Reiknistofa lífeyrissjóða hefur sagt upp samningi við hugbúnaðarfyrirtækið Init. Það hefur um árabil séð um þróun og rekstur tölvukerfis sem er lífæðin í starfsemi fjölda stórra íslenskra lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef Gildis í dag.
Milljóna viðskipti við sig sjálfa
Kveikur ljóstraði upp um hundruð milljóna króna viðskipti Init við lykilstjórnendur og eigendur fyrirtækisins fyrr á árinu. Höfðu starfsmennirnir rukkað Init um þjónustu á sama tíma og þeir höfðu verið á launum sem starfsmenn fyrirtækisins. Til viðbótar hafði Init keypt þjónustu af systurfélagi að nafni Init-rekstur fyrir hundruð milljóna á nokkurra ára tímabili.
Í umfjöllun Kveiks kom fram að á árunum 2015 til 2019 hafi 636 milljónir farið frá Init til Init-rekstrar og aðrar 278 milljónir til þriggja einkahlutafélaga í eigu þriggja eigenda og lykilstarfsmanna Init.
Kveikur vitnaði einnig í stöðuskýrslu sem KPMG gerði vegna áreiðanleikakönnunar á Init, þegar eigendurnir freistuðu þess að selja fyrirtækið. Þar komu fram margvíslegar efasemdir um fyrirkomulag á rekstri Init, svo sem kaupa á þjónustu af systurfélaginu Init-rekstri sem engir skriflegir samningar væru til um.
Láta skoða sinn þátt
Jóakim er í eigu tíu lífeyrissjóða í gegnum eignarhaldsfélagið Reiknistofa lífeyrissjóðanna. Kerfið er líka notað af öðrum félögum, svo sem Eflingu, eins stærsta stéttarfélags landsins. Gildi, sem er einn stærsti lífeyrissjóður landsins, tilkynnti um uppsögn á samningi Reiknistofunnar við Init í dag.
Þar kemur einnig fram að endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hafi verið ráðið til að gera útttekt á starfsháttum bæði Init og Reiknistofunnar. „Félagið mun taka út framkvæmd og efndir Init á samningi við RL og sölu félagsins á þjónustu til þriðja aðila. Einnig verður framkvæmd RL á samningnum og eftirfylgni tekin til skoðunar,“ segir í tilkynningu Gildis.
Almar Guðmundsson hefur einnig verið ráðinn framkvæmdastjóri Reiknistofunnar.
Athugasemdir