„Samherji hafnar alfarið ásökunum um mútugreiðslur en tekur undir þá gagnrýni að við þær aðstæður sem uppi voru hefði átt að gæta betur að því hvernig greiðslur voru framkvæmdar, hverjir tóku við þeim og á hvaða grundvelli, hverjir höfðu heimildir til að gefa fyrirmæli um þær og hvert þær skyldu berast. Einnig er ljóst að samningar á bak við greiðslurnar hefðu átt að vera nákvæmir og formlegir,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í yfirlýsingu á vef fyrirtækisins.
Yfirlýsingin er auglýst í heilsíðuauglýsingum bæði í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu sem komu út í morgun, undir yfirskriftinni „Við gerðum mistök og biðjumst afsökunar“. Hann segist bera ábyrgð sem æðsti stjórnandi fyrirtækisins að „hafa látið þau vinnubrögð, sem þar voru viðhöfð, viðgangast“.
Enginn braut lög nema Jóhannes
Þorsteinn fullyrðir að aðeins Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn í málinu, hafi framið refsiverð brot í störfum sínum hjá Samherja. „Það er eindregin afstaða mín og Samherja að engin refsiverð brot hafi verið framin í Namibíu af hálfu fyrirtækja á okkar vegum eða starfsmanna þeirra ef undan er skilin sú háttsemi sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur beinlínis játað og viðurkennt,“ segir hann.
Þetta er í fyrsta sinn sem Samherji og Þorsteinn Már biðjast afsökunar með þessum hætti síðan að Samherjaskjölin og Namibíumálið svokallaða voru afhjúpuð í Kveik, Stundinni og Al Jazeera í samstarfi við Wikileaks. Þar birtist mikið magn gagna og frásögn Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra útgerða Samherja í Namibíu, sem gekkst við að hafa greitt mútur til namibískra áhrifamanna í skiptum fyrir verðmætan hestamakrílskvóta fyrir útgerðir Samherja að nýta í landinu.
Þá er því hafnað að milliríkjasamningur Angóla og Namibíu, sem nefndur hefur verið Namgomar-díllinn, hafi verið gerður að undirlagi Samherja. Í yfirlýsingunni segir að samningurinn hafi átt sér langan aðdraganda og hafi verið byggður á gagnkvæmum hagsmunum landanna tveggja og áralangri vinnu.
Samherji segir að jafnvel þó þeir sem hafi gert samningana og úthlutað aflaheimildum og nýtingarrétti á grundvelli þeirra hafi haft af því persónulega hagsmuni, séu engar vísbendingar um að Samherji hafi vitað af því á sínum tíma.
Erfitt að skilja greiðslur
Strax frá upphafi málsins hefur Samherji sagt alla ábyrgð á nokkru því sem ranglega hafi verið gert sé á ábyrgð Jóhannesar. Það er enn afstaða fyrirtækisins í yfirlýsingunni nú. Þar segir meðal annars að verulegur hluti af niðurstöðum Wikborg Rein, norsku lögfræðistofunnar sem Samherji réði til að fara yfir málið og framkvæma innanhúsrannsókn, snúi að viðskiptaháttum sem gáfu færi á misnotkun vegna veikleika í regluvörslu og innra stjórnskipulagi í Namibíu.
„Samherji áréttar að ekki verður séð að aðrir starfsmenn en framkvæmdastjórinn fyrrverandi hafi bakað sér saknæma ábyrgð í störfum sínum,“ segir til að mynda í yfirlýsingunni.
Greiðslur sem gerðar eru eftir brotthvarf Jóhannesar frá Samherja eru einfaldlega útskýrðar með þeim hætti að langan tíma, allt upp í þrjú ár, hafi tekið að skilja hvað var í gangi og vinda ofan af því. Þetta eigi til dæmis við greiðslur frá Kýpurfélögum Samherja til Dúbaí, félagsins Tundavala Investment Ltd. sem var í eigu James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanns ríkisútgerðarinnar Fishcor. Það hafi verið greiðslur fyrir veiðiréttindi og ráðgjöf, sem Samherji fullyrðir að hafi verið veitt.
„Til dæmis lágu ekki fyrir formleg gögn eða réttur frágangur á mörgum greiðslum og tók það því nýja stjórnendur langan tíma að átta sig á þeim samningum sem gerðir höfðu verið í tíð fyrrverandi framkvæmdastjóra. Þegar nýjum stjórnendum varð ljóst hvernig þeim samningum var háttað var samið um að öllum veiðiréttargreiðslum sem farið höfðu til Dúbaí yrði hætt og lauk þeim í ársbyrjun 2017. Fjórar greiðslur vegna ráðgjafaþóknana voru greiddar á árinu 2018 og í ársbyrjun 2019,“ segir í yfirlýsingunni um þetta.
Segjast hafa fengið ráðgjöf
Samherji segir það líka eina af meginniðurstöðum Wikborg Rein að ráðgjafarnir sem ráðnir voru í Namibíu, tengdasonur sjávarútvegsráðherrans þar í landi, Tamson Hatuikulipi, og frændi hans James, sem var á sama tíma og hann starfaði fyrir Samherja skipaður stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor, og það að láta óátalda aðkomu háttsettra aðila í stjórnkerfi Namibíu að ráðgjöf þeirra hafi vakið upp spurningar um vandaða viðskiptahætti.
Þessir tveir eru þó ekki þeir einu sem fengu greiðslur frá Samherja, því sýnt hefur verið fram á að félag í sameiginlegri eigu James og Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, hafi einnig fengið greiðslur.
Bandaríska utanríkisráðuneytið ákvað í síðustu viku að beita Sacky og annan fyrrverandi ráðherra, sjávarútvegsráðherrann Bernhard Esau, refsingum og banna þeim og fjölskyldum þeirra að ferðast til Bandaríkjanna. Var það gert vegna Samherjamálsins.
Athygli vekur að í yfirlýsingu Samherja segir að engir starfsmenn Samherja eða félög í eigu útgerðarinnar séu á meðal ákærðra í Namibíu. Áður hefur verið greint frá eindregnum vilja saksóknara þar í landi til að ákæra þrjá núverandi og fyrrverandi starfsmenn útgerðarinnar og félög sem Samherji á í Namibíu. Þar sem ekki hefur tekist að birta þeim ákæruna hefur hún hins vegar ekki verið gefin út formlega. Leitaði lögreglan þar syðra meðal annars til Interpol í leit sinni að þessum starfsmönnum og hefur lýst vilja til að fá þremenningana framselda frá Íslandi.
Athugasemdir