Um tveimur mánuðum eftir að eldgos hófst á Reykjanesi í fyrsta sinn í tæp 800 ár var byrjað að rukka fyrir aðgang að því. Ástæðan er ekki að eldgosið sé einstakur atburður sem opnar gáttir úr iðrum jarðar, heldur hafa verið opnaðar gáttir gjaldtöku á Íslandi.
Enginn efast um að það sé þörf á að leggja göngustíga og tryggja einhvers konar bílastæði á svæðum sem hafa mikið aðdráttarafl, eða einhvers konar almannaöryggi í ómótstæðilegum náttúruhamförum. En tilkynning landeigenda um að gjaldtaka sé „óumflýjanleg“ stenst ekki skoðun vegna þess að í slíkum aðstæðum eru valkostirnir að minnsta kosti tveir, einkaframkvæmd eða opinber framkvæmd sem við fjármögnum öll saman.
Óumflýjanleiki gjaldtökunnar
Í tilkynningu landeigenda á rukkunarskilti er látið í veðri vaka að gjaldtakan sé álíka óumflýjanleg og gosið sjálft. „Gjaldtakan er nauðsynleg til þess að auka öryggi, bæta aðgengi og þjónustu og til þess að vernda náttúruna. Takk fyrir að sýna því skilning.“
Ef horft er fram hjá því að alls ekki allir sýna gjaldtökunni skilning – og hafa því ekki áunnið sér neinar tengdar þakkir – byggja aðrar forsendur á einfaldri rót: Vangetu og -vilja stjórnvalda til að tryggja lágmarksinnviði við mikilvægustu staði landsins.
Ríkisstjórn Katrínar reisir stíflu
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður mesta náttúruverndarflokks Íslands, tilkynnti þó að eldgosið hefði verið stíflað í vikunni og að ríkisstjórn hennar hefði í hyggju að hækka stífluna upp í 8 metra hæð. Í einhvers konar heljarhliðstæðu við helsta tilvistartilefni Vinstri grænna unnu stórvirkar vinnuvélar að því að breyta farveginum og hindra náttúrulegan framgang og ásýnd svæðisins, án þess að framkvæmdin sjálf færi í viðeigandi matsfarveg. Það kostaði 20 þúsund bílastæðagjöld, eða 20 milljónir króna. Tilgangurinn var tilraun til að koma í veg fyrir að hraunið rynni á endanum yfir Suðurstrandarveg og niðurgrafinn ljósleiðarakapal.
Fyrir mánuði síðan hafði fjórðugur þjóðarinnar séð eldgosið með eigin augum. Auðvelt er að áætla að ónýttar tekjur landeigenda af þeim hópi nemi um 30–45 milljónum króna, miðað við tvo eða þrjá í bíl. Þau hefðu getað blokkerað hraunið tvisvar fyrir tekjurnar í tvo mánuði, en hraunið hefði runnið yfir og unnið.
Áskoranir um gjaldtöku
Gjaldtakan við Geldingadali er í samræmi við áskoranir margra, sem vildu fá að borga fyrir að sjá eldgosið. Þekktur talsmaður bíllauss lífsstíls, formaður Félags atvinnurekenda, helsti hugmyndafræðingur nýfrjálshyggju Sjálfstæðisflokksins og fleiri kölluðu eftir því að rukkað yrði fyrir bílastæði nærri gosinu. En eldgosið er ekki undantekningin, heldur regla sem er að festa sig í sessi.
Áður en yfir lýkur er eins gott að vera bíllaus, atvinnurekandi eða æviráðinn ríkisstarfsmaður með aðgengi að aukaverkefnum, því kostnaðurinn gæti safnast upp og orðið tilfinnanlegur. Þetta er rétt að byrja.
Rukkland
Bæjarstjórnin í Hveragerði ákvað fyrir nokkrum mánuðum að rukka inn í Reykjadal. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar er með áform um að rukka fyrir bílastæði að hverasvæðinu hjá Seltúni í Krýsuvík og líka við hellinn Leiðarenda ofan við Helgafell.
Einkaaðilar hafa verið að taka við sér. Rukkað er að Seljalandsfossi. Lengi hefur verið rukkað í Kerið, undir þeim formerkjum að viðhalda göngustíg og bílastæði, en ríkið lagði fram fjárframlög til framkvæmdanna. Hugmyndir hafa verið um að rukka mun víðar.
Þrír þekktir fjárfestar leigðu síðan land í Borgarfirðinum árið 2017 til þess að rukka fyrir bílastæði við Hraunfossa, bílastæði sem Vegagerðin hafði lagt. Og eftir að lögreglan stöðvaði vörð við gjaldtökuna reyndu þeir aftur við hana. „Þessir menn eru beinlínis að ræna hér fólk um miðjan dag, vitandi að þeir brjóta lög með því að innheimta bílastæðagjöld. Græðgin á sér hins vegar engin takmörk og þessir menn svífast einskis,“ sagði maður í nágrenninu sem skapar raunverulegt virði fyrir fólk með því að selja veitingar.
„Þessir menn eru beinlínis að ræna hér fólk um miðjan dag“
Sumt af þessu minnir á tollheimtuæði sem sögulega hefur fallið á landeigendur á lykilsvæðum þegar ríkisvald veikist. Sem dæmi má nefna svokallaða ránsriddara (Raubritter) við Rínarfljót þegar Heilaga rómverska keisaradæmið var að líða undir lok, sem högnuðust óhóflega á nauðsynlegum ferðum fólks í skjóli einokunarstöðu, andstætt almannahag. Hátindur þeirra var á 13. öld þegar enginn keisari var til staðar, en á sömu öld lögleiddu Íslendingar frjálsa för um landið með lögbókinni Járnsíðu. Þeir sem hafa einkarétt að náttúruperlum Íslands geta að sama skapi rukkað, en með vilja yfirvalda sem sjálf rukka.
Nú þegar er rukkað inn í Skaftafell rafrænt, af sama fyrirtæki og hjálpar til við innheimtuna að eldgosinu. Rafrænt eftirlit fyrirtækisins Parka, sem er í eigu Computer Vision ehf., sem kveðst „leiðandi í nýtingu myndgreiningar til eftirlits og innheimtu gjalda“, nemur þá númeraplötuna og er sendur reikningur. Fólk hefur kvartað undan því að skapa sér óvart gjaldtöku með því að keyra að þjóðgarðinum í Skaftafelli þótt það ætli sér ekki að dvelja þar.
Öryggisfyrirtækið Securitas er komið með þá hliðarbúgrein að rukka fyrir bílastæði, enda er fyrirhugað að halda úti öryggisgæslu. Ósátt fólk í Skeifunni varð fyrir því að vera gjaldskylt við einkafyrirtæki án vitundar sinnar. En auðvitað er mikill munur á því að rukka í bílastæði þar sem skortur er á landi og þar sem bílastæði taka verðmætt pláss frá öðrum í þéttbýli. Þess vegna var ekki heimilt að rukka í bílastæði í dreifbýli fyrr en árið 2017 þegar Jón Gunnarsson, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, náði í gegn lagabreytingu um að heimila hana í góðri sátt við Viðreisn og Bjarta framtíð.
Rafbílar og hugsanavillan
Undirliggjandi í myndun Rukklands er að einni helstu tekjulind stjórnvalda er ógnað með því að fólk hætti að nota jarðefnaeldsneyti. Það er jú skattlagt. Á sama tíma er rafmagn í þar til gerða bíla ekki skattlagt til að greiða fyrir lagningu vega. Þegar horft er til hagkerfisins í heild verður hins vegar að teljast sjálfbærara og hagkvæmara að nýta innlenda orku til þess að knýja samgöngur heldur en innflutt eldsneyti. Við fluttum inn eldsneyti fyrir tæpa 100 milljarða króna árið 2019.
Það að þetta sé vandamál er hugsanavilla, hugræn hólfun (mental accounting). Ríkissjóður er að tapa tekjulind, en hagkerfið er í heild að hagnast með sparnaði, sem skilar sér aftur til ríkissjóðs í einhverju margfeldi.
Því næst eru áhyggjur af því að sveitarfélög, eða jafnvel þjóðgarðar, fái ekki nægar tekjur af flæði ferðamanna. En til þess er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sem fékk 1,5 milljarða til úthlutunar 2021.
Þá er komið að réttlætinu. Að skattleggja eftir notkun. Hvers vegna ætti bíllaus einstaklingur eða einhver tregur til aksturs að greiða fyrir vegi annarra?
Svarið við því getur legið í annarri sýn á vegakerfi. Vegakerfi er samgæði, sjálfsagðir innviðir, sem greitt er fyrir af sameiginlegum sjóðum sem fjármagnaðir eru með sköttum. Sama getur gilt um salernisaðstöðu á lykilstöðum.
Hvers vegna? Því rétt eins og þegar kemur að heilbrigðiskerfinu eru sterkar vísbendingar um að einkarekstur náttúruperla leiði til sóunar og hagsmunaáreksturs. Ávinningurinn af einkarekstri er yfirskyggður af hættunni á því að landeigendur eða fyrirtæki gerist ævarandi milliliðir sem hafa hag af og sumir segja skyldu til að hámarka arðsemi sína, ekki aðeins með því að lágmarka kostnað heldur að hámarka tekjur sem þau fá af tollheimtu á almenningi á forsendum einokunarstöðu. Um leið skapast hætta á offramkvæmdum.
Malbika hálendið?
Lýsandi fyrir áherslur í umræðunni um íslenska náttúru er að nýlega var haldið málþing á vegum Vegagerðarinnar þar sem ein grunnhugmyndin var hvort það ætti að fá einkaaðila til að malbika upphækkaðan veg yfir hálendið, einhverjar mestu óbyggðir Evrópu, til þess að flýta för milli Suðurlands og Norðurlands yfir sumartímann.
Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) hefur hins vegar varað Íslendinga við því að ganga of langt í uppbyggingu innviða því þeir skerða upplifun af ósnortnum víðernum. „Í dag njóta íslensku óbyggðirnar og einstakt umhverfi vaxandi viðurkenningar sem mikilvæg efnahagsleg auðlind,“ sagði í skýrslu stofnunarinnar.
Allir eru hins vegar væntanlega sammála því að það er nauðsynlegt að byggja upp – eða kannski frekar varða veginn. Spurningin er hins vegar hvort uppbyggingin sé á forsendum þess að vernda og viðhalda náttúrunni, eða til þess að skapa fjárfestingarkost og arð fyrir eigendur.
Það sem verður ekki umflúið
Það er ekki „óumflýjanlegt“ að landeigendur rukki fyrir aðgengi að náttúrunni eða náttúruperlum, eins og eigendur hraunsins á Hrauni halda fram. Ein ástæðan er að íslenska ríkið hefur þegar veitt 10 milljónum króna til uppbyggingar á sama svæði, meðal annars til að tryggja bílastæði, skilti, merkingar og frágang á slóðum. Það gæti mögulega lagt enn meira til ef stífluframkvæmdum lýkur.
Hins vegar er óumflýjanlegt að aðgengi að náttúruperlum verði eftirsóttur fjárfestingarkostur fyrir fjársterka aðila sem vilja ávaxta fé. Náttúruperlan verður ekki hluti af samgæðum almennings, heldur framseld einkaeign með takmörkuðu aðgengi á grundvelli einokunarstöðu í hagnaðarskyni. Tilgangurinn verður ekki lengur að vernda svæðið vegna þess að náttúran hafi gildi í sjálfri sér, heldur verður um einkaeign að ræða. Eldgosið ehf. verður án vafa ein arðbærasta eign landsins.
Eldgos til sölu
Landeigendur í Geldingadölum hafa nú þegar íhugað að selja landið og eldgosið með. Talsmaður landeigenda segir að jörðin sé „föl fyrir rétt verð“, eins og hann sagði: „Er ekki allt falt fyrir einhverja peninga? Það snýst náttúrlega allt um krónur og aura þegar upp er staðið, er það ekki?“
Sumir myndu segja að náttúran eða hennar undraverðustu fyrirbæri ættu ekki að vera föl; að allt sé ekki falt heldur margfalt meira virði óselt. Að ef það ætti að raða í virðisröð væri það fyrst virði í sjálfri sér, svo virði fyrir okkur öll en síðast virði fyrir einkaeigendur. Líklegir kaupendur eru í hópi helstu stærstu fjárfesta eða helsta auðfólks Íslands, eða erlendir auðkýfingar eins og James Ratcliffe, sem var áður breskur en flutti til Mónakó til að lækka skattgreiðslur, og hefur keypt um 1% Íslands á síðustu árum. Við vitum síðan um marga sem hafa hagnast verulega á sameiginlegum auðlindum Íslendinga og vantar eitthvað til að festa fé sitt í. Og eins og við vitum verður þá ekki aftur snúið þegar féð hefur verið fest. Störfum verður ekki ógnað og eignir ekki gerðar upptækar.
Verðmat á eldgosi
Ef við gleymum virði í sjálfu sér er nærtækasta leiðin til að verðmeta eldgos að greina greiðsluvilja fólks, margfalda hann ár eftir ár og draga frá rekstrarkostnað og svo kostnað við framkvæmdir í upphafi. Þegar búið er að leggja bílastæðið, reisa salernin, borga starfsmönnum, eldgosaöryggisvörðum, forstöðumönnum, er arðurinn ört vaxandi, viðvarandi og líklega verulegur. Mismunurinn af grunnrekstri aðstöðu, ef einhvern þarf umfram venjulegan veitingastað, og innheimtugjaldi, er síðan arðurinn fyrir eigendur.
Út frá hagsmunum almennings er arðurinn í raun einföld sóun, greiðsla fyrir óþarfan millilið sem skapar ekkert virði. Um leið er fyrirbærið annað. Þér er ekki lengur frjálst að skoða landið, þú þarft að borga, því þetta er ekki landið okkar, heldur landið þeirra. Fyrir fæsta er greiðslan þung, og síst þá sem taka ákvarðanir, en marga mun muna um hana þegar Rukklandið er fullkomnað.
Almannagæði eða einkagæði
Spurningunni um það hvort náttúran er samgæði eða einkagæði verður aðeins svarað ef við svörum tveimur öðrum spurningum: Er hægt að útiloka aðgengi og rýrir notkun eins á gæðunum notagildi annars á þeim?
Auðvelt er að fyrirbyggja að umferð fólks um eldgosasvæðið eyðileggi fyrir öðrum. Jafnvel ekki mikið flóknara en að stífla hraunið, sem ríkisstjórnin hefur þegar gert. Í öðru lagi er ekki hægt að svara spurningunni um hvort hægt sé að útiloka aðra frá svæðinu nema að horfa á ákvarðanir yfirvalda, í þessu tilfelli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eða þingmeirihlutans að baki henni. Lög sem eru sett ráða um frelsi fólks til að ferðast eða hamla för. Það er á endanum hún sem svarar því fyrir okkur hvort Ísland er landið okkar, eða landið þeirra sem við borgum fyrir aðgengi að.
En ef einhver hélt að ef logandi kvika ylli upp úr jörðinni, yrði hún ekki einkavædd áður en hún storknaði, hefur viðkomandi haft rangt fyrir sér.
Athugasemdir