athygli fyrir örar bólusetningar, eru aðeins með 62% fullbólusett.
Í Ástralíu er bólusetningarhlutfallið rétt komið yfir 14% og taktíkin hefur verið að beita ströngum aflokunum. Tilfellið er að heimurinn mun aldrei verða samstiga í bólusetningum vegna augljósrar misskiptingar. Valkosturinn að loka á þriðja heiminn er ekki heldur falleg framtíðarsýn í löndum sem kenna sig við frelsi og mannréttindi.
Þetta þýðir hins vegar að Íslendingar eru færir um að verða leiðandi í innleiðingu frelsis og borgaralegrar ábyrgðar. Með öðrum orðum að Ísland veiti ekki aðeins öryggi gagnvart afleiðingum veirunnar, heldur líka öryggi gagnvart ofstopafullum viðbrögðum við henni.
Covid er búið en fer aldrei
Covid er ekki lengur Covid eins og við skildum það. Á sama tíma deyr Covid aldrei, heldur þróast út frá stökkbreytingum og í afstöðu við þróun og innleiðingu bólusetninga.
Eina leiðin til að tryggja veirufrítt land er að þrýsta á reglulegar frelsishömlur og loka á ferðalög Íslendinga frá landinu, enda erum við sjálf helstu smitberarnir. Þetta snýst í raun minnst um að ferðamenn séu að ógna okkur.
Valkosturinn er einfaldlega ekki raunhæfur möguleiki. Að búa til og hvað þá viðhalda veirufríu Íslandi er draumsýn sem gengur aðallega út á að forðast viðbrögðin sem vanalega eru lokanir og hömlur, aflýsingar á viðburðum og svo framvegis. Auk þess er erfitt að ímynda sér að samstaða náist um harðar aðgerðir gegn frelsi fólks á grundvelli ógnarinnar af nýja Covid, þegar aðrar leiðir eru í boði.
Annar valkostur er að horfa aftur á Covid-faraldurinn eins og við gerðum í upphafi, út frá getu okkar til viðbragða við veikindunum. Hann þýðir að við látum af draumi um veirufrítt Ísland og afléttum ferðahömlum, en leggjum þess meira í að tryggja innviði heilbrigðiskerfisins. Þannig mætti um leið tryggja að fólk þurfi ekki að óttast að vera sent heim yfir helgi með látið barn í móðurlífi eða að gista á spítalaganginum í veikindum sínum og að starfsmenn þurfi ekki að lifa við að vinnan þeirra geri þá veika af streitu. Við gátum sett stóran hluta þjóðarinnar á ríkislaun í Covid og getum því eflaust lagt meira í störf í heilbrigðiskerfinu.
Ný tilfærsla á ábyrgð
Það er tímabært að færa ábyrgðina og áhættuna á Covid yfir til einstaklinganna og fyrirtækjanna, en framfylgja ábyrgðinni á innviðum gagnvart stjórnvöldum. Þau geta ekki látið eins og viðbúnaður heilbrigðiskerfisins sé þeim óviðkomandi og ábyrgðin liggi hjá utanaðkomandi sjúkdómi sem hefur ekkert siðferðislegt vægi eða ábyrgðarsvið.
Við getum ekki verið 100% örugg frá afleiðingum Covid. Við þurftum bara að fletja kúrfuna með því að hegða okkur rétt og sannfæra stjórnvöld um að raunverulega vernda heilbrigðiskerfið og starfsfólk þess. Þau sem sjá heiminn svarthvítt eru með óraunverulega og úrelta heimssýn.
Við þurfum ekki heldur að gefast upp og láta eins og ekkert sé á okkar valdi – Guð hressi Ísland – því þetta er í okkar höndum. Að þvo hendur og setja þær ekki í augu, munn og nef, eða mat, mæta í bólusetningu, troðast ekki í illa loftræst rými, forðast hávær samtöl, sérstaklega yfir mat og drykk, og halda sig frá varasömum aðstæðum ef maður er með skilgreinda undirliggjandi áhættuþætti.
Nýju markmiðin gætu því orðið að styrkja heilbrigðiskerfið, gera delta-veikum lífið sem bærilegast frekar en að refsa þeim, verða leiðandi í snjöllum veiruviðbrögðum, vernd persónufrelsis og auka persónulega ábyrgð á sóttvörnum. Um leið getum við axlað persónulega ábyrgð á því að vinna gegn útlendingaótta, kvíða, einangrunarhyggju, sérhagsmunum og tækifærismennsku.
Athugasemdir