Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segir ekki standa til að beita viðskiptaþvingunum í garð Ísraels. Um 230 Palestínumenn hafa látið lífið í árásum á Gaza-svæðinu undanfarnar vikur, þar af 65 börn, og yfir 1.700 hafa særst. 12 hafa látist í Ísrael í gagnárásum Palestínumanna.
Síðan hún varð fyrst varaformaður Vinstri grænna árið 2003 hefur Katrín hins vegar ítrekað kallað eftir viðskiptabanni gegn Ísrael og hvatt til þess að stjórnvöld andmæli mannréttindabrotum gegn Palestínu. Síðast árið 2015 sagðist hún vilja ræða viðskiptabann, en þá var hún í stjórnarandstöðu. Árið 2014 sagðist hún einnig vilja skoða að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.
„Það hefur ekki verið til umræðu,“ sagði Katrín um viðskiptabann við RÚV nú á þriðjudag. „Þau viðskiptabönn sem við höfum tekið þátt í hafa alltaf byggst á alþjóðlegu samstarfi um slíkar þvinganir. Það hefur ekki verið til umræðu að þessu sinni.“
„Það hefur ekki verið til umræðu að þessu sinni“
Sama dag fundaði hún með Antony Blinken, utanríksiráðherra Bandaríkjanna, og ræddi við hann stöðuna á Gaza-svæðinu. Ítrekaði hún að Ísland viðurkenndi Palestínu sem sjálfstætt ríki, væri fylgjandi tveggja ríkja lausn og sagði Blinken vera sammála sér um að vilja vopnahlé. „Ég vona að þau beiti sér fyrir friðsamlegum lausnum og mér heyrist þau vera að gera það,“ sagði hún um bandarísk stjórnvöld.
Vildi ræða viðskiptabann árið 2015
Árið 2017 var Katrín fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þess efnis að vörur sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu verði merktar. Frá því að hún varð forsætisráðherra hefur málið ítrekað verið endurflutt af öðrum þingmönnum, en ekki fengið afgreiðslu.
Árið 2015 var hún einn af flutningsmönnum sömu tillögu. „Þetta er til að vekja stjórnvöld og neytendur til vitundar um það að sumar vörur sem koma frá Ísrael eru ekki innan viðurkenndra landamæra þess ríkis, heldur koma þær frá ólöglegum landnemabyggðum á hernumdum svæðum,“ sagði Katrín um tillöguna. „Þessar byggðir stríða gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna.“
„Þetta er til að vekja stjórnvöld og neytendur til vitundar“
Sagðist hún vilja sýna í verki að mannréttindabrotum sem eru framin í Palestínu sé andmælt. „Þetta er eitt skref,“ sagði hún um upprunamerkingarnar, en nefndi möguleikann á viðskiptabanni einnig. „Mér finnst alveg ástæða til að ræða hitt en það þarf auðvitað að gera í alþjóðlegu samhengi líka.“
Sama ár samþykkti landsfundur Vinstri grænna ályktun þess efnis að ríkisstjórn Íslands ætti að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Sjálf hafði Katrín ári áður sagst vilja skoða þann möguleika þegar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafði kallað eftir vopnahléi eftir mikið mannfall í árásum Ísraelshers.
Sagði aðgerðir Ísrael minna á þjóðarmorð
Katrín tók enn harðar til orða í grein á vefritinu Múrnum árið 2004, en þá var hún varaformaður Vinstri grænna. Þá höfðu Ísraelsmenn jafnað heimili hundraða Palestínumanna við jörðu í flóttamannaborginni Rafah og uppskorið fordæmingu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir.
„Hér er um að ræða markvissar aðgerðir sem minna óhugnanlega á þjóðarmorð,“ skrifaði Katrín. „Á sama tíma lætur hinn vestræni heimur sér nægja að fordæma ástandið. Hægt virðist að æða í árásarstríð gagnvart öllum öðrum þjóðum í þessum heimshluta en ekki Ísraelsmönnum. Þá má ekki einu sinni beita viðskiptaþvingunum.“
Bætti hún því við að stríð leiddu ekkert gott af sér. „Hins vegar höfum við séð viðskiptaþvinganir skila árangri, eins og í Suður-Afríku, þar sem hvíti minnihlutinn beitti svarta menn takmarkalausu óréttlæti. Þetta ættu þjóðir heims að taka sig saman um en það er reyndar ólíklegt að af því verði á meðan bandarísk stjórnvöld halda hlífiskildi yfir hryðjuverkamönnunum sem sitja við stjórnvölinn í Ísrael. Þetta á almenningur hins vegar að þrýsta á stjórnvöld um að gera og gera sjálfur með því að kaupa ekki ísraelskar vörur undir nokkrum kringumstæðum,“ skrifaði hún.
„Myndir þú ekki vilja viðbrögð frá alþjóðasamfélaginu?“
„Hugsaðu þér að þú værir sjálfur eða sjálf í notalega rúminu þínu í Hraunbænum eða á Vopnafirði eða hvar sem er, og skyndilega værirðu rekinn út, og heimili þitt – með öllum minningum, öllum eigum – jafnað við jörðu. Myndir þú ekki vilja viðbrögð frá alþjóðasamfélaginu? Eitthvað sterkara en að fólk hefði „áhyggjur“?“
Athugasemdir