Fyrir mörgum eru helíumblöðrur hluti af hefðinni þegar haldið er upp á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga. Bærinn fyllist af börnum sem allir hafa sína blöðru sem svífur um götur borgarinnar og sumar sjást jafnvel hátt upp í lofti eftir að þær komust undan eiganda sínum. Þá hafa vinsældir svokallaða kynjaveislna aukist og þar að leiðandi blöðrunotkun.
Ástæðan fyrir því að þessar blöðrur eru umdeildar er ekki bara plastið sem þær eru gerðar úr, heldur er það lofttegundin helíum sem þær innihalda. Það sem fæstir mögulega vita er að helíum er mjög takmörkuð auðlind, það er bara til ákveðið magn af því hér á jörðinni. Helíum er næstléttasta frumefnið en þrátt fyrir að vera eitt af algengustu frumefnum alheimsins er helíum aðeins til í takmörkuðum mæli hér á jörðinni og það er eitt fárra frumefna sem leka úr lofthjúpi jarðar og út í geim þegar það er notað. Það er því ekki sjálfbært. Yfir 10% af árlegri framleiðslu á helíum fer í að blása upp blöðrur.
Sjúkrahús geta ekki verið án helíum
Fyrir flestum er helíum sennilega þekktast fyrir að vera notað í blöðrur. En það er óvíst hversu margir átti sig á í raun hversu dýrmæt og mikilvæg lofttegundin er. Aðalnotkun helíums í heiminum er í heilbrigðisgeiranum, til dæmis er helíum notað til kælingar á segulómunartæki á sjúkrahúsum, við meðferð á asma, skurðlækningar og margt fleira. Þá er helíum einnig notað í fjölda af öðrum hlutum sem eru mikilvægir, eins og við framleiðslu á ljósleiðara, á rannsóknarstofum, í eldsneytistönkum geimflauga, kælimiðill við framleiðslu hálfleiðara og í kjarnaofnum svo fátt eitt sé nefnt.
Heimskortur veldur verðhækkunum
Á undanförnum árum hafa birgðir á þessari mikilvægu lofttegund farið töluvert minnkandi með hverju árinu sem líður. Árið 2013 varð fyrsti mikli skorturinn á helíum, skorti sem vísindamenn um allan heim voru búnir að vara við í mörg ár og hafði hann áhrif víða um heim. Það ár fjölluðu helstu fjölmiðlar landsins um þennan skort hér á Íslandi og var það þá aðalfréttin að ekki yrði hægt að fá helíumblöðrur þann þjóðhátíðardag eða í veislurnar. Ástandið var alvarlegt og þurfti að forgangsraða kaupendum eftir mikilvægi. Hundruð vísindamanna þurftu að hætta rannsóknum sínum vegna skortsins og gátu margir spítalar ekki nálgast efnið. Þar sem framboðið dugaði ekki til að sinna eftirspurninni þá hækkaði verðið umtalsvert. Á undanförnum 15 árum hefur verð á helíum hækkað um 500%, hækkun sem heilbrigðisstofnanir og vísindamenn þurfa að borga.
Óvíst hvenær hægt verði að skipta út helíum
Helíum er að stærstum hluta ekki sérstaklega framleitt heldur er það aukaafurð sem kemur þegar er verið að ná í jarðgas eða olíu úr jörðinni. Afar fá svæði hafa helíum í vinnanlegu magni og fer um 75% af vinnslu alls helíumsframleiðslu í heiminum fram í Bandaríkjunum. Þá er mjög erfitt að nálgast helíum. Uppsprettur eru mjög sjaldgæfar og finnast á einstökum svæðum í Bandaríkjunum, Kanada, Póllandi, Rússlandi og Tansaníu. Suðumark helíums er nálægt alkuli eða -267 °C og er efnið í fljótandi formi besta kæliefni heims, og enn er ekki séð fram á hvernig skipta megi efninu út fyrir aðra kælimiðla, tæknin er einfaldlega ekki til í dag og segja vísindamenn að langt sé í land að finna aðra tækni, á meðan þurfa þeir á helíum að halda.
Vilja banna helíumblöðrur
Vegna þessa hafa því vísindamenn um allan heim lagt fram þá kröfu að bann verði lagt við að nota þessa mikilvægu, og dýrmætu lofttegund, við að framleiðsla blöðrur. Margar borgir, víðsvegar um heiminn, hafa hlustað á vísindamenn og lagt alfarið bann við helíublöðrum. Árið 2017 lagði Umhverfis- og framkvæmdarráð Hafnarfjarðarbæjar fram að Hafnarfjarðarbær og stofnanir hans hætti að nota blöðrur með helíum. Ekkert bann var þó sett á, heldur voru þetta eingöngu vinsamleg tilmæli.
Að sögn vísindamanna mun bann við helíumblöðrum ekki eingöngu hjálpa við að minnka notkun á helíum um heim allan, heldur mun það bjarga hundruð þúsunda fugla og sjávardýra árlega. Blöðrurnar eru nefnilega flest allar framleiddar úr latexblöndu eða úr þunnri pólýesterfilmu úr plasti. Plastið í blöðrunum ógnar dýrum þegar þau flækjast í því og kafna og svo vegna plastagna sem dýrin borða. Flestar lífverur sem taka inn í sig plast eiga í erfiðleikum með að losa sig við það.
Plastagnir finnast í fiskum og fuglum á Íslandi.
Plastagnir eru að finnast í fiskum og fuglum við strendur landsins. Samkvæmt rannsókn Anne de Vries, nema í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, kom í ljós að 20,5% af öllum veiddum þorski á Íslandi innihélt plastagnir og 17,4% af öllum ufsa innihélt plastagnir. Samkvæmt rannsókn, sem Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands, framkvæmdi, reyndist 70% fýla sem hann rannsakaði vera með plast í maganum. Þá hafa rannsóknir á magainnihaldi hvala sem hafa rekið á land sýnt fram á gífurlegt magn af plasti. Rannsóknir á kræklingum við strendur Íslands sýna einnig að meira en helmingur þeirra innihalda plastagnir. Agnir sem enda svo á diskum landsmanna.
Athugasemdir