Það er ekki á hverjum degi sem ný manntegund er kynnt til sögunnar. Það gerðist þó í dag þegar vísindamenn í Ísrael héldu með pompi og prakt blaðamannafund þar sem þeir boðuðu þau tíðindi að þeir hefðu fundið „nýja“ manntegund, sem þeir hafa þegar tekið að sér að nefna homo Nesher Ramla eftir kalksteinsnámu þar í landi.
Þar fundust beinaleifar hinnar nýju tegundar fyrir áratug og hafa allar götur siðan verið til skoðunum á hinum fínustu rannsóknarstofum.
Til rannsóknar í áratug
Það var veturinn 2010-11 sem sementsverksmiðja í bænum Ramla hugðist láta hreinsa til í kalksteinsnámu sinni við bæinn, þar sem verksmiðjan fékk kalk í sement það sem hún framleiðir.
Stórar ýtur og trukkar ýmsir tóku til starfa en þá kom syndilega í ljós hola í jörðina, og reyndist hún tólf metra djúp.
Í Ísrael eru í gildi mjög strangar reglur um að kalla verður til fornleifafræðinga ef eitthvað finnst sem mögulega gæti geymt fornar mannvistarleifar af einhverju tagi, og djúpt oní holunni fundust fljótlega beinaleifar, sem greinilega voru býsna gamlar.
Mjög mikið var af dýrabeinum í holunni og ályktun fornleifafræðinga var sú að menn hefðu í árdaga notað staðinn til að króa af og drepa veiðidýr af ýmsu tagi. Þarna fundust leifar af fornum uxum, skjaldbökum, hrossum, hjartardýrum allskonar, nashyrningum og svo framvegis og svo framvegis.
Fyllt upp í holuna
Fornleifafræðingarnir urðu að vinna hratt því verksmiðjueigendurnir vildu láta fylla upp í holuna, svo þeir gætu haldið áfram starfsemi sinni. Á einu ári mokuðu þeir upp leifum sem venjulega hefði tekið 20 ár að fjarlægja með fyllstu varúð og gát.
Og svo var fyllt upp í holuna, en fræðimennirnir hófust um að rannsaka það sem þar hafði fundist.
Fyrst dýrabeinin.
Allt var það nú gott og blessað og mikill fengur fyrir vísindamennina, en kom þó ekki neitt að ráði á óvart. Þeir komust að því að leifarnar í holunni — og verkfæri úr steini sem þar fundust líka — væru líklega 140 þúsund ára gamlar, en einmitt um það leyti hafði „nútímamaðurinn“ homo sapiens verið að feta sig út frá Afríku, og svipaðir staðir höfðu áður fundist þar sem veiðiklóin Sapiens hafði verið að verki.
Og vísindamennirnir fundu leifar af höfuðkúpu manns og fáein önnur bein, og bjuggust ekki við öðru en þetta myndu reynast vera leifar af Sapiens.
En mikil varð undrun þeirra þegar í ljós kom að svo var ekki.
„Frumstæð“ manntegund, ekki homo sapiens
Höfuðkúpubrotið og beinin hin reyndust ekki vera af homo sapiens heldur einhverri „frumstæðari“ og bersýnilega eldri manntegund, sem engin merki höfðu fundist um áður.
Og þó.
Vísindamenn í Ísrael og víðar í Miðausturlöndum höfðu gegnum tíðina fundist ýmsar örsmáar beinaleifar frá því fyrir 200.000-400.000 árum sem enginn vissi almennilega hvernig ætti að flokka.
Um þær mundir var homo sapiens í sinni fyrri og „frumstæðu“ útgáfu kominn til Miðausturlanda og búinn að ryðja fyrirrennara sínum, homo erectus, úr vegi, eftir því sem best var vitað.
Hin stöku bein, sem fyrr voru nefnd, virtust ekki passa ekki inn í þá snyrtilegu sögu að Sapiens hefði í einu lagi rutt homo erectus burt, en leifarnar voru svo lítilfjörlegar að vísindamenn höfðu fram að þessu afgreitt þær sem eitthvert illskiljanlegt frávik.
Homo Nesher Ramla lét ekki hrekja sig á brott
Nú kom í ljós að þessar leifar gátu einmitt passað við beinin úr kalksteinsgryfjunni í Ramla.
Niðurstaðan er sú að í Ramla hafði búið — og veitt sér til matar — áður óþekkt og „frumstæð“ manntegund og hafði líklega gert í altént nokkur hundruð þúsund ár, þegar homo sapiens mætti á svæðið. En ólíkt homo erectus lét þessi homo Nesher Ramla ekki reka sig á burt, heldur er ljóst að hann bjó innan um Sapiens í að minnsta kosti þrjú hundruð þúsund ár.
Það sem meira er, vísindamennirnir telja sig nú komnir á það spor að homo Nesher Ramla kunni að hafa verið formóðir Neanderdalsmannsins, að minnsta kosti að einhverju verulegu leyti — því DNA-rannsóknir nútímans hafa leitt i ljós að það var síður en svo eins og snyrtileg bein lína, hvernig ein tegund tók við af annarri.
Þær blönduðust á ýmsa vegu og oft á löngum tíma.
Spennandi tímar
Hvaða áhrif hin nýja tegund hefur á þekkingu okkar á forsögu mannsins er enn óvíst, en þetta eru mjög spennandi fréttir. Hópur „frumstæðra“ manna hefur sem sagt búið ásamt Sapiens í Miðausturlöndum mjög lengi, og þótt homo Nesher Ramla eigi að heita „frumstæðari“ hefur honum þó gengið prýðilega að veiða sér til matar og engu síður en Sapiens; það sanna öll dýrabeinin í holunni í Ramla.
Hvað varð svo um homo Nesher Ramla, það er enn óráðin gáta. Nema hvað ekki er ólíklegt að sumir af þessari tegund hafi haldið til Evrópu, því rannsóknir hafa gefið til kynna að Neanderdalsmenn — eða réttara sagt formæður þeirra — hafi komið í nokkrum bylgjum frá Miðausturlöndum.
Í þessari grein í ísraelska blaðinu Haaretz er fjallað um hvaða breytingar gætu orðið á mynd okkar af Neanderdalsmanninum í kjölfar þessarar nýju þekkingar, en hérna og einnig hérna er fjallað ítarlega um rannsóknir Ísraelanna og starfssystkina þeirra í tímaritinu Science.
Og svo er hérna svolítið myndband frá háskólanum í Tel Aviv þar sem greint er frá málinu.
Athugasemdir