Fjölmiðlamaðurinn Sigmar Guðmundsson er kominn í pólitík og skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona og formaður flokksins, leiðir listann.
„Já ég er hættur á RÚV og sagði upp í gær og eðlilega held ég ekki áfram í neinum útsendingum eða slíku. Það á bara eftir að ganga frá hefðbundnum praktískum lausnum sem fylgja starfslokum,“ segir Sigmar.
„Fyrir mig er þetta stór ákvörðun að taka. Þó maður sé inni í pólitíkinni með ákveðnum hætti þegar maður er að fjalla um hana, þá er allt annað þegar maðru tekur beint þátt í henni.“
Löngum ferli lokið
Sigmar hefur starfað í fjölmiðlum í þrjá áratugi. Lengst af á RÚV sem stjórnandi ýmissa vinsælla þátta, bæði í skemmtidagskrá og fréttum. Hann var ritstjóri Kastljóss um tíma en undanfarin ár hefur hann stýrt Morgunútvarpi Rásar 2.
Hann segir að nú hafi verið góður tími til að skipta um kúrs.
„Núna er starfsævin hálfnuð, kannski rúmlega, það, og þá þarf maður að standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort maður vilji vera þar alla ævi eða prófa eitthvað nýtt,“ segir hann.
„Ég veit þetta er starf sem hentar mér vel og ég hef áhuga á því. Síðan er þetta bara löngunin til að prófa eitthvað nýtt, fara í nýjar áttir og takast á við nýjar áskoranir, það er svona persónulega hliðin á þessu.“
Ekki haft áhrif
Sigmar segir stefnu Viðreisnar hafa átt vel við sínar eigin skoðanir. En hefur það haft áhrif á umfjöllun hans hjá RÚV?
„Allir blaðamenn hafa sínar skoðanir og allir blaðamenn sem ég þekki nota kosningaréttinn og greiða atkvæði í kosningum. En skoðanir eru eitt og fagleg umfjöllun annað.” segir hann og bætir við: „Þessu tvennu blandar fólk auðvitað ekki saman í fréttum og blaðamennsku.“
„Skoðanir eru eitt og fagleg umfjöllun annað“
Benedikt Jóhannesson, stofnandi flokksins, hafði freistað þess að vera í forystusæti á listanum en var hafnað af flokknum. Honum bauðst síðasta sæti listans, sem gjarnan er nefnt heiðurssæti, en hafnaði.
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Sjálfstæðisflokk, skipar það sæti listans.
Aðrir sem eru ofarlega á lista Viðreisnar fyrir komandi kosningar eru Thomas Möller, verkfræðingur og ráðgjafi, í 4. sæti, Ástrós Rut Sigurðardóttir þjónustufulltrúi 5. sæti, og Rafn Helgason, umhverfis- og auðlindafræðingur, í 6. sæti.
Athugasemdir