Samkvæmt könnun Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélags Íslands er nýgengi krabbameins hæst á Suðurnesjum af landinu öllu. Þingmenn Miðflokksins auk eins þingmanns Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að mögulegar orsakir þessa verði rannsakaðar
Könnunin nær til árabilsins 2009 til 2018 og þar kemur í ljós að að nýgengi krabbameina hjá körlum er talsvert hærra á Suðurnesjum en landsmeðaltal og sömuleiðis hærra en nýgengi krabbameina á höfuðborgarsvæðinu. Nýgengi krabbameina hjá konum er lítillega hærra á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu og nokkuð hærra en að meðaltali á landinu öllu. Almennt er hæst nýgengi krabbameina í höfuðborgum og stórum þéttbýlisstöðum.
Á umræddu árabili greindust ríflega 1.000 krabbameinstilvik á Suðurnesjum. Dreifing krabbameina er svipuð og á landsvísu en þó var áberandi hátt nýgengi krabbameina í lungum og í leghálsi. Samkvæmt lýðheilsuvísum Landlæknisembættisins er tíðni reykinga í Reykjanesbæ hærri en annars staðar á landinu og þá er mæting í skimun fyrir leghálskrabbameini lakari þar en annars staðar.
Þingmenn Miðflokksins, ásamt Ásmundi Friðrikssyni þingmanni Sjálfstæðisflokks, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að heilbrigðisráðherra feli Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins að rannsaka nýgengi krabbameina á Suðurnesjum miðaða við aðra landshluta auk þess sem tíðni þekktra áhættuþátta verði könnuð. Þá verði skýrslur sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur látið gera og varða mengun á flugvallarsvæðinu yfirfarnar.
Athugasemdir