Pólskum ríkisborgurum búsettum á Íslandi fækkaði um 1,5 prósent á síðustu sex mánuðum. Á sama tíma fjölgaði erlendum ríkisborgurum með skráða búsetu hér á landi um hálft prósent. Íbúfjöldi á Íslandi er nú kominn yfir 370 þúsund í fyrsta sinn. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Þjóðskrár.
Alls voru 51.623 erlendir ríkisborgarar skráðir með búseu hér á landi 1. júní síðastliðinn og fjölgaði þeim um 245 frá 1. desember 2020. Enn sem áður eru pólskir ríkisborgarar langfjölmennasti hópurinn en 20.560 Pólverjar voru búsettir hér á landi 1. júní síðastliðinn. Hafði þeim þó fækkað um 309 frá 1. desember síðastliðnum. Næst fjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi eru Litháar, alls 4.582 og fækkaði þeim um 45 á sama tímabili. Rúmenar eru þriðji fjölmennasti hópurinn, 2.334 talsins, og fjölgaði þeim um 96.
Alls búa hér á landi ríkisborgarar 148 ríkja. Á síðustu sex mánuðum hefur fjölgað talsvert í hópi Þjóðverja, Bandaríkjamanna og Frakka hér á landi. Þjóðverjum fjölgaði um 66 talsins, Bandaríkjamönnum um 74 og Frökkum um 72. Af öðrum þjóðernum má nefna að Palestínumönnum hér á landi fjölgaði um 47 og eru þeir nú 126. Þá hefur indverskum ríkisborgurum fjölgað um 41 og eru þeir nú 231 talsins. Ríkisfangslausum einstaklingum með búsetu hér á landi fækkaði um fjóra á tímabilinu og eru nú 43 ríkisfangslausir einstaklingar búsettir hér.
Íslenskum ríkisborgurum fjölgaði á sama tímabili um 1.814 og er nú 319.056 talsins. Alls fjölgaði fólki á Íslandi því um 2.059 og eru nú 370.679 búsettir hér á landi.
Athugasemdir