Stjórnarformaður Salmar, stærsta hluthafa íslenska laxeldisfyrirtækisins Arnarlax sem er stærsti hagsmunaaðilinn í sjókkvíaeldi á eldislaxi við Íslandsstrendur, spáir því að á næstu 10 árum muni sjókvíaeldi hætta að verða notað sem framleiðsluaðferð í heiminum. Þetta kemur fram í viðtali við stjórnarformann Salmar, Atle Eide, sem birt var í sjávarútvegsblaðinu Intrafish í síðustu viku.
Atli er fyrrverandi forstjóri laxeldisrisans Mowi og hefur hann 30 ára reynslu af störfum í laxeldisiðnaðinum.
Engar sjókvíar eftir 10 ár
Í viðtalinu segir Atle, sem er Norðmaður, að ný tækniþróun og krafa um sjálfbæra framleiðslu muni binda enda á framleiðslu á eldislaxi í sjókvíum. „Við munum líklega ekki sjá hefðbundnar, alveg opnar sjókvíar neins staðar árið 2030,“ segir Atli Eide í viðtalinu við Intrafish.
Með nýrri tækni á Atle við landeldi á fiski og eða aflandseldi í risastórum mannvirkjum lengst úti á hafsjó þar sem umhverfisáhrif eru minni en í sjókvíaeldinu.
„Fiskeldi í sjó hefur vaxið mikið síðustu ár, þjóðinni til heilla“
Samtímis þá áforma íslensk laxeldisfyrirtæki, meðal annars með Salmar sem stærsta hluthafa Arnarlax i broddi fylkingar sem stærsta hagsmunaðilann í íslensku laxeldi, og hagsmunasamtök þeirra, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), að reyna að þrýsta á um stóraukna framleiðslu á eldislaxi í sjókvíum við Íslandsstrendur.
Í frétt á heimasíðu sinni í síðasta mánuði sagði SFS til dæmis um 10 þúsund sjókvíaeldi í Seyðisfirði: „Fiskeldi í sjó hefur vaxið mikið síðustu ár, þjóðinni til heilla. Fiskeldi Austfjarða hf. áformar allt að 10 þúsund tonna framleiðslu á laxi í Seyðisfirði. Eins og gefur að skilja eru sumir fylgjandi þeim áformum en aðrir leggjast gegn þeim. En hvað þýða 10 þúsund tonn fyrir Seyðisfjörð?“
Stjórnarformaður Arnarlax vill 500 þúsund tonna framleiðslu
Í grein í Morgunblaðinu í lok mars árið 2020 sagði Kjartan Ólafsson stjórnarformaður og einn af hluthöfum Arnarlax, að Ísland geti framleitt allt að 500 þúsund tonn af eldislaxi. Þetta er langtum meira en þau 140 þúsund tonn sem Hafrannsóknastofnun hefur mælt með að sé raunhæf framleiðsla hér á landi miðað við burðarþol þeirra fjarða sem stofnunin hefur kannað.
„Með 500.000 tonna ársframleiðslu á laxfiski mætti margfalda útflutningsverðmæti sjávarafurða“
Í greininni sagði Kjartan: „Með 500.000 tonna ársframleiðslu á laxfiski mætti margfalda útflutningsverðmæti sjávarafurða og fylgja þar með farsælli vegferð vinaþjóða okkar [Noregs og Færeyja].“
Samkvæmt Kjartani liggur ein möguleg leið Íslands út úr þeim efnahagslegu erfiðleikum sem COVID-19 faraldurinn ber með sér í því að „rækta bláu akrana sem finnast í efnahagslögsögu landsins“. Það er að segja að stunda sjókvíaeldi í fjörðum Íslands, „bláu ökrunum“.
Til þess að þetta megi verða þurfa stjórnmálamenn og stjórnvöld hins vegar að ganga í takt með laxeldisfyrirtækjunum eins og Kjartan sagði í niðurlagi sínu í greininni: „Því felast mikil tækifæri fyrir Íslendinga í að rækta fisk á bláu ökrunum okkar með stóraukinni áherslu á fiskeldi. Skýr stefna og markmiðasetning yfirvalda er nauðsynleg til að byggja ofan á þekkingu okkar og reynslu í sölu og framleiðslu sjávarafurða og tryggja þannig stöðu okkar sem leiðandi sjávarútvegsþjóð í heiminum til framtíðar.“
Staðan er því sú að samtímis og stjórnarformaður stærsta hagsmunaðilans í íslensku laxeldi, Salmar AS sem er ráðandi hluthafi í Arnarlaxi, bendir á að sjókvíaeldi sé að verða úreld framleiðsluaðferð þá berst Arnarlax fyrir því að sjókvíaeldi á Íslandi verði stóraukið.
Eide: Kröfur samfélagsins hafa breyst
Í viðtalinu við Intrafish í síðustu viku sagði Atli Eide að kröfur samfélagsins hefðu breyst svo mikið og að tækniþroun samtímans hefði gert það að verkum að eðlisbreyting í laxeldisiðnaðinum gæti jafnvel verið fjárhagslega hagkvæm og arðbærari til lengri tíma litið en að stunda sjóakvíaeldi. „Kröfur samfélagsins hafa breyst svo mikið og tækniþróunin mun gera það arðbært að breytast,“ segir Atli Eide í viðtalinu.
Þesis rök Atla Eide fyrir endalokum sjókvíaeldis byggja því ekki eingöngu á því að þessi framleiðsluaðferð muni hætta að vera notuð vegna þess að hún er ekki sjálfbær og umhverfisvæn heldur einnig að laxeldisfyrirtækin muni hætta að nota hana af fjárhagslegum ástæðum. Í gegnum tíðina hafa rökin gegn sjókvíaeldi einkum byggt á umhverfislegum rökum en ekki fjárhagslegum.
Blaðamaður Intrafish segir svo að þessi spá Atla Eide sé afar merkileg í ljósi þess hver hann er: „Þetta er stórmerkileg spá frá fyrrverandi forstjóra stærsta laxeldisfyrirtækis í heimi.“
Sama dag og viðtalið við Eide var birt í síðustu viku var greint frá því að hann myndi hætta sem stjórnarformaður Salmar. Atle hættir þann 8. júní.
Athugasemdir