Réttlæti fyrir þolendur kynferðisbrota er vandfundið. Hin hefðbundna leið að réttlætinu liggur í gegnum refsiréttinn en af þeim nauðgunarmálum sem berast lögreglu lýkur aðeins um 13% þeirra með sakfellingardómi. Þolendur kynferðisbrota hljóta því sjaldnast formlega viðurkenningu á því ofbeldi sem þeir voru beittir og þeir sem ofbeldinu beita þurfa sjaldnast að bera ábyrgð á gjörðum sínum. En þessu er hægt að breyta bæði með því að bæta réttarvörslukerfið og með því að þróa aðrar leiðir að réttlæti.
Til þess að mæta betur réttlætishagsmunum þolenda kynferðisbrota er mikilvægt að skilja hvaða hugmyndir þolendur hafa um réttlæti. Rannsóknir hafa sýnt að hugmyndir þolenda um réttlæti eru margþættar og fara eftir aðstæðum þolenda, tengslum þolenda og gerenda, og geta tekið breytingum yfir tíma. Þó eru ákveðnir þættir sem rannsóknir hafa sýnt að þolendur kynferðisofbeldis tengja við réttlætishugtakið:
- Virðing: Að komið sé fram við þolanda af virðingu. Að viðkomandi fái tækifæri til að veita og fá upplýsingar um meðferð málsins.
- Rödd: Að þolandi fái að segja frá því sem gerðist með eigin orðum. Að viðkomandi fái tækifæri til að hafa eitthvað um það að segja hvernig staðið er að meðferð málsins.
- Viðurkenning: Að hlustað sé á frásögn þolanda og henni tekið alvarlega og trúanlega.
- Að tilheyra: Að þolanda sé veittur persónulegur, félagslegur og fjárhagslegur stuðningur. Að staðið sé með viðkomandi.
- Ábyrgð: Að manneskjan sem framdi ofbeldið iðrist, biðjist einlæglega afsökunar á gjörðum sínum og taki ábyrgð á þeim á þýðingarmikinn hátt.
- Forvarnir: Að koma í veg fyrir að manneskjan sem framdi ofbeldið beiti fleira fólk ofbeldi. Að umbreyta samfélaginu þannig að kynferðisofbeldi eigi sér ekki stað.
Mikilvægt er að hafa þessa réttlætishagsmuni þolenda að leiðarljósi til bæta réttarvörslukerfið og til að þróa aðrar leiðir að réttlæti utan refsiréttarins.
Að bæta réttarvörslukerfið
Nýlega kærðu níu konur íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir að hafa brotið á rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar. Konurnar eiga það sameiginlegt að vera brotaþolar sem kærðu nauðganir, heimilisofbeldi og/eða kynferðislega áreitni til lögreglu en málin voru felld niður af ákæruvaldinu. Samkvæmt kærunum einkennast málin af eftirfarandi þáttum: alvarlegir annmarkar á rannsókn lögreglu, þeim sönnunargögnum sem til staðar eru í málunum er gefið lítið sem ekkert vægi, og að gengið sé gegn vilja löggjafans við túlkun laganna. Þrátt fyrir að Mannréttindadómstóllinn sé umsetinn og vísi langflestum málum frá, hefur hann nú tekið a.m.k. fjórar af kærunum til 1. afgreiðslu. Því má ætla að þó svo að yfirvöld hafi sett aukið fjármagn í meðferð kynferðisbrotamála á undanförnum árum virðist það ekki duga til. Mikilvægt er að halda áfram að bæta lögreglurannsóknir og auka fræðslu fyrir þá fagaðila sem að málunum koma, þ.e. lögreglu, saksóknara og dómara.
Að styrkja réttarstöðu brotaþola
Réttarstaða brotaþola á Íslandi er afar veik í samanburði við hin Norðurlöndin og rekum við lestina í þeim efnum ásamt Dönum. Brotaþolar á Íslandi eru ekki aðilar að sakamálum og fá því litlar upplýsingar um gang lögreglurannsóknarinnar og afar takmarkaðan rétt til að taka þátt í réttarferlinu. Þessi jaðarstaða gerir það að verkum að brotaþolar í alvarlegum ofbeldismálum, eins og kynferðisofbeldismálum, geta upplifað virðingaleysi í réttarferlinu sem eykur á vantraust þeirra í garð réttarvörslukerfisins. Þessi takmarkaða aðkoma brotaþola að málsmeðferðinni getur einnig komið í veg fyrir að mál séu eins vel upplýst og hægt er. Nýlega lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála til að bæta réttarstöðu brotaþola sem og fatlaðs fólks og aðstandenda. Þó að frumvarpið sé ágætt eins langt og það nær, tekur það einungis til lítils hluta þeirra fjölmörgu úrbótatillagna sem lagðar hafa verið fram í þessum efnum. Mikilvægt er að veita brotaþolum aðild að sakamálum eða flest þau réttindi sem aðilar máls hafa eins og tíðkast víðast hvar á Norðurlöndunum því annars er hætta á að réttarkerfið detti úr takti við réttarvitund almennings.
Að auka aðgengi þolenda að skaðabótarétti
Í ljósi þess hversu fá kynferðisbrotamál enda með sakfellingu er mikilvægt að leita annarra leiða til að þolendur öðlist lagalega viðurkenningu á því ranglæti sem þeir voru beittir. Ein slík leið liggur í gegnum skaðabótaréttinn en þar er sönnunarkrafan að jafnaði ekki eins há og í refsirétti og þar gefst einnig möguleiki á að fá skaða- eða miskabætur vegna afleiðinga ofbeldisins sem geta verið bæði víðtækar og langvinnar. Full ástæða er því til að veita þolendum gjafsókn til að leita réttar síns í slíkum einkamálum og að ríkissjóður ábyrgist dæmdar bætur upp að ákveðnu marki.
Þó er ljóst að flestir þolendur telja að peningar geti ekki bætt fyrir kynferðisbrot. Til þess að koma betur til móts við réttlætishagsmuni þolenda er ástæða til að finna leiðir til að hvetja gerendur til að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Ef þolendum eru dæmdar bætur í einkamáli og ef ríkissjóður gengst í ábyrgð fyrir þær þá er gerandi kominn í skuld við ríkið. Þá gæti ríkið til dæmis veitt geranda skuldaafslátt ef hann tekur þátt í sérhönnuðu ábyrgðarferli og lýkur því á árangursríkan hátt.
Að þróa ábyrgðarferli
Þegar fjallað er um borgaralegar leiðir til að takast á við kynferðisbrotamál er oft vísað til sáttamiðlunar (e. mediation). Rannsóknir hafa þó sýnt að notkun sáttamiðlunar í málum sem varða kynbundið ofbeldi geta valdið þolendum enn meiri skaða þá sérstaklega ef að þrýst er á þolendur að taka þátt í slíkum ferlum, ef að sáttamiðlarar hafa ekki nægilegan skilning á því valdamisvægi sem einkennir kynbundið ofbeldi, og ef að gerendur komast upp með að taka stjórnina á ferlinu. Hugtakið sáttamiðlun er einnig sérlega bagalegt í þessu samhengi. Orðið ber með sér að kynferðisofbeldi jafngildi ósætti eða ágreiningi og að ætlunin sé að ræða málin, sætta báða aðila eða finna einhvern milliveg.
Erlendis hafa verið þróuð sérstök ferli fyrir mál sem varða kynferðisofbeldi undir formerkjum uppbyggilegrar réttvísi (e. restorative justice). Þar er lögð áhersla á að slík ferli séu þolendamiðuð og öryggi brotaþola sé haft í öndvegi. Einnig skiptir máli að þeir sem miðla slíkum málum hafi þar til bæra þekkingu þ.m.t. þekkingu á orsökum, eðli og afleiðingum kynferðisbrota sem og því samfélagslega samhengi sem brotin eiga sér stað í. Til að tryggja öryggi þolenda þurfa gerendur að ætla sér að taka ábyrgð á gjörðum sínum áður en þolanda er boðið að funda með geranda. Þess vegna skiptir miklu máli að undirbúa báða aðila vel í sitthvoru lagi áður en kemur til álita að halda slíkan fund. Slík ferli gætu því frekar kallast ábyrgðarferli.
Þeir þolendur sem ég hef talað við í tengslum við mínar rannsóknir hafa almennt litið þá hugmyndafræði sem liggur til grundvallar uppbyggilegrar réttvísi jákvæðum augum, en hafa haft efasemdir um að gerendur myndu vilja taka þátt í svona ferli og taka af einlægni ábyrgð á gjörðum sínum. En í ljósi þeirra samfélagshræringa sem hafa átt sér stað með #MeToo hreyfingunni er ástæða til að ætla að forsendur séu að skapast til þess að gerendur finni sig knúna til að taka ábyrgð á gjörðum sínum. En slíkur hvati myndast þegar við sem samfélag stöndum með þolendum kynferðisbrota.
Höfundur byggir greinina á rannsóknum sínum á meðferð kynferðisbrota innan réttarkerfisins og hugmyndum brotaþola um réttlæti í kynferðisbrotamálum.
Athugasemdir