Haft er eftir Winston Churchill að lýðræðið sé versta stjórnskipanin sem völ er á fyrir utan allar hinar og einnig að veikleikar lýðræðisins hafi æpt á hann í hvert skipti sem hann þurfti að eiga fimm mínútna samtal við venjulegt fólk. Reyndar eru hvor tveggja ummælin ranglega eignuð Churchill, en þau hafa þótt sverja sig í ætt við stundum gáleysislegt og hrokafullt tal úr munni merkismanns sem gekk í gegnum langþráða endurnýjun stormasamra lífdaga sem stjórnmálamaður þegar hann barðist með magnaðri orðkyngi gegn Adolf Hitler, mest í útvarpi. En látum það vera.
Það mátti engu muna
Lýðræði hefur frá mínum bæjardyrum séð einn höfuðkost og einn höfuðgalla.
Höfuðkostur lýðræðisskipulagsins felst í því almenna samkomulagi sem ríkir í okkar samfélagi um að lýðræðislegar ákvarðanir, til dæmis úrslit kosninga, beri ávallt að virða, hvort sem við teljum niðurstöðuna rétta eða ranga. Enda gefast alltaf ný færi á að endurskoða fyrri ákvarðanir eftir leikreglum lýðræðisins. Meiri hlutinn ræður för en við sýnum minni hlutanum tillit og virðingu. Ríkisstjórnir tapa kosningum og víkja þá frá völdum í friði og spekt. Bresti þetta almenna samkomulag um að fortakslaust beri að virða lýðræðislegar ákvarðanir, þá byrjar lýðræðið að skjálfa eins og hrísla.
Höfuðgalli lýðræðisskipulagsins er náskyldur höfuðkostinum, eða réttar sagt andhverfa hans. Gallinn er þessi: lýðræðið stendur að heita má óvarið gegn þeim sem neita að virða lýðræðislegar ákvarðanir. Nærtækt dæmi blasir við. Ekkert í stjórnarskrá Bandaríkjanna eða lögum veitir landinu trygga vörn gegn afneitun Trumps fv. forseta á úrslitum forsetakjörsins 2020. Enda munaði minnstu að honum og flokki hans tækist að halda völdum þótt þeir biðu ósigur í kosningunum. Stjórnkerfið stóðst áhlaupið með naumindum. Dómstólar, lögreglan í höfuðborginni, kosningayfirvöld í Georgíu og fleiri stóðu í lappirnar frekar en að lyppast niður svo sem þau hefðu getað gert hefðu veiklundaðri menn staðið vaktina. Lýðræðið hékk á bláþræði.
Stóra lygin
Það sem gerðist í Bandaríkjunum hefur aldrei gerzt áður þar í landi. Trump forseti lýsti því yfir fyrir kosningar að hefði hann ekki sigur gæti skýringin verið sú ein að hann hefði verið rændur sigri. Þannig tala fasistar. Þessi ummæli forsetans jafngiltu yfirlýsingu um að hann ætlaði sjálfur að reyna að hrifsa til sín sigurinn svo sem í ljós kom þegar upptaka var birt af símtali hans við kosningayfirvöld í Georgíu. Þar bauð hann þeim að „finna“ fyrir sig 11.780 atkvæði, en úrslitin höfðu orðið þau að Biden, nú forseti, sigraði Trump í Georgíu með 11.779 atkvæða mun.
Ekki nóg með þetta: Trump heldur til stórfelldrar streitu lyginni um gróf kosningasvik af hálfu demókrata og það gera ásamt honum langflestir þingmenn repúblikana. Hugmyndin um stóru lygina er sótt beint til Hitlers. Repúblikanaflokkurinn er ekki lengur rótgróinn lýðræðisflokkur, nei, hann líkist nú frekar ótíndu glæpagengi. Enda hafa nokkrir helztu samstarfsmenn Trumps forseta fengið og afplánað fangelsisdóma líkt og gerðist í forsetatíð Nixons 1969-1974. Trump sjálfur virðist nú einnig eiga yfir höfði sér ákæru saksóknara í New York fyrir efnahagsbrot frá fyrri tíð og trúlega ýmislegt fleira.
Þarna haldast í hendur styrkur og veikleiki. Veikleikinn er sá að Bandaríkin teljast ekki lengur vera óskorað lýðræðisríki eins og fram kemur í skýrslum Freedom House og annarra stofnana sem kortleggja ástand og þróun lýðræðis um heiminn. Bandaríkin fá nú aðeins 84 stig af 100 mögulegum á lýðræðiskvarða Freedom House. Hnignunin hófst áður en Trump var kjörinn forseti 2016. Repúblikanaflokkurinn byrjaði að rotna löngu fyrr með lygum um meint gereyðingarvopn í Írak í stjórnartíð George W. Bush forseta, vopn sem aldrei fundust, auk margs annars. Lygin var notuð sem átylla fyrir innrás Bandaríkjamanna og nokkurra bandamanna þeirra í Írak 2003. Forsetatíð Trumps var afleiðing hingnunar: hún var myndbirting, ekki orsök. Á hinn bóginn birtist styrkur Bandaríkjanna í því að menn Trumps hafa sem sagt einn af öðrum fengið fangelsisdóma og hann virðist sjálfur líklegur til að lenda inni eins og þeir.
Stigsmunur, ekki eðlismunur
Hverfum nú hingað heim. Ísland fær ekki lengur fullt hús stiga sem óskorað lýðræðisríki samkvæmt skýrslum Freedom House og annarra. Ísland fær nú 94 stig hjá Freedom House borið saman við 100 stig, fullt hús, í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Einkunn Danmerkur hefur fallið niður í 97 stig en það stafar eingöngu af óblíðri meðferð stjórnvalda á innflytjendum. Danmörk stenzt prófið að öllu öðru leyti.
„Alþingismenn höfðu selt sig Samherja og öðrum sækonungum“
Freedom House gefur víðtækari skýringu á lækkun lýðræðiseinkunnar Íslands og tilgreinir sérstaklega spillt tengsl stjórnmála og viðskipta, samþjappað eignarhald á fjölmiðlum og illa meðferð erlends verkafólks auk réttarhneyksla og mútumáls Samherja í Namibíu og víðar. Ætla má að einkunn Íslands haldi áfram að lækka enn um sinn eftir því sem erlendir matsmenn kynnast ástandi landsins betur, þar á meðal til dæmis árásum Samherja á blaðamenn og vandræðalegri þögn flestra valdsmanna um árásirnar. Kæmi fram tillaga á Alþingi um stofnun rannsóknarnefndar til að kanna samskipti Samherja og annarra kvótaþega við stjórnmálamenn og embættismenn yrði hún trúlega felld. Þetta þyrfti ekki að vera svona. Þrír fyrrum yfirmenn L M Ericsson í Svíþjóð sæta nú ákæru þar fyrir mútur í Afríku. Skýrslur Freedom House og annarra slíkra stofnana erlendis virtust áður fyrr endurspegla þá trú að Ísland hlyti að vera eins og Danmörk, Noregur og Svíþjóð, en það er nú liðin tíð.
Hnignun lýðræðis hér heima er ekki gengin jafnlangt og í Bandaríkjunum, rétt er það. En hliðstæðurnar eru eigi að síður skýrar. Hver er munurinn á Bandaríkjaforseta og flokki hans sem neitar að gangast við ósigri í forsetakjöri og reynir til þrautar, jafnvel með ofbeldi og mannfalli, að ræna völdum og stendur jafnframt í vegi fyrir rannsókn málsins og Alþingi sem neitar að viðurkenna úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá sem Alþingi sjálft bauð kjósendum til 2012? Á þessu tvennu er stigsmunur, en enginn eðlismunur. Einu gildir að þjóðaratkvæðagreiðslan var ráðgefandi þar eð íslenzk lög gera ekki ráð fyrir öðru. Í reynd hafa allar þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi frá 1908 nema þessi eina verið bindandi í þeim skilningi að Alþingi virti niðurstöðurnar – þar til nú. Hvað hafði breytzt? Alþingismenn höfðu selt sig Samherja og öðrum sækonungum. Það er meginmunurinn þótt fleira hangi á spýtunni. Þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit 2016 var einnig ráðgefandi samkvæmt lögum en bindandi í reynd.
Hliðstæður
Það sem er sammerkt dæmunum tveim vestan hafs og hér heima er ofbeldi Trumps og repúblikana og Alþingis gegn niðurstöðum lýðræðislegra kosninga, vilji þeirra til að brjóta gegn þeirri grundvallarreglu lýðræðisins að úrslit kosninga skulu standa undir öllum kringumstæðum. Enda fara kosningar fram með reglulegu millibili. Repúblikanar töpuðu kosningunum 2020 en þeir fá tækifæri til að keppa aftur um hylli kjósenda 2022, 2024 og þannig áfram. Þeir sem verða undir í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá þurfa að vísu að bíða lengur en fjögur ár eftir nýju færi þar eð stjórnarskrám er breytt sjaldnar en þingkosningar eru haldnar, en nýtt færi kemur alltaf aftur, það vitum við. Eðlilegast þætti mér að endurskoðun stjórnarskrárinnar hæfist um leið og Alþingi staðfestir nýju stjórnarskrána frá 2011-2013.
Hættan sem Bandaríkjamönnum og heiminum öllum stafar nú af repúblikönum er ekki liðin hjá. Repúblikanar neyta nú víða valda sinna í 27 fylkjum af 50 þar sem ríkisstjórinn kemur úr röðum þeirra, til dæmis í Texas, til að skerða atkvæðisrétt blökkumanna og annarra og búa svo um atkvæðatalningu að þeir, repúblikanar, nái aftur meiri hluta á Bandaríkjaþingi 2022 og forsetaembættinu 2024 hvað sem kosningaúrslitum líður. Þeir vilja ekki lenda í því aftur eins og gerðist í Georgíu í fyrra að kosningayfirvöld í fylkjum sem þeir stjórna neiti að „finna“ fyrir þá þau atkvæði sem þeir telja sig þurfa. Ein leiðin til þess er að ná aftur meiri hluta í þinginu 2022 og sjá til þess í fylkjunum að úrslit forsetakosninganna 2024 verði ekki ákveðin í kjörráðinu (e. electoral college) eins og vant er heldur í þinginu þar sem atkvæði allra fylkjanna 50 myndu vega jafnt óháð fjölda atkvæða og kjósenda. Kalifornía er 70 sinnum mannfleiri en Wyoming. Repúblikanar gera með öðrum orðum út á þrennt í senn ýmist leynt eða ljóst: skerðingu kosningarréttar, svik við talningu atkvæða og misvægi atkvæða milli fylkja. Þeir virðast staðráðnir í að láta valdaránstilraun sína ekki fara út um þúfur öðru sinni. Aðeins einu sinni frá 1988 hefur forsetaframbjóðandi repúblikana hlotið fleiri atkvæði á landsvísu en frambjóðandi demókrata; það var 2004.
Að einu leyti taka Bandaríkin Íslandi fram í þessum samanburði. Bara annar flokkurinn á Bandaríkjaþingi er helsjúkur og hegðar sér eins og handbendi manns sem á margar ákærur fyrir meint lögbrot yfir höfði sér og fangavist verði hann fundinn sekur. Hinn flokkurinn kallar að sönnu ekki allt ömmu sína, en hann er eigi að síður heilbrigð breiðfylking margra þjóðfélagshópa – og hann stóð í lappirnar ásamt dómskerfinu, lögreglunni og kosningayfirvöldum einstakra fylkja og stóðst þannig áhlaup Trumps og þeirra.
Hér heima er staðan önnur. Hér er það veikur minni hluti Alþingis sem hefur tekið sér stöðu við hlið yfirgnæfandi meiri hluta kjósenda í stjórnarskrármálinu gegn meiri hluta þingmanna sem sitja og standa eins og borgunarmenn þeirra bjóða þeim, fyrst bankamennirnir sem keyrðu landið í kaf 2008 og nú aftur kvótaþegarnir í sjávarútvegi. Þarna skilur milli feigs og ófeigs.
Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 þar sem 83% kjósenda lýstu sig fylgjandi auðlindum í þjóðareigu með fullu gjaldi fyrir kvótann og öllu saman hefðu átt að duga stjórnmálamönnum til að ná áttum og segja við Samherja og þau hin: Þjóðin hefur talað, við verðum að virða dóm hennar, þið þurfið héðan í frá að greiða fullt gjald. Þessu tækifæri köstuðu stjórnmálamennirnir frá sér.
Kannski namibískir dómstólar og Interpol bjóði þeim innan tíðar hliðstætt færi á að hrista af sér hlekkina og hlusta loksins á fólkið í landinu. Dugi það ekki, mun lýðræðið virkilega skjálfa eins og hrísla. Þá verða góð ráð dýr.
Athugasemdir