Á undanförnum árum hafa átt sér stað miklar breytingar hjá Nýlistasafninu. Safnið er orðið viðurkennt safn og starfar í samræmi við siðareglur ICOM. Starfsemin hefur flutt í nýtt og frábært húsnæði og í fyrsta skipti með leigusamning til 15 ára. Hvort tveggja markar ákveðin skil og framundan er að takast á við eina af þversögnunum í lífinu: að halda í ferskleikann þótt maður eldist. Við Nýló vitum bæði tvö hvað það þýðir, enda var safnið stofnað 1978 og ég líka. En það er gott að eldast og það batnar flest með aldrinum.
Listræn sýn mín fyrir Nýlistasafnið er einfaldlega: Að leggja áherslu á það sem er að koma og leggja rækt við það sem var.
- Nýló á áfram að vera fremst safna þegar kemur að samtímalist og vera í fararbroddi hér á landi þegar kemur að því að sýna framúrskarandi, áhugaverða, tilraunakennda, ögrandi og krefjandi listsköpun.
- Nýló á að styðja við yngri jafnt sem eldri listamenn og listamenn eiga að upplifa að þeir geti haft áhrif á starfsemi safnsins, að þetta sé safnið þeirra.
- Nýló á að nýta stöðuna og tækifærin framundan til að tryggja sinn fjárhagslega stöðugleika.
- Nýló á áfram að vera leiðandi í rannsóknum á frumkvæði listamanna, listamannareknum rýmum og gjörningalist með áframhaldandi heimildasöfnun um þessa þætti íslenskrar listasögu.
- Safneign Nýlistasafnsins þarf að vera sýnileg í þeim skilningi að hún sé í senn arfur sem ber að virða og skilja og hvati til að skapa nýja list og vekja áframhaldandi umræður.
Mín listræna sýn tekur tillit til þeirra áskorana sem ég tel Nýlistasafnið standa frammi fyrir í dag. Ég vil nýta þennan tímapunkt sem tímabil jákvæðrar spennu, sem aflvaka fyrir næsta kafla í sögu safnsins. Sem stjórnarformaður Nýlistasafnsins vil ég að félagsmenn upplifi að það sé hlustað á þá og að þeir upplifi sig sem heild. Við náum þessu með virku samtali og jafnræði félagsmanna og kynslóða, með því að auka sýnileika á verkum félagsmanna óháð aldri. Til að tryggja þetta tel ég m.a. mikilvægt að Nýló setji aftur af stað Grasrótarsýningar eins og tíðkuðust hér á árum áður.
Stöðugleiki varðandi fjármögnun safnsins er önnur áskorun og því miður þekkt stærð í menningarstarfi. Heimsfaraldurinn kann að leiða af sér efnahagskreppu og framundan eru ár þar sem slíkum áskorunum mun fjölga til muna. Sem stjórnarformaður vil ég miðla þeirri þekkingu sem ég öðlaðist sem formaður SÍM sem meðal annars skilaði árangri í herferðinni Við borgum myndlistarmönnum. Ég vil nýta yfirgripsmikla reynslu mína þegar kemur að umsóknum í styrkjakerfi hér á landi sem og erlendis til að vinna að fjármögnun safnsins. Ég vil leggja áherslu á að auka sýnileikann, efla safnbúðina og nýta rými safnsins til að laða að fleiri gesti. Ég tel að slík nálgun skili sér í breiðara samtali við þá aðila sem munu koma að fjármögnun safnsins, hvort sem það er ríki, borg eða einstaklingar.
Heilbrigð umgjörð myndlistar og góður rekstur safns eru nauðsynlegir þættir af áhugaverðri og framsækinni menningarstarfsemi. Arfur Nýlistasafnsins og sögunnar geta verið þungur eins og arfleifð oft er, en hann býr einnig yfir innblæstri og lífæð svo safnið megi vera lifandi vettvangur.
Ég tel að mín þekking, reynsla, frumkvæði, framkvæmdagleði, húmor og heiðarleiki muni nýtast vel bjartri framtíð Nýlistasafnsins.
Athugasemdir