Kortavelta erlendra ferðamanna í maí mánuði var 95 prósentum hærri en í maí í fyrra. Nam hún 6,5 prósentum af allri kortaveltu í landinu og er það aukning um 2,5 prósentustig frá fyrri mánuði, apríl. Í maí árið 2019, áður en kórónuveirufaraldurinn hófst, nam erlend kortavelta hins vegar 22,3 prósentum af heildakortaveltu.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Alls nam erlend kortavelta í maí um 5,6 milljörðum króna. Erlendir ferðamenn eyddu mestu í „ýmsa ferðaþjónustu“, alls rúmum 1,3 milljörðum króna. Þar á eftir kemur verslun en erlendir ferðamenn eyddu tæpum 1,1 milljarði í verslunum í liðnum mánuði. Þá keyptu erlendir ferðamenn gistingu fyrir 760 milljónir króna.
Erlendir ferðamenn frá Bandaríkjunum voru að baki ríflega þriðjungi allrar erlendrar kortaveltu í maí. Næstir þeim komu Þjóðverjar sem bera ábyrgð á 7 prósentum og Bretar 6,5 prósentum.
Heild greiðslukortaveltu í maí var 86,3 milljarðar króna og jókst hún um 23 prósent milli mánaða. Þá var hún 15,7 prósent meiri en á sama tíma í fyrra. Kortavelta Íslendinga var 10 prósent hærri í maí síðastliðnum en í maí í fyrra. Meðal þess sem hefur aukist verulega eru kaup Íslendingar á innlendri gistiþjónustu en innlend kortavelta gististaða nam rúmum einum milljarði í maí, borið saman við tæplega 600 milljónir í maí í fyrra. Þó er bent á að verðhækkanir geti átt þátt í aukningunni þar sem ekki sé um sömu tilboð að ræða í ár og var í fyrra. Aukningin er að mestu í netverslun sem samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar bendir til að Íslendingar séu að kaupa ferðir fram í tímann og ætli sér að ferðast innanlands í sumar.
Hvað varðar verslun þá má nú merkja samdrátt í áfengissölu í Vínbúðunum, eftir að hún hafði aukist verulega í kórónaveirufaraldrinum. Í apríl síðastliðnum varð 7,8 prósenta samdráttur frá apríl árið 2020 og 8,4 prósenta samdráttur í maí borið saman við maí í fyrra.
Athugasemdir