Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítalans, segist óttast að stjórnmálamenn kunni að draga úr samstöðu almennings gegn Covid-19 faraldrinum vegna komandi þingkosninga. 78 greindust innanlands í gær, þar af 52 fullbólusettir og fimm hálfbólusettir. 59 þeirra voru utan sóttkvíar.
Þegar blaðamaður spurði Hjalta Má um það hvernig honum litist á stöðuna í faraldrinum eins og hún væri núna í ljósi þess að nú bylgja sé skollinn á, byrjar hann á því að taka það fram að þrátt fyrir að hann sé læknir sé hann ekki sérfræðingur í smitsjúkdómum eða farsóttum.
Það er Hjalta mikilvægt að tekið sé mark á sérfræðingum í þeim efnum, að þeir hafi mest vit á hvað sé best að aðhafast við slíkar aðstæður. Hann segir skiljanlegt að almenningur sé þreyttur á sóttvarnaraðgerðum og að öllum langi að „geta farið að lifa eðlilegu lífi“ en hann vonist til þess að ef gripið verði til harkalegra aðgerða að almenningur muni sýna því skilning eins og áður og „fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis“.
Fólk tjái sig ekki hafi það ekki sérþekkingu
Varðandi það að ráðherrar hafi stigið fram með efasemdir sínar varðandi sóttvarnaraðgerðir segir hann að sínu mati „ætti fólk ekki að tjá sig um hluti sem það hefur ekki sérþekkingu á“ og að „við eigum að treysta áliti þeirra sem mest vit hafa á farsóttum um það hvernig við eigum að bregðast við þessari stöðu.“
Hann telur hugsanlegt að athugasemdir ráðherra og annarra sem lýsa andstöðu sinni við ráðleggingar sóttvarnalæknis eigi þátt í því að samstaða almennings fari minnkandi. Hann hafi áhyggjur af því að komandi kosningar muni hafa áhrif á samstöðuna.
„Við eigum að treysta áliti þeirra sem mest vit hafa á farsóttum“
Fram að þessu hafi sérfræðingar fengið að sitja í framsætinu varðandi hvernig takast eigi við faraldurinn og stjórnmálamenn í aftursætinu en að mati Hjalta gæti það verið að breytast eftir því sem líður á faraldurinn og styttist í kosningar. „En sem betur fer eru Íslendingar almennt vel upplýstir. Hér erum við ekki að glíma við að það sé marktækur hluti þjóðarinnar sem skilur ekki mikilvægi bólusetninga eða er opinberlega að berjast gegn þeim. Ég vona svo sannarlega að popúlista stjórnmálamenn séu ekki að stökkva á þann vagn eins og við höfum séð gerast í Bandaríkjunum þar sem hálf þjóðin er núna óbólusett og margir trúa því að bóluefni sé skaðlegt sem hamlar verulega sóttvarna aðgerðum þar í landi.“
Áhyggjur af skorti á samstöðu
Heilbrigðisstarfsfólk segir hann hafa áhyggjur af því að það muni skorta á samstöðu almennings fyrir slíkum aðgerðum. Þau hafi líka áhyggjur af því að álagið á spítalanum, sem er mikið fyrir, muni aukast vegna fjölgunar í smitum í samfélaginu og vegna þess að útlit sé fyrir að bóluefni virki ekki sem skyldi. „Við í heilbrigðiskerfinu munum alltaf þurfa að undirbúa okkur í að takast á við verstu mögulegu sviðsmyndina,“ segir hann.
Hann segir ekki „endalaust svigrúm“ vera á spítalanum til að taka á móti einstaklingum sem verða alvarlega veikir af Covid. „Ef að fjöldi þeirra verður yfir því sem spítalinn ræður við þá er heilbrigðiskerfið komið í veruleg vandræði og þjóðin þar með líka.“ hann segir að ef veirunni verði sleppt lausri í samfélaginu séu það augljóslega áhyggjur sóttvarnalæknis að „það gæti valdið faraldri þar sem umtalsverður fjöldi verður lífshættulega veikur“.
Einangrun erfiður hluti af því að veikjast
Hjalti segir það hafa mikil áhrif á sjúklinga sem liggja inn á spítala með hættuleg eða langvinn veikindi að heimsóknir á spítalann séu takmarkaðar vegna stöðunnar. „Einangrun er mjög erfiður hluti af því að veikjast og núna er það bein afleiðing af því að smit eru komin á flug í samfélaginu að það er óhjákvæmilegt að vernda þá sem eru veikastir fyrir og auka takmarkanir á heimsóknum. Þetta er þung staða og erfið en það verður að setja heilsu fólks og líf í forgang og grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru.“
„Ef að fjöldi þeirra verður yfir því sem spítalinn ræður við þá er heilbrigðiskerfið komið í veruleg vandræði og þjóðin þar með líka“
Ef ekkert yrði gert og veiran myndi fara óbeisluð um samfélagið væri það staða sem hættulega veikir og langveikir þyrftu að búa við í lengri tíma. Að mati Hjalta á það þó ekki aðeins við þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. „Það eru líka ískyggilegar fréttir um það að jafnvel fólk sem er ekki með undirliggjandi sjúkdóma, er ekki orðið aldrað og viðkvæmt og hefur verið bólusett, að það geti lent í alvarlegum veikindum og þess vegna verðum við að halda þessum faraldri niðri.“
Athugasemdir